Yfirlýsing sveitarstjóra Norðurþings vegna óveðursins síðustu daga
Nú þegar rofað hefur til eftir storminn síðustu daga er ýmislegt sem leitar á hugann. Í fyrsta lagi hversu náttúran getur verið óvægin og hversu lítil við erum þegar staðið er andspænis þeim öflum sem engu eira. Óhjákvæmilega er hugurinn hjá þeim sem upplifa nú martröð hverrar fjölskyldu - leit að týndu barni. Guð styrki ykkur.
Í verðuofsanum undanfarna daga urðum við í Norðurþingi hvað verst úti í dreifbýlinu hér á svæðinu sem og er rafmagni aðeins skammtað á Kópaskeri og Raufarhöfn sem stendur. Óvíst er hve lengi sú staða varir en mikið tjón er á línum sem fæða byggðarlögin tvö. Það kemur bersýnilega í ljós við svona aðstæður hversu nauðsynlegar öflugar rafmagnstengingar eru til að ekki þurfi að hægja, jafnvel stöðva heilu samfélögin í fleiri daga vegna tjóns. Ef Bakka og Þeistareykja nyti ekki við hefðum við á Húsavík orðið mun verr fyrir barðinu á ofsanum en raunin varð. Það er að mínum dómi mikið áhyggjuefni hversu illa dreifkerfi rafmagns er undirbúið undir veður sem þessi víða um land. Þótt þónokkuð hafi áunnist í að koma "háræðakerfi" rafmagnsins í jörðu verðum við að gera mun betur í þeim efnum. Og það er vel hægt. Nærtækasta dæmið eru viðbrögð okkar við fjárskaðaveðrinu 2012 og með hvaða hætti var bætt úr raforkuöryggi við Mývatn í kjölfar þess hildarleiks sem íbúar svæðisins lentu í. Það er auðvitað ekki hægt að sitja uppi með þá áhættu að milljarðar tapist í frystigeymslum sjávarútvegs- og landbúnaðarfyrirtækja eins og við eigum t.a.m. í Fjallalambandi á Kópaskeri og GPG á Raufarhöfn árið 2019 vegna yfirvofandi rafmagnsskorts í ríku landi sem okkar. Það má ekki gerast að smærri byggðalög sitji eftir þegar að kemur að úrbótum og tryggingum á afhendingaröryggi rafmagns. Við eigum ekki að sætta okkur við það. Á Raufarhöfn er lífæð byggðarlagsins vinnsla GPG á staðnum sem er í má segja lamasessi vegna stöðunnar. Það er úrslitaatriði að nægt afl fáist á Raufhöfn til að ekki fari verr en orðið er og treysti ég á að RARIK standi þar undir væntingum. Veit ég vel að allir eru undir miklu álagi sem stendur og best að vinna sig út úr skaflinum áður en málin verða uppgerð. Við verðum í öllu falli að gera úrbætur víða og í framhaldinu tryggja enn betur bjargir sem fleytt geta samfélögunum gegnum erfiðleika sem þessa án þess að allt lamist í fleiri daga.
Ég vil koma á framfæri þakklæti og góðum óskum til allra þeirra fjölmörgu starfsmanna raforkufyrirtækja, sjálfboðaliða björgunarsveita og annara sem staðið hafa í björgunar- og viðgerðaraðgerðum síðustu daga hér á svæðinu og víðar. Takk!