Fara í efni

Samkomulag um vindrannsóknir og uppsetningu rannsóknarbúnaðar

Málsnúmer 202012108

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 348. fundur - 17.12.2020

Fyrir byggðarráði liggja drög að samkomulagi Norðurþings og Qair Iceland ehf. um uppsetningu á mastri til rannsókna á vindafari með það í huga hvort landssvæði NA við Húsavíkurfjall sé heppilegt til að reisa þar vindmyllur til raforkuframleiðslu.

Garðar Garðarsson lögfræðingur og Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sátu fundinn undir þessum lið.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá samkomulagi við Qair Iceland ehf. um rannsóknir á vindafari.
Samþykkt með atkvæðum Helenu og Hafrúnar.
Kolbrún Ada greiðir atkvæði á móti.

Hjálmar Bogi og Silja óska bókað:
Við erum samþykk afgreiðslu málsins.


Kolbrún Ada leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég tel ekki skynsamlegt fyrir íbúa og atvinnulíf í Norðurþingi að taka þátt í þróun vindorkuvers við Húsavík. Það svæði sem um ræðir er mjög stutt frá þéttbýlinu á Húsavík og í sjónlínu úr ýmsum áttum af landi og sjó og þar að auki mjög nærri sveitarfélagamörkum Tjörneshrepps. Fyrir liggur að algeng hæð vindorkumastra er 100-200 metrar frá jörðu og munu þau á hæðina teygja sig um það bil í miðjar hlíðar Húsavíkurfjalls. Fullljóst er því að áhrif uppbyggingar af þessu tagi, með marga vindorkuturna við rætur Húsavíkurfjalls muni breyta verulega ásýnd svæðisins. Ekkert knýr á um orkuöflun yfir höfuð enda gnægð raforku til reiðu og afhendingar nú þegar fyrir notendur. Markmið uppbyggingar orkuversins virðast því ekki snúa á neinn máta að samfélagslegum þörfum eða atvinnuuppbyggingu á svæðinu, heldur er um að ræða arðsemisframkvæmd einkafjárfesta.
Á þessum grunni leggst undirrituð alfarið gegn frekari undirbúningi þessa verkefnis að meðtalinni útgáfu rannsóknaleyfis.

Byggðarráð Norðurþings - 419. fundur - 02.02.2023

Þann 24. mars 2021 gerði sveitarfélagið Norðurþing samkomulag við Qair Iceland ehf., (Qair) sem heimilaði Qair að hefja rannsóknir á vindafari á landsvæði NA við Húsvíkurfjall, en landsvæðið er í eigu Norðurþings. Samkvæmt samkomulaginu skyldi Qair heimilt (að undangenginni sérstakri umsókn þar um) að reisa á svæðinu mastur til vindafarsrannsókna og/eða að framkvæma þar sambærilegar vindafarsrannsóknir með svokölluðum „Lidar“ búnaði. Tilgangur Qair með þessum rannsóknum var að kanna hvort svæðið henti til að reisa þar vindorkugarð til rafmagnsframleiðslu. Samkomulagið við Qair veitti félaginu ekki einkarétt að rannsóknum á vindafari á svæðinu né fólst í því forgangur til frekari nytja svæðisins til uppbyggingar vindorkugarðs.

Þegar samkomulagið var gert lýsti forráðafólk Qair því yfir, að strax á vordögum ársins 2021 myndu vindafarsrannsóknir hefjast á svæðinu með því að flutt yrði þangað mastur, sem notað hafði verið við vindafarsrannsóknir annar staðar, eða þá að „Lidar“ búnaður yrði staðsettur á rannsóknarsvæðinu. Ekki varð af því, þrátt fyrir fyrirspurnir fulltrúa Norðurþings. Snemma árs 2022 áttu aðilar með sér fund þar sem forsvarsfólk Qair lýstu því yfir að vindrannsóknir myndu verða gerðar á árinu 2022. Ekkert varð heldur af því.
Þar sem engar vindafarsrannsóknir, með þeim hætti sem lýst var í samkomulaginu, hafa verið gerðar og þar af leiðandi engar rannsóknarniðurstöður kynntar Norðurþingi, telur byggðarráð Norðurþings ástæðulaust að halda áfram samstarfi við Qair Iceland ehf. um rannsóknir á svæðinu.

Byggðarráð Norðurþings - 420. fundur - 09.02.2023

Fyrir byggðarráði liggja til kynningar viðbrögð Qair Iceland ehf. við bókun byggðarráðs frá 02.02.2023.
Lagt fram til kynningar.

Byggðarráð Norðurþings - 423. fundur - 09.03.2023

Fyrir byggðarráði liggja drög að svari vegna bréfs frá Qair Iceland ehf. vegna vindrannsókna austan Húsavíkurfjalls.
Byggðarráð felur sveitarstjóra í samráði við lögfræðing sveitarfélagsins í málinu að svara Qair Iceland ehf. í samræmi við fyrirliggjandi drög.