Tillaga að deiliskipulagi og breyting á deiliskipulagi
Tillaga að deiliskipulagi fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík og tillaga að breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis í Auðbrekku.
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum þann 1. desember s.l. að auglýsa til almennrar kynningar tillögu að deiliskipulagi fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík auk tillögu að breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis í Auðbrekku á Húsavík.
Tillaga að deiliskipulagi fyrir heilbrigðisstofnanir felur í sér mótun ramma um uppbyggingu mannvirkja á svæðinu undir og umhverfis heilbrigðisstofnanir á Húsavík. Svæðið er nú þegar mikið til byggt, en þó stendur nú til að byggja upp 60 herbergja hjúkrunarheimili í brekkunni austur af núverandi heilbrigðisstofnun og dvalarheimilinu Hvammi. Innan marka deiliskipulagsins er lóð fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis auk lóða dvalarheimilisins og heilbrigðisstofnunar. Skipulagssvæðið er um 2,5 ha að flatarmáli. Tillagan er unnin með hliðsjón af vinningstillögu í hönnunarsamkeppni vegna fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis. Tillagan er sett fram í greinargerð á blaðstærð A4 og á uppdrætti á blaðstærð A2
Breytingartillaga deiliskipulags íbúðarsvæðis í Auðbrekku felur í sér lítilsháttar breytingu á mörkum skipulagssvæðisins sem muni fylgja lóðarmörkum Auðbrekku 6 og 8 að sunnanverðu í stað þess að ganga inn á opið óbyggt svæði austur af heilbrigðisstofnun. Breytingartillagan með greinargerð er sett fram á einu blaði í blaðstærð A2.
Skipulagstillögurnar verða til sýnis á sveitarstjórnarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík frá 21. desember 2020 til 1. febrúar 2021. Ennfremur er hægt að skoða tillögunar hér:
- Greinargerð deiliskipulags heilbrigðisstofnana.
- Uppdráttur deiliskipulags heilbriðgisstofnana
- Uppdráttur breytingar deiliskipulags íbúðarsvæðis í Auðbrekku
Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til mánudagsins 1. febrúar 2021. Skila skal skriflegum athugasemdum til sveitarstjórnarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík eða í tölvupósti á nordurthing@nordurthing.is. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillögurnar teljast þeim samþykkir.