Sameiginleg fréttatilkynning iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Norðurþings
Aflþörf versins er 53 MW í fyrri áfanga og áætlað er að 48 MW komi frá hinni nýju virkjun Landsvirkjunar að Þeistareykjum.
Fyrirvörum, sem voru í samningum Sveitarfélagsins Norðurþings og íslenska ríkisins við þýska fyrirtækið PCC SE og dótturfélag þess PCC BakkiSilicon hf. um byggingu og rekstur kísilvers á Bakka, hefur nú verið aflétt og því munu fljótlega hefjast margvíslegar framkvæmdir tengdar uppbyggingu þess og iðnaðarsvæðisins í heild sinni.
Byggingarkostnaður kísilversins er talinn verða um USD 300 milljónir eða nálægt 40 milljörðum íslenskra króna. Áætlað er að allt að 400 manns starfi við uppbygginguna og að við fyrri áfanga versins muni skapast um 120 framtíðarstörf, auk afleiddra starfa. Áætlanir gera ráð fyrir að framleiðsla geti hafist í árslok 2017.
Auk byggingar kísilversins verður samhliða ráðist í hafnar- og vegaframkvæmdir sem, auk þess að þjónusta rekstur PCC BakkaSilicon hf., búa í haginn fyrir frekari iðnaðar-uppbyggingu á Bakka. Því til viðbótar má nefna framkvæmdir Landvirkjunar að Þeistareykjum og fyrirhugaða línulögn Landsnets hf. til Húsavíkur, en hvoru tveggja mun styrkja mjög innviði sveitarfélaganna á svæðinu og gefa kost á frekari atvinnuuppbyggingu á NA-horninu.
Frekari upplýsingar veita:
Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings, sími 464 6100, kristjanthor@nordurthing.is
og
Þórður Reynisson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, thordur.reynisson@anr.is