Útskrift starfsmanna í Þjónandi leiðsögn
Síðast liðin 2 ár hefur starfsfólk félagsþjónustunnar sem starfar með fólki með fatlanir verið á mentora námskeiði sem er liður í því að innleiða Þjónandi leiðsögn í Norðurþingi. Kennarar á námskeiðinu voru Kristinn Már Torfason sem hélt utan um kennsluna, Brynja Vignisdóttir, Gestur Guðrúnarson og Michael Vincent.
Þjónandi leiðsögn byggir á grunnhugmyndum um gagnkvæm tengsl: að við séum öll háð hvert öðru á einn eða annan hátt. Þjónandi leiðsögn gerir kröfur um að umönnunaraðili horfi inná við, nýti það góða sem býr innra með hverjum manni og gefi af sér hlýju og skilyrðislausa umhyggju í garð annarra.
Hlutverk umönnunaraðila er gríðarlega mikilvægt og krafist er aukinnar skuldbindingar sem leiðir til breytinga, bæði persónulegra og samfélagslegra. Ferlið byrjar hjá okkur sjálfum, með hlýju okkar og umhyggju gagnvart öðrum og viljanum til að gefa af okkur án þess að ætlast til að fá nokkuð til baka. Þannig virkjum við grunnþarfir okkar til að mynda tengsl og finna til samkenndar með þeim sem standa höllum fæti eða tilheyra hinum ýmsu jaðarhópum samfélagsins.
Þjónandi leiðsögn snýstum skilyrðislausa umhyggju og kærleika. Hún horfir til þess að einstaklingar kunna að bera með sér minningar um vantraust, ótta og vonbrigði. Þess vegna beinir þjónandi leiðsögn sjónum sínum að tengslamyndun og samfélagskennd. Við myndun félagslegra tengsla dregur úr ofbeldishegðun, hún hverfur jafnvel alveg og nýtt hegðunarmynstur þróast. Við náum til annarra með góðvild, með því að skynja þörf þeirra fyrir mannlega nánd og með því að sýna umhyggju og kærleika. Umönnunaraðilar þurfa ekki eingöngu að tryggja að einstaklingarnir séu öruggir, heldur er ekki síður mikilvægt að þeir upplifi öryggi.
Grunnstoðir þjónandi leiðsagnar eru að upplifa öryggi, að veita umhyggju og kærleika, að upplifa umhyggju og kærleika og að vera þátttakandi.
Verkfæri þjónandi leiðsagnar eru nærvera, hendur, orð og augu.
Þær sem útskrifuðust sem mentorar eru Inga Maren Sveinbjörnsdóttir, Helga Þuríður Árnadóttir, Rannveig Þórðardóttir, Hilda Rós Pálsdóttir, Sunna Mjöll Bjarnadóttir, Lilja Hrund Másdóttir og Sigríður Hauksdóttir.