Slæm umgengni við grenndargáma á Húsavík
Síðastliðið sumar voru settir upp grenndargámar við Tún á Húsavík til að einfalda íbúum að losa sig á skilvirkan hátt við gler, járn og textíl frá heimilum en sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum að safna þessum flokkum til að hámarka hlutfall úrgangs sem er hæfur til endurvinnslu eða endurnýtingar. Lög þess efnis tóku gildi á síðasta ári.
Vonir stóðu til að móttökurnar yrðu góðar enda hefur heilt yfir gengið vel á Húsavík að flokka sorp á heimilum í samanburði við mörg sveitarfélög. Því miður hefur umgengni um grenndargámana verið slæm frá fyrsta degi og dæmi um að gámarnir hafi verið fylltir af óflokkuðu heimilissorpi, drykkjarumbúðum sem bera skilagjald og nú síðast var botnfylli af hráu kjöti í gámnum fyrir gler. Augljóst er að ekki er um misskilning að ræða heldur einbeittan brotavilja af hálfu þeirra sem ganga svona um. Líklega, og vonandi, er um fáa einstaklinga að ræða sem skemma fyrir hinum sem leggja metnað í að flokka sorp til endurvinnslu.
Sveitarfélög fá greitt úr Úrvinnslusjóði fyrir úrgang sem þau skila og telst hæfur til endurvinnslu. Greiðslur úr Úrvinnslusjóði koma því sem tekjur á móti kostnaði sveitarfélagsins vegna sorphirðu. Því gefur það augaleið að það er hagur allra íbúa að ganga vel um grenndargáma, flokka rétt á heimilum og vanda flokkun þegar farið er á móttökustöð með úrgang.
Sveitarfélagið sér um og rekur samfélagið sem við búum í og íbúar standa undir þeim rekstri með útsvari og gjöldum. Slæm umgengni og mótþrói við lög sem sveitarfélaginu ber skylda til að framfylgja kemur niður á öllum íbúum. Á næstunni verður komið upp myndavélaeftirliti við grenndargámana með tilheyrandi kostnaði. Þá hefur sveitarfélagið þegar tapað framlögum úr Úrvinnslusjóði vegna úrgangsflokka sem eru óhæfir til endurvinnslu og fara því til urðunar.
Afleiðingarnar, ef umgengni og hugarfar breytist ekki, verða hærri sorphirðugjöld á næsta ári því sveitarfélögum er skylt að láta gjaldskrár standa undir kostnaði við sorphirðu.
Húsvíkingar: Öxlum ábyrgð í þessum málum og vinnum saman að settu marki.
Til þeirra fjölmörgu sem standa sig vel í flokkun á sorpi: Takk fyrir og höldum áfram góðu verki og verum góðar fyrirmyndir.
Elvar Árni Lund
Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs