Til seljenda gistingar í Norðurþingi
Samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 skal sækja um rekstrarleyfi til sölu gistingar til sýslumanns en skilyrði fyrir útgáfu leyfis er jákvæð umsögn frá byggingareftirliti, eldvarnareftirliti, heilbrigðiseftirliti og sveitarstjórn. Upplýsingar um auglýst gistirými til ferðamanna er m.a. að finna á sérstökum netsíðum. Þær upplýsingar eru opnar öllum og þar með hefur Norðurþing aðgang að upplýsingum um hverjir auglýsa gistirými til ferðamanna.
Athygli er vakin á því að við auglýsingu á gistirými eða annarri staðfestingu um slíka notkun er Norðurþingi heimilt að hækka fasteignagjöld gistirýmis í atvinnurekstrarflokk þó svo viðkomandi hafi ekki rekstrarleyfi sýslumanns.
Skv. ákvörðun bæjarráðs Norðurþings frá 8. október 2015, hefur verið ákveðið að frá og með 1. janúar 2016 verða fasteignagjöld húsnæðis sem sannanlega er nýtt til gistisölu í Norðurþingi sett í atvinnuflokk. Öll þau gistirými í Norðurþingi sem fengið hafa starfs- og rekstrarleyfi verða felld í þann flokk, en einnig annað það húsnæði sem staðfest er að notað er í þeim tilgangi.
Þeim aðilum, sem þegar eru með tilskilin leyfi fyrir gistirýmum, munu verða send bréf þar sem tilkynnt verður um áform um hækkun fasteignagjalda í atvinnurekstrarflokk. Skorað er á þá sem nú þegar auglýsa eða selja gistirými án tilskilinna leyfa, að sækja um starfs- og rekstrarleyfi.
Gaukur Hjartarson
Skipulags- og byggingarfulltrúi Norðurþings