Skólaslit Öxarfjarðarskóla
Skólaslit Öxarfjarðarskóla voru á miðvikudag. Að venju flutti skólastjóri ávarp og voru 10. bekkingar kvaddir. Eins voru kvaddir tveir kennarar sem nú hverfa til annarra starfa, þau Erla Dögg og Ingi Þór. Það er alltaf sama eftirsjá af öflugum og góðum nemendum og alltaf er sami söknuður í því að kveðja 10. bekkinga þegar þau halda á brott úr skólanum. En maður kemur í manns stað og er ekki til efa að núverandi 9. bekkingar verði öflugir 10. bekkingar á næsta skólaári. En það er alltaf ákveðin eftirsjá í því að sjá á eftir þessu unga og efnilega fólki úr héraðinu til framhaldsnáms.
Skólastarf í vetur gekk mjög vel. Nemendur skólans eiga hrós skilið fyrir fyrirmyndar framkomu og hegðun hvar sem þau voru sem fulltrúar okkar.
Á fimmtudag og föstudag verða 7. og 8. bekkur í skólaferðalagi. Stefnan er sett í Skagafjörð en á leiðinni mun verða farið í hvalaskoðun á Húsavík ef veður leyfir. Í Skagafirði verður meðal annars farið í klettaklifur og flúðasiglingu.
Í byrjun júní halda síðan 9. og 10. bekkur út fyrir landssteinana í skólaferðalag til Danmerkur. Það er einungis í annað skiptið (að því að umsjónarmaður best veit) sem nemendur úr Lundi fara utan í skólaferðalag. Seinast var farið til Færeyja fyrir tæpum tuttugu árum, eða 1989. Nemendur hafa verið duglegir að vera með ýmsar fjáraflanir fyrir ferðinni og eins hafa fyrirtæki á svæðinu stutt við bakið á þeim til að ferðin verði að veruleika.