Fara í efni

Skrifað undir vaxtasamning Norðausturlands

Össur Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra og Tryggvi Finnsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hf., skrifuðu á dögunum undir vaxtarsamning Norðausturlands að viðstöddu fjölmenni. Þetta er sjötti vaxtarsamningurinn sem iðnaðarráðuneytið gerir og jafnframt sá fyrsti fyrir Norðausturland. Samningurinn er gerður við  Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og sér stjórn félagsins og heimamenn alfarið um framkvæmd hans.

Össur Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra og Tryggvi Finnsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hf., skrifuðu á dögunum undir vaxtarsamning Norðausturlands að viðstöddu fjölmenni.

Þetta er sjötti vaxtarsamningurinn sem iðnaðarráðuneytið gerir og jafnframt sá fyrsti fyrir Norðausturland. Samningurinn er gerður við  Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og sér stjórn félagsins og heimamenn alfarið um framkvæmd hans.

Vaxtarsamningurinn er til þriggja ára. Er framlag ríkisins 90 milljónir og kemur af því fé sem ríkisstjórnin samþykkti að ráðstafa til mótvægisaðgerða vegna aflabrests í þorski.

Össur lagði áherslu á það í ávarpi sínu við undirritunina að frumkvæði og hugmyndir yrðu að koma af svæðinu, en treysta mætti því að góðar hugmyndir myndu fá brautargengi af hálfu opinberra aðila.

Starfssvæði Atvinnuþróunarfélagsins og vaxtarsamningsins nær frá Vaðlaheiði að Bakkafirði en þar búa um 5000 manns.

Skrifað var undir samninginn á veitingahúsinu Sölku á Húsavík. Gunnar Jóhannesson, verkefnastjóri hjá AÞ, greindi þar frá nokkrum verkefnum sem unnið er að í atvinnuþróun á svæðinu, m.a. Þingeyska matarbúrið, Ferðamálaáætlun Norðausturlands, GEBRIS (nýsköpun austan Jökulsár á Fjöllum), vetrarferðamennsku kringum Snjótöfra í Mývatnssveit og rannsókn á margföldunaráhrifum sem hugsanlega verða við uppbyggingu stóriðju á Bakka við Húsavík.

Ríkisstjórnin hefur einnig skipað nefnd til þess að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf í fámennum byggðarlögum á Norðurlandi eystra sem eiga undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti. Við undirritunina á Húsavík i dag var lögð áhersla á að vaxtarsamningurinn og tillögur Norðausturnefndarinnar þyrftu að verka saman þannig að markvissar aðgerðir fylgdu í kjölfarið.