Þingeyskt íslenskuspil fær evrópska viðurkenningu
Þekkingarsetur Þingeyinga hefur nú gefið út Íslenskuspilið í samstarfi við Selmu Kristjánsdóttur. Selma er höfundur spilsins og vann að gerð spilsins hjá Þekkingarsetrinu á árunum 2007-2009. Tilgangur Íslenskuspilsins er að stuðla að námi fullorðinna útlendinga í íslensku en spilið nýtist einnig á elsta stigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Það býður upp á fjölbreyttar nálganir í hópa- og einstaklingsvinnu eða þar sem kennarinn leiðir vinnuna. Þar af leiðandi hentar Íslenskuspilið fólki á öllum stigum íslenskunáms.
Þann 25. september 2009 hlotnaðist aðstandendum Íslenskuspilsins sá heiður að taka við viðurkenningunni "European Label". Menntamálaráðuneytið tekur þátt í samstarfi á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um "European Label" eða Evrópumerkið, sem er viðurkenning fyrir nýbreytni á sviði tungumálanáms og tungumálakennslu. Eingöngu eitt verkefni fær þessa viðurkenningu árlega og er þetta því mikill heiður og jafnframt viðurkenning á faglegri vinnu á bak við Íslenskuspilið.