Fara í efni

Stefnumörkun um náttúru, minjar og landslag í Norðurþingi

Norðurþing og svæðisráð norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs boða til íbúafundar í Skúlagarði laugardaginn 21. febrúar nk. kl. 13:00-15:30. Á fundinum verður fjallað um tækifæri sem felast í náttúru og landslagi sveitarfélagsins austan Tjörness og áherslur varðandi nýtingu og verndun. Íbúar Norðurþings eru hvattir til að mæta og taka þátt í mótun framtíðarsýnar fyrir svæðið.

Norðurþing og svæðisráð norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs boða til íbúafundar í Skúlagarði laugardaginn 21. febrúar nk. kl. 13:00-15:30.

Á fundinum verður fjallað um tækifæri sem felast í náttúru og landslagi sveitarfélagsins austan Tjörness og áherslur varðandi nýtingu og verndun.

Íbúar Norðurþings eru hvattir til að mæta og taka þátt í mótun framtíðarsýnar fyrir svæðið.

Norðurþing hefur unnið að aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið síðastliðið misseri og liggur nú m.a. fyrir greining á náttúru, minjum og landslagi. Út frá þeirri greiningu hafa verið afmörkuð svæði sem teljast verðmæt á svæðis-, lands- eða heimsvísu. Við greininguna var m.a. leitað upplýsinga hjá heimamönnum en opinn íbúafundur var haldinn í Skúlagarði í apríl á síðasta ári. Greiningin hefur einnig verið rýnd af náttúrufræðingum á svæðinu. Í aðalskipulagi þarf að marka stefnu um nýtingu og verndun þessara svæða, svo sem m.t.t. hefðbundinna nytja, göngu- og reiðleiða, vega, slóða og bílastæða, frístundabyggðar, þjónustustaða, skógræktar, landgræðslu og almennrar umgengni. Við þá stefnumörkun er mikilvægt að líta til þeirra tækifæra sem felast í því að hluti sveitarfélagsins er innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Vatnajökulsþjóðgarður vinnur að gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn og er hvert svæðisráð ábyrgt fyrir því að skila inn tillögu að verndaráætlun viðkomandi svæðis fyrir árslok 2009. Í verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs er auðlindum svæðisins lýst og mat lagt á verndargildi þeirra. Í þeirri greiningu er einnig lögð áhersla á að þekkja þau tækifæri sem í svæðinu felast og þær hættur sem að því geta hugsanlega stafað. Í verndaráætlun er mörkuð stefna um framtíð svæðisins og komið með tillögur að helstu markmiðum og leiðum við stjórnun svæðisins til næstu framtíðar. Áhrif verndaráætlunar á auðlindir þjóðgarðsins, stjórnun hans og skipulag, útivist og ferðaþjónustu, aðra landnotkun og samfélag verða einnig metin. Sérstök áhersla er lögð á að greina helstu áhrifasvæði þjóðgarðsins, svokölluð jaðarsvæði hans, og þau atriði sem þjóðgarðurinn og viðkomandi svæði eiga sameiginlegt. Það geta verið einstakar náttúruauðlindir, saga og menningarminjar, aðkoma að þjóðgarðinum, þjónusta við gesti þjóðgarðsins og fleiri þættir.

Á fundinum munu ráðgjafar frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta kynna vinnu við aðalskipulag Norðurþings og ráðgjafi frá Náttúrustofu Norðausturlands kynna gerð verndaráætlunar norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

Að loknum kynningum verður unnið í þremur hópum sem hver fjallar um einn hluta sveitarfélagsins og þau tækifæri sem þar felast varðandi náttúru og minjar, nýtingu og verndun. Þessir hlutar sveitarfélagsins eru:

  • Melrakkaslétta.
  • Öxarfjörður og jaðarsvæði þjóðgarðsins austan ár.
  • Kelduhverfi og jaðarsvæði þjóðgarðsins vestan ár.

Í lok fundarins munu helstu atriði í umræðum hvers hóps kynnt.

Allir íbúar Norðurþings og aðrir hagsmunaaðilar eru velkomnir á fundinn.

 

Nánari upplýsingar veita Matthildur Kr. Elmarsdóttir hjá Alta og Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir hjá Náttúrustofu Norðausturlands.