Fara í efni

Ríflega 700 hátíðargestir 1. maí

Íþróttahöllin á Húsavík var þétt setin 1. maí þegar ríflega 700 hátíðargestir mættu til að fagna degi verkalýðsins 1. maí. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda tókst öllum að finna sér sæti til að njóta skemmtiatriðanna. Hátíðardagskráin var þétt skipuð af úrvalsatriðum. Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis flutti ávarp við setningu hátíðarinnar og Steini Hall flutti síðan Internationalinn í tilefni dagsins.

Íþróttahöllin á Húsavík var þétt setin 1. maí þegar ríflega 700 hátíðargestir mættu til að fagna degi verkalýðsins 1. maí. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda tókst öllum að finna sér sæti til að njóta skemmtiatriðanna.
Hátíðardagskráin var þétt skipuð af úrvalsatriðum. Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis flutti ávarp við setningu hátíðarinnar og Steini Hall flutti síðan Internationalinn í tilefni dagsins.

Marimba hópur Tónlistarskóla Húsavíkur tók síðan við með tónlistarflutning og krakkar úr Tónlistarsmiðjunni ,,Líf án áfengis" stigu á stokk með dægurlög við mikinn fögnuð áheyrenda. Lára Sóley Jóhannsdóttir lék snilldarlega á fiðlu við undirleik Aladár Rácz. Óskar Pétursson, stórtenór og skemmtikraftur sýndi lipra takta og skemmti jafnt ungum sem öldnum með söng og sprelli. Skúli Thoroddsen framkvæmdarstjóri Starfsgreinasambands Íslands flutti síðan hátíðarræðu í tilefni dagsins.
Síðastir á svið voru svo Ljótu Hálfvitarnir með tónlistaratriði eins og þeim einum er lagið enda líklega ekki á færi annarra.
Að loknum skemmtiatriðum buðu stéttarfélögin upp á kaffiveitingar og þrátt fyrir þennan mikla fjölda hátíðargesta tókst á skammri stund að skenkja öllum tertu sem vildu.
Stéttarfélögin vilja þakka öllum þeim sem lögðu höndina á plóginn við að gera þessa hátíð svo glæsilega sem raun ber vitni og jafnframt þakka öllum þeim sem lögðu leið sína í íþróttahöllina til að fagna þessum degi með okkur.

Nánar á vef Stéttarfélagana í Þingeyjarslýslum.