Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

229. fundur 09. október 2017 kl. 16:00 - 17:35 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Olga Gísladóttir varaformaður
  • Kristján Þór Magnússon
  • Soffía Helgadóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sif Jóhannesdóttir 1. varamaður
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Átak gegn heimilisofbeldi

Málsnúmer 201710023Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur samstarfssamningur við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra um samvinnu í átaki gegn heimilisofbeldi.

Verkefnið hefst við undirritun og er gert ráð fyrir að það standi í ár og verður árangur metinn að því loknu. Standist verkefnið væntingar að ári liðnu verður litið svo á að verklag þetta sé komið til að vera.

Norðurþing og embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra munu vinna saman að þessu verkefni í samráði við hagsmunasamtök og aðra sem geta lagt verkefninu lið.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að ganga frá samstarfsyfirlýsingunni.

2.Gerð húsnæðisáætlana

Málsnúmer 201702150Vakta málsnúmer

Umræða um gerð húsnæðisáætlunar á vegum Norðurþings. Mánudaginn 16. október fer fram Húsnæðisþing 2017 á vegum Íbúðalánasjóðs, en nú vinna fjölmörg sveitarfélög að sínum húsnæðisáætlunum sem að einhverju leiti verða til umræðu á þinginu. Norðurþing vinnur að gerð sinnar áætlunar, á grunni þeirrar vinnu sem ráðist var í með ALTA ráðgjafarstofu á síðasta ári. Markmiðið er að húsnæðisáætlun Norðurþings verði lögð fram til samþykktar á nóvemberfundi sveitarstjórnar.

https://www.ils.is/husnaedisthing/
Lagt fram til kynningar og sveitarstjórnarfulltrúar hvattir til að sækja fundinn.

3.Ósk um viðræður vegna mögulegs fjölbýlishúss við Útgarð og afslátt af gatnagerðargjöldum

Málsnúmer 201710012Vakta málsnúmer

Borist hefur erindi frá Friðriki Sigurðssyni hjá Artic Edge Consulting ehf. fyrir hönd óstofnaðs félags heimamanna á Húsavík þar sem óskað er eftir viðræðum við sveitarfélagið um möguleg kaup sveitarfélagsins á íbúðum í fyrirhuguðu fjölbýlishúsi við Útgarð. Einnig er óskað eftir viðræðum um að umrædd lóð falli undir nýauglýst afsláttarkjör sveitarfélagsins af gatnagerðargjöldum.
Byggðarráð tekur jákvætt í erindið að því leyti að eiga viðræður við áhugasama aðila um möguleg kaup sveitarfélagsins á íbúðum í fyrirhuguðu fjölbýli við Útgarð verði sú uppbygging að veruleika. Framhald málsins veltur á afgreiðslu Leigufélagsins Hvamms á framsali byggingarréttarins. Ósk um afsláttarkjör á gatnagerðargjöldum er vísað til afgreiðslu í framkvæmdanefnd.


Soffía Helgadóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Á Húsavík gerir deiliskipulag m.a. í Grundargarði og við Ásgarðsveg ráð fyrir fjölbýlishúsum sem henta vel fyrir einkaaðila sem vilja byggja íbúðir á almennum markaði. Því er engin ástæða til að láta lóðir við Útgarð sem eru skipulagðar í tengslum við Dvalarheimili aldraðra, Hvamm, til einkareksturs.
Ef vilji er fyrir því að selja Leigufélag Hvamms við Útgarð eða hluta eignarinnar, og eftirláta lóðir til einkaaðila. Þá er einboðið að leggja það í hendur kjósenda í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor og leyfa þeim að eiga síðasta orðið hvort þetta svæði verði áfram í uppbyggingu opinberra aðila eða hvort einkaaðilar taki við uppbyggingu og rekstri á þessu svæði."

4.Beiðni um styrkveitingu 2017

Málsnúmer 201709162Vakta málsnúmer

Borist hefur ósk um framlag frá Neytendasamtökunum til að styðja við starfsemi samtakanna.
Byggðarráð telur sér ekki fært að verða við styrkbeiðni Neytendasamtakanna að sinni.

5.Ósk um viðræður um uppbyggingarsamning við Golfklúbb Húsavíkur

Málsnúmer 201709170Vakta málsnúmer

Golfklúbbur Húsavíkur fagnar um þessr mundir 50 ára afmæli sínu og hyggst ráðast í byggingu nýs skála norðan Þorvaldsstaðarár. Golfklúbburinn óskar eftir viðræðum vegna uppbyggingarsamnings til lengri tíma sem og hefðbundins rekstrarsamnings til skemmri tíma til að reka Katlavöll.
Byggðarráð óskar Golfklúbbi Húsavíkur til hamingju með afmælið og felur sveitarstjóra að hefja viðræður um uppbyggingarsamning til lengri tíma.

6.Tilnefning í svæðisráð Rekstrarsvæðis 1 í Vatnajökulsþjóðgarði

Málsnúmer 201710006Vakta málsnúmer

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir að Norðurþing tilnefni varamann í svæðisráð fyrir Rekstrarsvæði 1 í Vatnajökulsþjóðgarði.
Byggðarráð tilnefnir Örlyg Hnefil Örlygsson sem varamann.

7.Dvalarheimili aldraðra - Hvammur, fundargerðir 2017

Málsnúmer 201702089Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

8.Fundargerðir Eyþings 2016-2017

Málsnúmer 201603019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 299. fundar stjórnar Eyþings.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:35.