Tillaga að stefnu og skipulagsramma fyrir miðbæ Húsavíkur
Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings 25. nóvember sl. var kynnt tillaga að stefnu og skipulagsramma fyrir miðbæ Húsavíkur sem ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur unnið í samstarfi við skipulags- og byggingarnefnd.
Stefnumörkunin er hluti af vinnu við aðalskipulag Norðurþings og er henni ætlað að:
i) Setja skipulagsforsögn fyrir deiliskipulag miðbæjarreita. |
ii) Setja fram grunn sem hægt er að byggja umfjöllun og afgreiðslu á einstökum uppbyggingartillögum í miðbænum á. |
iii) Skilgreina og kynna uppbyggingarmöguleika og hvetja þannig til fjárfestinga. |
iv) Stuðla að markvissum fjárfestingum sveitarfélagsins í framkvæmdum í miðbænum. |
Í tillögunni er annars vegar sett fram stefna, þ.e. markmið sem skipulag miðbæjarins skal stuðla að og áherslur sem vinna skal eftir. Hinsvegar er settur fram skipulagsrammi, þar sem markmiðin og áherslurnar eru útfærðar með skipulagsuppdrætti og lýsingu á markmiðum og tækifærum á einstökum hlutum miðbæjarins. Með tillögunni eru lagðar línur fyrir byggðarmynstur og bæjarmynd sem taka ber mið af við deiliskipulagsgerð á svæðinu. Stærð, hæð og staðsetning bygginga á lóð er bindandi í grófum dráttum en minniháttar breytingar eru leyfilegar svo framarlega sem haldið er í þá grundvallarhugmynd sem sett er fram. Fyrirkomulag og fjöldi bílastæða og akstursleiðir innan lóða eru ekki bindandi, heldur verða útfærðar nánar á deiliskipulagsstigi. Uppdrátturinn sýnir mögulegan fjölda bílastæða í götum eða á lóð en í einhverjum tilvikum getur þótt ástæða til að fækka eða fjölga stæðum. Í öllum tilvikum ætti þó að leitast við að taka frá eins mikið rými fyrir gróður eins og unnt er til að gera rými skjólgóð og aðlaðandi að fara um. Á Öskjureit er sýnt mögulegt skipulag en þann reit þarf að skoða betur þegar nánari upplýsingar liggja fyrir varðandi forsendur og þarfir vegna mögulegs nýs samkomuhúss. Skipulag á þeim reit er því sýnt til skýringar en er ekki bindandi en þar skal taka mið af þeim markmiðum og áherslum sem settar eru fram í tillögunni.
Tillagan er nú til umfjöllunar hjá sveitarstjórn Norðurþings. Hún er jafnframt kynnt nú á vef Norðurþings fyrir almenningi og er öllum heimilt að senda skipulags- og byggingarfulltrúa ábendingar og athugasemdir. Óskað er eftir að þær berist fyrir lok 23. janúar 2008. Tillagan verður síðan kynnt sem hluti af heildstæðri aðalskipulagstillögu fyrir Norðurþing fyrri hluta árs 2009.
Skýrsluna má sjá undir "Nýtt aðalskipulag fyrir Norðurþing" hér til hægri á síðunni.