Fara í efni

Tillaga að svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum

Samvinnunefnd um svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslu hefur ákveðið að auglýsa til almennrar kynningar tillögu sína að svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum sem liggja utan marka svæðisskipulags miðhálendis Íslands.    

Samvinnunefnd um svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslu hefur ákveðið að auglýsa til almennrar kynningar tillögu sína að svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum sem liggja utan marka svæðisskipulags miðhálendis Íslands.

 

 

Skipulagssvæðið er allt land sveitarfélaganna Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar, Aðaldælahrepps og Norðurþings sem liggur utan afmörkunar svæðisskipulags miðhálendisins.  Í skipulagstillögunni er sett fram stefna um verndun og nýtingu háhitasvæða og flutningslínur rafmagns á öllu skipulagssvæðinu en meginviðfangsefni hennar er þó afmarkað svæði sem nær yfir land Þeistareykja, Gjástykkis, Kröflu og Bjarnarflags.  Þar eru sett fram skipulagsákvæði um orkuvinnslu og mannvirki, vegi, línur og aðrar lagnir annarsvegar og verndarákvæði vegna náttúrufars og minja hinsvegar.

Í ljósi áhuga á nýtingu jarðvarma á háhitasvæðum Þingeyjarsýslna ákváðu sveitarstjórnir sveitarfélaganna fjögurra að vinna svæðisskipulag fyrir háhitasvæðin sem eru innan þeirra marka.  Í nóvember s.l. skipuðu þær tvo fulltrúa hver í samvinnunefnd til að vinna að skipulaginu og auk þess situr í nefndinni einn fulltrúi frá Skipulagsstofnun.  Nefndin fékk í veganesti umfangsmikil gögn tilheyrandi  verndar- og landnýtingaráætlun háhitasvæðanna sem  sveitarfélögin höfðu áður unnið í samvinnu við orkufyrirtækin Landsvirkjun, Þeistareyki og Landsnet.   Samvinnunefndin réði til sín sem ráðgjafa Árna Ólafsson hjá Teiknistofu Arkitekta, Þorkel Lindberg Þórarinsson hjá Náttúrustofu Norðausturlands og Jónu Bjarnadóttir hjá VGK-Hönnun.  Nefndin hefur auk þess kallað eftir sjónarmiðum fjölmargra annarra aðila til að vinna verkið sem best úr hendi.  Í maí s.l. kynnti nefndin frumdrög skipulagstillögunnar á almennum fundi að Ýdölum í Aðaldal.  Í kjölfar þess fundar var skipulagstillagan send til umsagnar til  lögboðinna umsagnaraðila auk annarra aðila sem nefndin taldi líklega til að koma gildum sjónarmiðum á framfæri við nefndina.  Allnokkrar gagnlegar ábendingar og athugasemdir bárust nefndinni í þessu ferli og var skipulagstillögunni breytt til samræmis við þær.  Á fundi sínum þann 3. september s.l. lauk nefndin umfjöllun sinni um athugasemdirnar og tók ákvörðun um kynningu tillögunnar til samræmis við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.

Skipulagstillagan verður til sýnis á skrifstofum sveitarfélaganna fjögurra og hjá Skipulagsstofnun frá 18. september til 16. október 2007.  Tillagan verður einnig aðgengileg á vefsíðunni http://teikna.is/ á sama tíma.  Á næstu vikum er stefnt að opnum kynningarfundi um skipulagstillöguna.  Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna til og með þriðjudagsins 30. október n.k.  Skila skal skriflegum athugasemdum til formanns nefndarinnar, Gauks Hjartarsonar, á sveitarstjórnarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík.  Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna teljast henni samþykkir.