Sýnum ábyrgð og eflum eldvarnir
Það er auðvitað fyrst og fremst á ábyrgð fullorðinna á heimilum að sjá til þess að eldvarnir séu í lagi en það er líka mikilvægt að þeir ræði við þá sem yngri eru um eldhættu og kenni þeim að draga úr henni. Það á ekki síst við um eldhættu sem stafar af notkun og hleðslu raf- og snjalltækja. Þar skiptir mestu að standa með öruggum hætti að hleðslu til dæmis snjallsíma og rafhlaupahjóla. Þessi tæki á ævinlega að hlaða og geyma í öruggu umhverfi þar sem síður er hætta á að eldur komi upp eða breiðist út með tilheyrandi tjóni og óþægindum. Við þekkjum alltof mörg dæmi um að verulegt tjón hafi orðið vegna þessara tækja.
Eldvarnaátakið
Slökkviliðsmenn leggja sitt af mörkum í því að fræða börn og fullorðna um eldhættu á heimilum og viðbrögð við þeim. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna stendur um þessar mundir fyrir Eldvarnaátakinu sem fram fer í grunnskólum um allt land. Við heimsækjum krakkana í 3. bekk, ræðum við þá um eldvarnir og afhendum þeim margvíslegt fræðsluefni um þær, svo sem söguna um Loga og Glóð og handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Við ætlumst til þess að börnin fari heim með þessa nýfengnu þekkingu og ræði eldvarnir heimilisins við foreldra og forráðamenn.
Eldvarnir á heimilum
Í samtölum okkar við börnin leggjum við einkum áherslu á eftirfarandi:
- Að í íbúðinni sé nægilegur fjöldi reykskynjara til að tryggja að fjölskyldan fái viðvörun ef eldur kemur upp og tíma til að bregðast við.
- Að eldvarnateppi sé á sýnilegum stað í eldhúsi, en afar algengt er að eldur komi upp í eldhúsum.
- Að fara alltaf varlega í umgengni við opinn eld.
- Að slökkvitæki sé sýnilegt við helstu flóttaleiðir.
- Að hlaða raf- og snjalltæki aðeins með öruggum búnaði og í öruggu umhverfi.
- Að allir á heimilinu hafi að minnsta kosti tvær flóttaleiðir, þekki þær og viti hvar á að safnast saman utandyra ef yfirgefa þarf heimilið.
- Síðast en ekki síst er mikilvægt að börnin þekki neyðarnúmerið, 112. Við þekkjum mörg dæmi þess að börn hafi hjálpað með því að hringja í 112.
Hleðsla rafhlaupahjóla
Af gefnu tilefni viljum við sérstaklega benda á að þegar við hlöðum rafmagnshlaupahjól þurfum við að hafa eftirfarandi í huga:
- Ekki hlaða þegar allir eru sofandi eða enginn heima.
- Ekki hlaða skemmd hjól.
- Ekki hlaða nálægt eldfimum efnum.
- Hlaða þar sem reykskynjari er fyrir hendi.
- Hlaða á afviknum stað, til dæmis í bílskúr.
- Nota hleðslutæki sem fylgdi hjólinu.
Sýnum aðgát og ábyrgð
Með aðgát í daglegri umgengni og nauðsynlegum eldvarnabúnaði getum við dregið verulega úr líkum á að eldur komi upp og valdi tjóni á lífi og eignum. Við slökkviliðsmenn viljum því hvetja fólk eindregið til að huga að eldvörnum heimilisins. Það er ekki síst mikilvægt nú í aðdraganda aðventu og hátíðanna þegar eldhætta á heimilum eykst.
Förum varlega með opinn eld, sýnum aðgát og tryggjum að á heimilinu sé fyrir hendi allur nauðsynlegur eldvarnabúnaður sem gerir okkur kleift að bregðast við ef eldur kemur upp.
Slökkvilið Norðurþings