Fara í efni

Fjölskylduráð

20. fundur 28. janúar 2019 kl. 13:00 - 14:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Benóný Valur Jakobsson varaformaður
  • Hrund Ásgeirsdóttir aðalmaður
  • Bylgja Steingrímsdóttir aðalmaður
  • Berglind Hauksdóttir aðalmaður
  • Ásta Hermannsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Örlygur Hnefill Örlygsson formaður
Starfsmenn
  • Jón Höskuldsson Fræðslu- og menningarfulltrúi
  • Kjartan Páll Þórarinsson Tómstunda- og æskulýðsfulltrúi
  • Hróðný Lund félagsmálafulltrúi
  • Röðull Reyr Kárason Ritari
Fundargerð ritaði: Röðull Reyr Kárason Þjónustufulltrúi
Dagskrá
Kjartan Páll Þórarinsson íþrótta- og tómstundafulltrúi sat fundinn undir lið 1 - 6
Hróðný Lund félagsmálastjóri sat fundinn undir lið 2 í gegnum síma
Jón Höskuldsson fræðslufulltrúi sat fundinn undir lið 1 í gegnum síma.

1.Trappa - Samningur um skólaþjónustu

Málsnúmer 201812070Vakta málsnúmer

Á 18. fundi fjölskylduráðs var eftirfarandi bókað:
Fjölskylduráð samþykkir að fela fræðslufulltrúa að halda áfram samningsvinnu og kynna fyrir ráðinu seinni hluta janúar 2019.

Ráðið hefur nú samninginn til afgreiðslu.
Fjölskylduráð hefur haft samning við Tröppu um skólaþjónustu til umræðu og samþykkir hann samhljóða.

2.Reglur um fjárhagsaðstoð

Málsnúmer 201901086Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.
Félagsmálastjóri kynnti uppfærðar reglur um fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustu Norðurþings. Ráðið frestar afgreiðslu reglnanna til næsta fundar.

3.Forvarnir í Norðurþingi

Málsnúmer 201812004Vakta málsnúmer

Á 88. fundi sveitarstjórnar var eftirfarandi bókað:

Til máls tók undir lið 5 "Forvarnir í Norðurþingi": Hjálmar, Kolbrún Ada, Örlygur, Kristján og Helena.

Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn telur mikilvægt að huga að forvörnum í víðu samhengi og virkja samtal allra sem koma að forvörnum í starfi sínu. Sérstök áhersla verði lögð á forvarnir fyrir börn og ungmenni.
Sveitarstjórn leggur til að forvarnarhópur verði starfandi í sveitarfélaginu og hlutverk hópsins skilgreint í takt við tíðarandann. Sömuleiðis að málinu verði vísað til Fjölskylduráðs til frekari úrvinnslu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Hjálmars.
Fjölskylduráð þakkar sveitarstjórn fyrir erindið. Málið er þegar í farvegi hjá fjölskylduráði. Ráðið tók fyrir bréf frá stjórn foreldrafélags Borgarhólsskóla á 17. fundi fjölskylduráðs þann 17. desember 2018. Formanni fjölskylduráðs var þar falið að fylgja málinu eftir í samráði við viðeigandi aðila. Fjölskylduráð áréttar að mikilvægt er að horfa á sveitarfélagið í heild með forvarnir í víðu samhengi í huga. Þá fellur vinnan líklega að hluta til inn í skoðun á Austurlandslíkaninu sem kynnt var fyrir starfsfólki sveitarfélagsins og kjörnum fulltrúum í liðinni viku.

Fjölskylduráð felur formanni að kynna vinnu sína á fundi ráðsins þann 25. febrúar.

4.Fræðsla um vímuefnaneyslu ungmenna

Málsnúmer 201901082Vakta málsnúmer

Berglind Hauksdóttir [fulltrúi V-lista] leggur til við fjölskylduráð að ráðið feli íþrótta- og tómstundafulltrúa Norðurþings að skipuleggja fræðslu fyrir foreldra og aðra áhugasama í samstarfi við lögregluna í Norðurþingi á vegum sveitarfélagsins hvað varðar vímefnaneyslu ungmenna.
Fjölskylduráð samþykkir tillöguna og felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að leggja drög að fræðslufundi, kanna með fyrirlesara og fundarstað og leggja fyrir ráðið í febrúar. Lagt er upp með að fræðslufundurinn verði í mars.

5.AG Þjálfun - leigusamningur

Málsnúmer 201812001Vakta málsnúmer

AG þjálfun sem hafa haldið utan um rekstur íþróttamiðstöðvarinnar og tjaldsvæðisins á Raufarhöfn hafa ákveðið að nýta sér uppsagnarákvæði í samningni sínum við Norðurþing. AG þjálfun mun hætta rekstri sínum í maí/júní eða samkvæmt samkomulagi.
Fyrir fjölskylduráði liggur að ákveða; lúkningu á samningi við AG þjálfun, rekstarfyrirkomulag sumarsins og útfærslu á líkamsræktaraðstöðu til framtíðar.
Fjölskylduráð þakkar AG þjálfun fyrir samstarfið og þeirra myndarlegu uppbyggingu og framlag til lýðheilsumála á Raufarhöfn.

Ráðið felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að ganga frá uppsögn samnings og uppgjöri við AG þjálfun. Jafnframt að taka upp samtal við fulltrúa AG þjálfunar um möguleika á samkomulagi um rekstur sumarsins 2019 samhliða því að kanna aðra kosti varðandi reksturinn. Íþrótta- og tómstundafulltrúi leggi málið fyrir ráðið að nýju eftir þau samtöl.

6.Sirkushátíð

Málsnúmer 201901060Vakta málsnúmer

Sirkus Íslands stefnir að því að halda sirkusráðstefnu í ágúst 2019. Verkefnið er enn í mótun en leitað er eftir áhugasömum sveitarfélögum til samstarfs. Stefnan er að halda þriggja daga sirkushátíð með námskeiðum og sýningum.
Fjölskylduráð tekur jákvætt í erindið og felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að kalla eftir frekari upplýsingum frá Sirkus Íslands.

Fundi slitið - kl. 14:00.