Spennistöð og hraðhleðslustöðvar í miðbæ Húsavíkur
Glöggir vegfarendur hafa mögulega tekið eftir jarðraski við Vallholtsveg. Það er tilkomið vegna vinnu Rarik við að koma niður dreifistöð við Ketilsbraut, út úr lóðinni að Ketilsbraut 7-9.
Fyrirtækið InstaVolt Iceland hefur samið við Norðurþing um svæði fyrir hraðhleðslustöðvar í miðbæ Húsavíkur en það vinnur nú að uppbyggingu hraðhleðslunets fyrir rafbíla á Íslandi. InstaVolt Iceland mun sjá um allan kostnað sem viðkemur uppsetningu hleðslustöðvanna og ganga frá svæðinu. Alls er um fjórar 160 kW BYD hraðhleðslustöðvar að ræða en fyrirtækið hefur horft til uppbyggingar á stöðum á Íslandi sem eru fjölsóttir af ferðamönnum. Áætlanir InstaVolt gera ráð fyrir 200 nýjum hraðhleðslustöðum hér á landi á næstu tveimur árum og er uppbyggingin á Húsavík hluti af þeim áætlunum.
Myndir: Katrín Sigurjónsdóttir