Tungumálakaffi á bókasafninu á Húsavík / Language Café at the Húsavík Library
Fyrsta tungumálakaffi ársins fer fram á bókasafninu á Húsavík næstkomandi laugardag, 19. mars.
Markmið tungumálakaffisins er að veita nýjum íbúum í samfélaginu vettvang til að æfa „spjallkunnáttu“ sína í íslensku. Þessi spjallfærni er nokkuð sem innflytjendur eiga oft erfitt með að þróa, sem getur fyrir vikið valdið félagslegri einangrun. Í fyrra voru haldin tvö tungumálakaffi þar sem nýir íbúar og gamlir mættu til að spjalla og drekka saman kaffi. Allir eru velkomnir á tungumálakaffi, hvort sem þeir tala enga íslensku eða eiga tungumálið að móðurmáli – þetta er einmitt kjörið tækifæri fyrir Húsvíkinga að kynnast nýjum íbúum samfélagsins.
Það er ekki að ástæðulausu að viðburðurinn fer fram á bókasafninu á Húsavík. Bókasöfn eru ákveðin sameiningartákn í samfélögum sem allir eiga að hafa greiðan aðgang að. Bókasafnið á Húsavík stendur sig vel í þjónustu við íbúa af erlendum uppruna og býður upp á gott úrval bóka á ýmsum tungumálum.
Sjáumst vonandi sem flest á tungumálakaffinu á laugardaginn kl. 11.