Samkomulag um kaup á björgunarbát undirritað.
Í gær skrifuðu Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri f.h. Norðurþings og Birgir Mikaelsson, formaður f.h. Björgunarsveitarinnar Garðars undir samkomulag vegna kaupa á nýjum björgunarbát fyrir sveitina.
Að því tilefni var tilkynnt um nafngift á hinum nýja bát, Villi Páls. Það nafn var valið eftir nafnasamkeppni á dögunum og þykir vel til fundið þar sem Villi var einn af stofnendum Björgunarsveitarinnar og formaður hennar í 22 ár.
Markmið samkomulagsins er að tryggja viðbragð og getu Björgunarsveitarinnar Garðars til að sinna þeim verkefnum sem sveitinni eru ætluð hér á svæðinu og í næsta nágrenni. Mjög mikilvægt er að á svæðinu sé öflugt skip sem tryggir öryggi sæfarenda og getur sinnt viðbragðsútköllum fljótt og vel því umferð um Skjálfandaflóa hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Það er m.a. tilkomið vegna hvalaskoðunar, strandveiða, farþegaskipa og aukinna farmflutninga vegna Bakka og Eimskip.
Landhelgisgæslan og Slysavarnafélagið Landsbjörg unnu greiningavinnu um öryggi sæfarenda á Skjálfanda og mátu úrbóta þörf hið fyrsta. Því er ráðist í kaup á nýjum björgunarbát sem er stórt verkefni upp á um 80 milljónir króna. Dómsmálaráðuneytið leggur til helming kaupverðs og því er hlutur Björgunarsveitarinnar um 40 milljónir króna. Björgunarsveitin leitaði til Norðurþings og tók byggðaráð erindið fyrir á fundi sínum þann 3. nóvember. Þar samþykkti ráðið að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við Björgunarsveitina vegna kaupanna og að heildarkostnaður Norðurþings verði allt að 20 m.kr, greiðslur skipt í fjórar jafnar greiðslur á árunum 2022- 2025. Sveitarstjórn staðfesti fyrirkomulagið með afgreiðslu fjárhagsáætlunar þann 1. desember sl. Eftirstöðvar kaupverðs, um 20 milljónir verða fjármagnaðar af Björgunarsveitinni með frekari styrkjum frá fyrirtækjum og sjálfsaflafé.