Vilt þú opna fyrirtækið þitt fyrir fólk með sértækar stuðningarþarfir?
Við getum með stolti sagt, að síðustu ár hefur Norðurþing verið mjög framarlega á landinu þegar kemur að atvinnumálum fatlaðra og/eða fólks með skerta starfsgetu. Hingað til hafa allir, sem hafa haft áhuga á, á aldrinum 18-67 með fötlun og/eða skerta starfsgetu komist inn í atvinnu með stuðningi (AMS) á almennum vinnumarkaði hér í Norðurþingi. Það er frábært að geta skarað fram úr á þessu sviði og verið til fyrirmyndar fyrir önnur sveitarfélög þegar kemur að atvinnumálum fatlaðra.
Síðustu mánuði hefur hinsvegar verið erfitt að finna atvinnu fyrir þá aðila sem eru að óska eftir vinnu. AMS er úrræði sem félagsþjónustan vinnur í samstarfi við Vinnumálastofnun, sem endurgreiðir fyrirtækjum stóran hluta af launum starfsmannsins. Flestir sem eru í AMS óska eftir 20%-40% starfi. Félagsþjónustan styður svo við starfsmanninn og fyrirtækin eftir þörfum hvers og eins.
Við viljum því athuga hvort það séu fleiri fyrirtæki og vinnustaðir hér í sveitarfélaginu sem myndu vilja opna dyrnar sínar fyrir fólki með sértækar stuðningsþarfir. Endilega hafið samband ef þið viljið fá nánari upplýsingar á sunna@nordurthing.is
Norðurþing vill halda áfram að byggja upp samfélag þar sem allir geta fengið jöfn tækifæri.
Sunna Mjöll Bjarnadóttir
Forstöðuþroskaþjálfi í málefnum fatlaðra