Fara í efni

Velferðarþjónusta Norðurþings

Félagsþjónusta sveitarfélaga er eitt af lögbundnum hlutverkum þeirra. Engum dylst að öflug og vel skipulögð velferðarþjónusta er hverju samfélagi dýrmæt. Norðurþing sinnir þjónustusvæði félagsþjónustu ekki aðeins innan okkar sveitarfélags, heldur einnig innan fimm nágrannasveitarfélaga í gömlu Þingeyjarsýslum. Starfsfólk keppist við það alla daga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi einstaklinga í samfélaginu og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Þjónustan byggir á því að koma til móts við þarfir þeirra sem eftir þjónustunni leita. Markmið velferðarþjónustu er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu. Innan félagsþjónustu Norðurþings starfar stór hópur fólks sem treyst er til þess að leysa úr oft afar flóknum málum.

Ég er stolt af okkar frábæra starfsfólki og þeim árangri sem náðst hefur á síðastliðnum árum innan félagsþjónustunnar. Í heimsfaraldrinum hefur reynt á starfsemina og álag aukist líkt og alls staðar annarsstaðar í samfélaginu. Því hefur verið mætt af bæði starfsfólki og skjólstæðingum af skilningi, umhyggju, virðingu og mikilli seiglu. Kjörnir fulltrúar hafa verið sérstaklega meðvitaðir um mikilvægi þjónustunnar þegar fjármunum hefur verið forgangsraðað undanfarin ár, sem er afar mikilvægt. Þá hefur mikil vinna verið lögð í að endurskipuleggja og skilgreina þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem hefur skilað stór auknum framlögum frá Jöfnunarsjóði. Samvinna starfsfólks, lausnamiðuð nálgun á verkefni og aukið fjármagn til félagsþjónustunnar hefur skilað eftirtektarverðum árangri. Þær umbætur eru hvorki sjálfsagðar né léttvægar heldur þakkarverðar og til þess fallnar að bæta lífsgæði og efla getu samfélagsins okkar að takast á við málefni líðandi stundar.

Á síðastliðnum fjórum árum hefur verið unnið markvisst að eftirfarandi umbótum:

  • Borgin frístund og skammtímadvöl fyrir börn og ungmenni með langvarnandi stuðningsþarfir hefur verið komið á með þeim hætti að nú fá þau reglubundið úrræði sem ekki var áður í nægjanlega föstum skorðum. Árið 2018 voru 6 börn sem vildu nýta þessa þjónustu en í dag eru þau 23.
  • Skammtímadvöl fyrir fullorðna með langvarandi stuðningsþarfir þegar veikindi steðja að eða þörf er á tímabundinni sólarhringsþjónustu er til staðar.
  • Búsetuúrræðum fyrir fólk með langvarnandi stuðningsþarfir hefur verið fjölgað m.a. í þriggja íbúða úrræði með dag- og kvöldþjónustu og þrjár íbúðir í nýju raðhúsi við Höfðaveg sem  teknar voru í notkun 2019.
  • Vík, nýr íbúðakjarni við Stóragarð 12, var nýlega tekinn í notkun fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir. Um er að ræða byltingu fyrir bæði íbúa sem nú eru komnir með búsetuúrræði sem og starfsfólk sem aðstoðar íbúa við að lifa sem sjálfstæðustu lífi. Verkefnið var mjög vel heppnað í alla staði og hefur aukið lífsgæði íbúa til muna.
  • Keldan er  úrræði sem við höfum þróað og byggt upp undanfarin tvö ár. Innan Keldunnar eru veitt úrræði í formi snemmtækrar íhlutunar fyrir börn og ungmenni þar sem þau ásamt foreldrum og fagaðilum sameinast í teymi sem veitir aðstoð í daglegu umhverfi eða í skóla. Í Keldunni sitja fagaðilar eins og félagsráðgjafar, sálfræðingar, uppeldis- og menntunarfræðingur, kennarar, skólahjúkrunarfræðingar og aðrir sérfræðingar eftir eðli hvers máls. Með verklagi þessa öfluga teymis fagfólks skapast sterk tenging og virkt samband milli fjölskyldu, skóla, félags- og heilbrigðisþjónustu. Mál eru leyst á fyrstu stigum með öflugri og virkri þátttöku fagaðila, foreldra og barna þegar við á og fjölbreyttum úrræðum beitt í samstarfinu í þeim tilgangi að mál sem eru í upphafi lítil umfangs og einföld nái ekki að verða stór og flókin og útheimta mikinn kostnað við úrlausn. Keldan er úrræði sem stór hluti nýrra farsældarlaga um samþættingu þjónustu í þágu barna gengur út á. Við í Norðurþingi búum því svo vel að vera eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem höfum unnið samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum í tvö ár í aðdraganda lagabreytingarinnar. Af því erum við afar stolt.
  • Barnaverndarþjónusta er okkur öllum einstaklega mikilvæg. Búið er að fjölga stöðugildum úr einu og hálfu í þrjú á sl. árum. Eins er komin á bakvaktarþjónusta Barnaverndar þar sem greitt er skv. kjarasamningi við félagsráðgjafa. Barnaverndartilkynningum hefur fjölgað umtalsvert á landinu frá upphafi heimsfaraldursins og engin undantekning er frá þeirri staðreynd á okkar þjónustusvæði.
  • Heilu stöðugildi var komið á í dagþjónustu við aldraða en slíkt starf var ekki til staðar áður. Einnig hafa verið gerðir samningar við félög eldri borgara um afnot af húsnæði og samstarf um félagsstarf þeirra fyrir alla eldri íbúa sveitarfélagsins.  Okkur er mikilvægt að efla samstarf félagsþjónustunnar við eldri borgara á svæðinu.
  • Árið 2019 var farið af stað með hreyfiverkefni fyrir aldraða sem þiggja/njóta heimaþjónustu. Um er að ræða hreyfitíma hjá sjúkraþjálfara einu sinni í viku þar sem starfsfólk heimaþjónustu fylgir eftir  skjólstæðingum sínum þegar þörf er á og veitir stuðning við hreyfingu heima fyrir. Þetta er meðal annars gert til að auka vellíðan aldraðra en einnig til gera þeim betur kleift að búa lengur heima og verið sjálfbjarga um athafnir daglegs lífs.

Stöðugildum innan félagsþjónustu hefur verið fjölgað úr 42 árið 2019 í 61,6 árið 2021 vegna aukningar á þjónustu innan málaflokka félagsþjónustunnar. Nettó kostnaður Norðurþings vegna félagsþjónustu nam um 317 m.kr. á síðasta ári, sem er tæplega 150 m.kr. hærri rekstrarkostnaður en varið var til þjónustunnar fyrir fimm árum síðan. Við höfum eflt utanumhald í rekstri og sótt stóraukin framlög frá Jöfnunarsjóði til aukinnar og betri þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Frá 2018 hafa framlögin aukist úr 186 milljónum 2017 í 376 milljónir 2020.

Það er von mín að þessi stutta grein veiti íbúum örlitla innsýn inn í allt hið jákvæða sem félagsþjónusta Norðurþings hefur staðið að á undanförnum árum. Það er þakkarvert þegar vel gengur að bæta og efla innviði okkar á þessu sviði samfélagsins. Vert er í lokin að minnast á þau straumhvörf sem verða með tilkomu hins nýja hjúkrunarheimilis sem senn rís á Húsavík. Þá opnast spennandi tækifæri til enn frekari umbóta í þjónustu við eldri íbúa samfélagsins.

Að endingu vill ég þakka starfsfólki í velferðarþjónustu fyrir vel unnin störf, sérstaklega á þeim krefjandi tímum sem við höfum öll upplifað undangengin tvö ár. Þið eruð dýrmætur mannauður í okkar samfélagi.

Hróðný Lund

Félagsmálastjóri