Römpum upp Húsavík
Í gær var vígsluhátíð við Heimabakarí þar sem formlega voru teknir í notkun fyrstu ramparnir í verkefninu Römpum upp Húsavík.
Römpum upp Ísland (RUÍ) er ríflega tveggja ára gamalt verkefni, en því var formlega hleypt af stokkunum þann 11. mars 2021.
Tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi . Það er Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, sem er hvatamaður verkefnisins og hefur lagt í það mikla fjármuni úr eigin vasa. Einnig eru í stofnfé sjóðsins framlög einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og stofnana sem vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra um allt land.
Markmiðið fyrst var 1000 rampar um allt Ísland á 4 árum, núna er búið að hækka markmiðið í 1500 rampa á 4 árum og gengur verkefnið vonum framar enda málsstaðurinn góður.
Staðsetning rampa sem verið er að vinna að á Húsavík er eftirfarandi.
- Garðarsbraut 5, v. Krambúðina
- Garðarsbraut 15 fyrir framan Hárform
- Garðarsbraut 15 Heimabakarí
- Garðarsbraut 26 Fundarsalur Stéttarfélaganna
- Suðurgarður 2, Ísfell
- Laugarbrekka 26, Cape Hotel
Húsavík er fyrsti viðkomustaður verkefnisins norðan heiða og því vígsluathöfnin í gær sú fyrsta í verkefninu á Norðurlandi. Hildur Sigurgeirsdóttir, 23 ára íbúi á Húsavík, klippti á borðann og vígði rampinn.
RUÍ gerir rampa viðkomandi að kostnaðarlausu en sinnir eingöngu aðgengi að verslunum, veitingastöðum og annarri þjónustu í eigu einkaaðila. Sveitarfélagið sér um undirbúningsvinnu og leggur starfsmönnum til húsnæði og fæði á verktíma.
Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hve hratt verkin og vel verkin hafa verið unnin hér á Húsavík. Enda voru þau vel undirbúin af hendi RUÍ og Norðurþings en þar á Ketill Gauti, verkefnastjóri á framkvæmdasviði miklar þakkir skildar fyrir vel unnin störf.
Norðurþing þakkar gott samstarf við RUÍ og þakkar einnig fyrirtækjaeigendum á Húsavík fyrir góðar undirtektir og vilja til að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að sínum stofnunum.