Stýrihópur stofnaður vegna kreppunnar
Mánudaginn 17. nóvember var haldinn fundur í tengslum við efnahagshrunið og ástandið sem skapast hefur í samfélaginu á vegum Félagsþjónustu Norðurþings, Rauða Krossi Íslands, Þekkingarsetri Þingeyinga og Stéttarfélagsins Framsýnar. Ýmsir aðilar voru boðaðir á fundinn og má þar nefna atvinnuráðgjafa, presta, æskulýðs-og forvarnarfulltrúa, lögreglu, heilbrigðisþjónustu, Vinnumálastofnun, skólameistara framhaldsskólanna, menningar-og fræðslufulltrúa, sveitarstjóra og bankastjóra.
Tilgangurinn með fundinum var að fara yfir stöðu mála og stilla saman strengi varðandi aðgerðir. Ákveðið var að hver aðili sem sat fundinn sendi upplýsingar fyrir 5. desember n.k. um bjargir eða úrræði sem þegar eru fyrir hendi eða fyrirætlað er að fara af stað með vegna kreppunnar sem hefur skapast í samfélaginu. Jafnframt var ákveðið að stofna stýrihóp en í honum sitja aðilar frá Félagsþjónustu Norðurþings, Stéttarfélaginu Framsýn, Þekkingarsetri Þingeyinga, Vinnumálastofnun og Rauða Krossi Íslands. Stýrihópurinn mun funda reglulega og kalla til sín aðila eftir þörfum úr hinum breiðari velferðarhópi sem sótti fund þennan mánudaginn 17. nóvember.