Sumarkveðja til íbúa Norðurþings
Upp er runninn sumardagurinn fyrsti, bjartur og fagur hér í Norðurþingi. Vorið er mætt á svæðið og því er vel fagnað. Íbúar kveðja viðburðaríkan vetur sem var afar mildur og góður.
Í vetur hefur verið mikið um að vera í menningarlífi Þingeyinga. Safnahúsið er alltaf með fastar sýningar jafnframt því að setja upp sýningar sem standa í styttri tíma. Núna eru t.d. tvær sýningar í gangi sem standa út apríl, ljósmyndasýning Atla Vigfússonar „Kýrnar kláruðu kálið“ og sýningin "Nikulás Buch, augnablik úr skíðasögu Þingeyinga". Bókasafnið með reglulegar uppákomur sem höfða til breiðs aldurshóps, rappnámskeið, fatamarkað, handavinnustund, föndur, tungumálakaffi, foreldramorgna o.m.fl.
Frá því í haust hafa verið settar upp af heimafólki fjórar leiksýningar í Leikhúsinu á Húsavík, hver annarri skemmtilegri. Nú síðast var það Ávaxtakarfan sem var afar vel sótt, sérstaklega af yngri kynslóðinni. Þá hélt Tónasmiðjan stórtónleika í haust, líka um jólin og stefnir svo á eina tónleika núna í byrjun maí. Kirkjukórinn hélt jólatónleika í desember og heldur vortónleika í maí. Auk þess hafa verið fjölbreyttir tónlistaruppákomur víða um sveitarfélagið í vetur þar sem heimamenn troða upp og skemmta sér og öðrum.
Með góðum vilja hefði verið hægt að sækja þorrablót í Þingeyjarsýslum allar helgar frá miðjum janúar og út Þorrann, stundum tvö blót sömu helgina. Á Kópaskeri var boðið upp á konukvöld, myndlistarsýning í haust í Kelduhverfi, Hrútadagar fyrir austan og upplestur, pub quiz o.fl. á reglulegum uppákomum á Raufarhöfn. Húsavíkurstofa stóð fyrir nýjung í desember, „jólabærinn minn“ og einnig voru fjölbeyttir viðburðir í Dymbilviku og yfir páskana. Núna er í gangi undirbúningur fyrir Listahátíðina Skjálfanda, Sólstöðuhátíð á Kópaskeri og Mærudaga á Húsavík. Þetta er bara smá upptalning, alls enginn tæmandi listi. Menningarlíf er sannarlega í miklum blóma í Norðurþingi og skrítið að kannanir sýni að íbúum finnist lítið vera gert í þeim málaflokki. Er kannski bara málið að við séum duglegri að sækja þá viðburði sem eru í boði?
Ég get ekki látið hjá líða að minnast á íþróttafólkið okkar í Völsungi sem er að gera það heldur betur gott þessa dagana. Kvennaliðið í fótboltanum í úrslitakeppni í C-deild Lengjubikars kvenna í dag kl. 16 í heimaleik (allir á völlinn!!) og kvennaliðið í blaki í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki. Þá hafa ungu krakkarnir í blakinu staðið sig frábærlega í vetur. Þó nokkrir krakkar á U-landsliðsæfingum í sínum flokkum og nokkrir stórir sigrar komið í hús s.s. bikarmeistarar í U20 kk og Kjörísbikarmeistarar U16 kk. Það hefur oft verið kátt á vellinum og í Höllinni í vetur og gaman hvað fólk mætir vel á leiki og hvetur Græna áfram. Framundan er stórmót ársins í öldungablaki á Akureyri og Húsavík um næstu helgi, haldið saman af KA og Völsungi. Þar verða bæði keppendur Völsungs og sjálfboðaliðar á fullu alla helgina.
Hér að ofan er aðeins tæpt á örfáu af því sem er í boði og er að gerast í menningar- og íþróttalífi í Norðurþingi. Ég hvet íbúa til að taka þátt og halda áfram að gera samfélagið okkar lifandi og skemmtilegt. Þátttaka í starfi og leik er í okkar höndum.
Gleðilegt sumar og takk fyrir frábæran vetur.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.