Samningur undirritaður við FabLab-Húsavík
Í gær undirrituðu Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, og Stefán Pétur Sólveigarson, verkefnastjóri FabLab-Húsavík samning Norðurþings við FabLab-Húsavík.
Byggðaráð samþykkti samninginn þann 12. maí sl. en honum er ætlað að tryggja grunnfjárupphæð til rekstrar FabLab smiðjunnar á Húsavík til næstu þriggja ára með árlegu framlagi Norðurþings sem kemur á móti fjármögnun ríkisins og eflir möguleika á öflun sjálfsaflafjár. Norðurþing greiðir 5.000.000,- kr árlegt rekstrarframlag til FabLab-Húsavík árin 2022, 2023 og 2024.
Með samningnum er ætlun að stuðla sérstaklega að þátttöku starfsfólks í skólum Norðurþings í nýsköpun í kennslu og kennsluháttum nemenda, stuðla að auknu tæknilæsi nemenda og annara íbúa samfélagsins. Aðilar þessa samnings setja sér það markmið að efla samstarf sitt og þannig styrkja stoðir nýsköpunar í sveitarfélaginu til framtíðar.
Fab lab er smiðja með tækjabúnaði til ýmiskonar framleiðslu, sem gefur einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa sköpunargáfu og hrinda hugmyndum í framkvæmd með því að móta, hanna og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni (sjá nánar á fablab.is). Almenn tilhögunar FabLab-smiðja á Íslandi er með þeim hætti að ríkisvaldið veitir rekstrarframlag frá annars vegar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og hins vegar mennta- og barnamálaráðuneyti og sveitarfélag á svæði FabLab smiðjunnar kemur að rekstri með fjárframlag á móti.
FabLab-Húsavík er hluti af nýsköpunar- og þekkingarklasanum sem er til húsa á Stéttinni við Hafnarstéttina á Húsavík.
Vígsla Stéttarinnar
Föstudaginn 9. desember mun Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opna með formlegum hætti nýja aðstöðu þekkingarklasans á Hafnarstétt á Húsavík undir heitinu STÉTTIN. Langanes ehf, félag Bjarna Aðalgeirssonar og fjölskyldu, á þær fasteignir sem um ræðir og hefur staðið straum af vönduðum endurbótum og viðbyggingu. Húseigendur munu við vígsluna afhenda síðasta hluta hins endurbætta húsnæðis þessu samfélagi stofnana á sviði rannsókna, menntunar og nýsköpunar.
Forseti Íslands mun ávarpa kl. 16:15 í miðrými hússins og fulltrúar húseigenda og/eða íbúa hússins kynna aðstöðuna stuttlega. Þá verður opið hús fyrir íbúa og áhugasama í kjölfarið og starfsfólk mun sitja fyrir svörum og sýna gestum aðstöðuna og starfsemina sem fram fer.