Vefur Norðursiglingar hlýtur verðlaun
Vefsetur Norðursiglingar, http://www.nordursigling.is/, hlaut nú fyrir skemmstu Íslensku vefverðlaunin.
Verðlaunin eru veitt árlega þeim íslensku vefjum sem þykja standa fremstir ár hvert og er þá horft til ýmissa atriða, tæknilegar útfærslur eru skoðaðar, útlit og notendavæni. Þá er rækilega ígrundað hversu vel vefurinn þjónar tilgangi sínum.
Vefur Norðursiglingar var tilnefndur í flokki sölu- og kynningarvefja fyrirtækja með færri en 50 starfsmenn ásamt fjórum öðrum vefjum og komst dómnefnd að þeirri niðurstöðu að http://www.nordursigling.is/ skyldi hljóta heiðurinn. Í umsögn dómnefndar segir:
„Á krepputímum er mikilvægt að vera með öfluga sölustarfsemi og vinna sér inn hollustu viðskiptavina. Þessi vefsíða er gott dæmi um þar sem þetta markmið er í hávegum haft. Í ofanálag er hann aðgengilegur og skýr. Með einstaklega vel heppnað útlit og nóg af auka upplýsingum, myndskeiðum og myndum.“
Afhending verðlaunanna fór fram í Tjarnarbíói síðastliðinn föstudag og voru aðstandendur síðunnar viðstaddir en síðan er hönnuð og sett upp í Blokkinni (http://www.blokkin.is/), í samvinnu við Norðursiglingu en þess ber að geta að hönnuðir síðunnar eru þeir Arngrímur Arnarson, Snæbjörn Ragnarson frá Húsavík og Hróbjartur Sigurðsson úr Aðaldal.
(Heimild: http://www.nordursigling.is/)