Fara í efni

Upplýsingar frá Höfnum Norðurþings

Ferðaþjónusta
Hafnir Norðurþings hafa útbúið upplýsingar um Húsavíkur höfn sem send verður á öll skemmtiferðaskip og þeirra þjónustuaðila sem hingað koma. Um er að ræða einblöðung með svörum við helstu spurningum sem við höfum fengið og fáum á hverju ári. Samsvarandi upplýsingar er verið að vinna fyrir Raufarhafnarhöfn.

Framkvæmdir
Tvö stór verkefni eru í farvatninu. Útboð fyrir dráttarbát verður opnað 6 mars n.k. Það er okkar einlæga von að báturinn verði komin áður en sumarvertíðin er komin á fullt. Endurbætur og lenging á Þvergarðinum (L-inu) er á dagskrá á þessu ári, þar sem hann verður lengdur um 50 metra í suðvestur. Reiknað er með að skurður verði grafin fyrir þilin í apríl /maí, en tímasetning getur breyst og er svolítið háð því hvernig framkvæmdir munu ganga á annarsstaðar. Síðan er stefnt á að slá niður þilin í september og svo verður farið í frágang svæðisins.

Skipulag innri hafnar í sumar
Það er nokkuð ljóst að takmarkað pláss verður í innri höfninni hluta úr sumrinu og því gætu orðið einhverjar tilfærslur á hefðbundinni bryggjulegu tímabundið á mesta annatíma ársins. Undirritaður, ásamt starfsmönnum hafna Norðurþings, munu koma með tillögur sem verða kynntar hagsmunaaðilum og þeim sem höfnina nýta. Tekið verður á móti ábendingum um það sem betur mætti fara og þær skoðaðar og eftir atvikum tekið tillit til þeirra eða ekki. Óhætt er að segja að ekki verður hægt að uppfylla óskir allra. Endanleg ákvörðun verður tekin af undirrituðum með vísan til hafnareglugerðar Norðurþings.

Ef einhverjar spurningar vakna um framangreind mál eða önnur tengd starfsemi hafna Norðurþings er velkomið að hafa samband í gegnum síma (464-6100), með tölvupóst (bergur.elias@nordurthing.is)  eða yfir kaffibolla á Húsavík, eða Kópaskeri og Raufarhöfn.

Virðingarfyllst
F.h. Hafna Norðurþings
Bergur Elías Ágústsson