Stuðningur við álver á Bakka
Eftirfarandi frétt birtist á mbl.is í dag:
Bæjarráð Akureyrar lýsir yfir eindregnum stuðningi við áform um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík, skv. bókun sem gerð var á fundi ráðsins í gærmorgun. Fjórir ráðsmenn samþykktu bókunina en fulltrúi VG sat hjá við afgreiðsluna.
„Á undanförnum árum hefur alvarlegur samdráttur í fiskvinnslu og landbúnaði haft veruleg áhrif á afkomu fólks, atvinnuöryggi og búsetu á svæðinu. Á síðustu 10 árum hefur íbúum á svæðinu frá Húsavík til Raufarhafnar, sem nú heitir Norðurþing, fækkað um 15%. Mest hefur fækkunin verið í aldurshópnum 40 ára og yngri, en í þeim aldursflokki hefur íbúum fækkað um 25%.
Kjölfesta í atvinnumálum er nauðsynleg til þess að snúa vörn í sókn og viðhalda gróskumikilli byggð á Norðausturlandi,“ segir í bókun bæjarráðs. „Fyrirhugað álver á Bakka getur skapað þessa kjölfestu. Álverið mun skapa um 300 ný framtíðarstörf og afleidd störf verða mun fleiri og áhrifa þeirra mun gæta langt út fyrir Norðurþing, ekki síst á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu. Bæjarráð skorar því á stjórnvöld að beita sér fyrir því að af þessum framkvæmdum geti orðið sem fyrst.“
Einnig birtist í Skarpi í dag, stuðningsyfirlýsing frá bæjarstjóra Akranesbæjar, Gísla S. Einarssyni:
"Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri og sveitarstjórn.
Ágæta samfélag Norðurþing. Ég má til með að senda fáein orð sem kveðju til ykkar í tilefni af bæklingi eða kynningarriti sem ber nafnið Framsækið samfélag með álver á Bakka sem mér barst nýverið.
Ég lýsi mikilli ánægju með þessa kynningu, við hér á Akranesi skiljum mjög vel hvaða áhrif stóriðjan hefur til stöðugra samfélags. Við værum í ömurlegri stöðu að mati undirritaðs í ljósi afdrifa fiskvinnslu á Akranesi ef ekki væri stóriðja í nágrenni okkar með atvinnutækifæri fyrir íbúa Akraness. Akranes er valkostur til búsetu fyrir alla þá sem ráða sig til starfa á Grundartangasvæðinu einnig með tilliti til stækkandi atvinnusvæðis í ljósi samgangna.
Til viðbótar við sjálf stóru fyrirtækin NA og IJ þá hafa sprottið upp smærri þjónustufyrirtæki bæði á staðnum á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit þannig að áhrifin eru geysilega mikilvæg.Á Akranesi fjölgaði um 400 manns 2007 eða um 5.6% þetta skiptir máli og þó það sé ekki eingöngu stóriðjunni að þakka þá á hún verulegan hlut að máli. Með slíkri uppbyggingu eflist annað í samfélaginu, sprotafyrirtæki eflast og bjartsýni um framtíð fær aukin kraft.
Ég óska ykkur til hamingju, megi álver á Bakka rísa sem fyrst og einnig veit ég að allt mannlíf og ykkar góðu gömlu fyrirtæki munu blómstra með nýjum stöðugleika í formi álvers.
Kær kveðja Gísli S. Einarsson bæjarstjóri Akranesi."