Fara í efni

Sumarklassík í Safnahúsinu

Sumarklassík í Safnahúsinu á Húsavík er ný tónleikaröð sem tónlistarkonan Lára Sóley Jóhannsdóttir stendur fyrir í samstarfi við Menningarmiðstöð Þingeyinga og verða þrennir tónleikar á dagskrá í júlí og ágúst.

Á fyrstu tónleikunum, sem fram fara miðvikudaginn 13. júlí, koma fram fiðluleikarinn Lára Sóley Jóhannsdóttir og píanistinn Dawn Hardwick. Þær flytja breska og íslenska tónlist. Á efnisskrá tónleikanna eru verk eftir Graham Fitkin, Edward Elgar, Jón Nordal og útsetningar Atla Heimis Sveinssonar á þekktum íslenskum sönglögum. Einnig verður flutt útsetning Láru Sóleyjar á Vornæturljóði Elísubetar Geirmundsdóttur og nýtt verk fyrir fiðlu og píanó eftir Láru. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og er miðaverð kr. 2000.

Uppbyggingasjóður og Norðurþing styrkja tónleikaröðina.

Breski píanisti Dawn Hardwick er fædd í Wales. Hún hóf tónlistarnám sitt 6 ára gömul og 15 ára fékk hún inngöngu í Chetham School of Music. Þaðan lá leiðin í Royal Welsh College of Music and Drama og síðan í Royal College of Music í London. Dawn hefur margoft leikið einleik með sinfóníuhljómsveitum og unnið til fjölda verðlaun

fyrir píanóleik sinn. Dawn kemur reglulega fram með London Philharmonic Orchestra, Ulster Orchestra og Royal Philharmonic Orchestra. Hún leikur einnig með tónlistarhópnum Piano Circus, en þar leika 6 píanistar saman og flytja nánast eingöngu nýja klassíska tónlist.

Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari ólst upp á Húsavík og hóf þar tónlistarnám 6 ára gömul. Að lokinni útskrift frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2001 hélt Lára til framhaldsnáms í Bretlandi og útskrifaðist frá Royal Welsh College of Music and Drama árið 2006. Síðan þá hefur Lára starfað sem fiðluleikari og söngkona á Íslandi, auk þess sem hún hefur fengist við kennslu og verkefnastjórn. Lára gaf út plötuna Draumahöll árið 2015 og árið 2013 gaf nún út plötun Hjalti og Lára í samstarfi við eiginmann sinn. Lára hlaut listamannalaun til þriggja mánaða árið 2015 og var útnefndur Bæjarlistamaður Akureyrar 2015-2016. Lára hefur frá haustinu 2015 verið konsertmeistari hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.