Team Rynkeby Ísland heimsótti Húsvík í dag
Team Rynkeby Ísland heimsótti Húsvík í dag
Team Rynkeby er alþjóðlegur hópur hjólreiðafólks sem hjólar frá Danmörku til Parísar ár hvert til stuðnings krabbameinssjúkum börnum. Í ár gat ekki orðið af hjólaferðinni til Parísar vegna COVID-19 og því ákvað íslenski hluti liðsins að hjóla á völdum stöðum á Íslandi í staðinn. Hjólaðir eru um 100 km hvern dag sem ferðin stendur. Tilgangur ferðarinnar er eins og áður var sagt að afla fjár til styrktar krabbameinssjúkum börnum og er liðið stærsti stuðningsaðili Félags krabbameinssjúkra barna. Söfnunin gengur vel og hafa nú þegar safnast um 50 milljónir.
Hægt er að leggja þessum einstaka hópi fólks lið við söfnunina með því að leggja frjáls framlög inn á styrktarreiking Team Rynkeby Ísland, 537-26-567, kt. 580216-0990 eða með því að hringja í eftirfarandi styrktarnúmer: 907-1601 kr 1.500 - 907-1602 kr 3.000 - 907-1603 kr 5.000.
Í dag lagði hópurinn leið sína til Húsavíkur og stóð til að sveitastjóri tæki á móti hópnum. Af því gat ekki orðið því á sama tíma og Team Rynkeby Ísland rann á fagurgulum reiðhjólum inn í bæinn brunaði sveitastjóri til Akureyrar á fund. Formaður byggðarráðs hljóp í skarðið fyrir sveitarstjóra og tók á móti hópnum við húsnæði Framsýnar, bauð reiðhjólakappa og bakhjarla þeirra velkomna til Húsavíkur, fagnaði framtaki þeirra og óskaði áframhaldandi velgengni við hjólaferðina, söfnunina og svo stóru ferðina sem hópurinn mun ef ellt gengur að óskum leggja upp í að ári liðnu. Að því loknu sagði Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar nokkur orð áður en hópnum var hleypt að kræsingum sem bakhjarlar liðsins höfðu útbúið.
Við Húsvíkingar eigum okkar fulltrúa í hópnum og erum að sjálfsögðu stolt af þátttöku þeirra, en það eru þau Ásgeir Kristjánsson sem hjólar með liðinu og kona hans Anna Ragnarsdóttir sem er í hópi bakhjarlanna.
Hópurinn var afar ánægður með móttökurnar og veðrið hér á Húsavík, og reyndar í ferðinni allri. Í hópnum ríkir greinilega mikil gleði og góður andi og að sjálfsögðu höfðu þessir góðu gestir okkar Húsavíkinga æft Jaja dingdong, einn af smellunum úr Eurovisionmynd Will Ferrell, og komu syngjandi á áfangastað.