Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

348. fundur 17. desember 2020 kl. 15:00 - 17:00 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir varaformaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
  • Silja Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Hjálmar Bogi Hafliðason áheyrnarfulltrúi
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá
Fundurinn fer fram í gegnum Teams fjarfundabúnað.

1.Kauptilboð í Hafnastétt 17 - Verbúðir

Málsnúmer 202012096Vakta málsnúmer

Borist hefur kauptilboð í fasteignina Hafnarstétt 17, verbúð frá Steinsteypi ehf. Kauptilboðið er 80 milljónir og yrði greitt með afhendingu á fasteigninni Hafnarstétt 1.
Byggðarráð hafnar fyrirliggjandi tilboði, en felur sveitarstjóra að undirbúa gerð gagntilboðs sem lagt verði fyrir byggðarráð, að undangengnu uppfærðu verðmati á Hafnarstétt 1 og þegar fyrir liggja ítarlegri upplýsingar um áhvílandi virðisaukaskattskvöð frá endurskoðendum sveitarfélagsins á þeirri eign.

2.Ósk um umsögn vegna ábendingar um skaðlegar athafnir sveitarfélagsins

Málsnúmer 202012095Vakta málsnúmer

Borist hefur bréf frá Samkeppniseftirlitinu þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins vegna ábendinga sem bárust Samkeppniseftirlitinu f.h. Gentle Giants-Hvalaferða ehf., vegna meintra aðgerða sveitarfélagsins sem haft
geta skaðleg áhrif á samkeppni á markaði fyrir hvalaskoðunarferðir á Norðurlandi. Þess er farið á leit að umsögnin og e.a. aðrar upplýsingar og gögn berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en föstudaginn 8. janúar 2021.
Hilmar Gunnlaugsson lögfræðingur sat fundinn undir þessum lið.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að senda umsögn til Samkeppniseftirlitsins í samráði við lögfræðing sveitarfélagsins.

3.Samkomulag um vindrannsóknir og uppsetningu rannsóknarbúnaðar

Málsnúmer 202012108Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að samkomulagi Norðurþings og Qair Iceland ehf. um uppsetningu á mastri til rannsókna á vindafari með það í huga hvort landssvæði NA við Húsavíkurfjall sé heppilegt til að reisa þar vindmyllur til raforkuframleiðslu.

Garðar Garðarsson lögfræðingur og Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sátu fundinn undir þessum lið.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá samkomulagi við Qair Iceland ehf. um rannsóknir á vindafari.
Samþykkt með atkvæðum Helenu og Hafrúnar.
Kolbrún Ada greiðir atkvæði á móti.

Hjálmar Bogi og Silja óska bókað:
Við erum samþykk afgreiðslu málsins.


Kolbrún Ada leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég tel ekki skynsamlegt fyrir íbúa og atvinnulíf í Norðurþingi að taka þátt í þróun vindorkuvers við Húsavík. Það svæði sem um ræðir er mjög stutt frá þéttbýlinu á Húsavík og í sjónlínu úr ýmsum áttum af landi og sjó og þar að auki mjög nærri sveitarfélagamörkum Tjörneshrepps. Fyrir liggur að algeng hæð vindorkumastra er 100-200 metrar frá jörðu og munu þau á hæðina teygja sig um það bil í miðjar hlíðar Húsavíkurfjalls. Fullljóst er því að áhrif uppbyggingar af þessu tagi, með marga vindorkuturna við rætur Húsavíkurfjalls muni breyta verulega ásýnd svæðisins. Ekkert knýr á um orkuöflun yfir höfuð enda gnægð raforku til reiðu og afhendingar nú þegar fyrir notendur. Markmið uppbyggingar orkuversins virðast því ekki snúa á neinn máta að samfélagslegum þörfum eða atvinnuuppbyggingu á svæðinu, heldur er um að ræða arðsemisframkvæmd einkafjárfesta.
Á þessum grunni leggst undirrituð alfarið gegn frekari undirbúningi þessa verkefnis að meðtalinni útgáfu rannsóknaleyfis.

4.Samkomulag um heimild til nýtingar jarðsjávar við Röndina á Kópaskeri

Málsnúmer 202012111Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að viðbót við grunnlóðasamning sveitarfélagsins við Rifós hf.vegna byggingarlóðar á Kópaskeri, þar sem Rifós hf. hyggst reisa laxeldisstöð í áföngum og, í samræmi við deiliskipulag lóðarinnar og fyrirætlanir aðila, bora þar eftir volgum jarðsjó.
Garðar Garðarsson lögfræðingur og Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sátu fundinn undir þessum lið.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá samkomulaginu í samræmi við fyrirliggjandi drög.

5.Gjaldskrá slökkviliðs 2021

Málsnúmer 202012083Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til samþykktar gjaldskrá Slökkviliðs Norðurþings fyrir árið 2021. Hækkun á gjaldskránni er 2,5% frá fyrra ári.
Byggðarráð samþykkir framlagða gjaldskrá Slökkviliðs Norðurþings og vísar til staðfestingar sveitarstjórnar.

6.Framlög til stjórnmálasamtaka 2020

Málsnúmer 202012008Vakta málsnúmer

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir óskar eftir umræðu um framlög sveitarfélagsins til stjórnmálasamtaka 2020.
Kolbrún Ada óskar bókað:

V-listi er ekki til sem sjálfstæð eining með kennitölu þannig að ársreikningur fyrir 2018 fór inn í samstæðureikning VG fyrir það ár. 2019 var veltan undir því marki sem kallar á skil til Ríkisendurskoðunar (300 þús ISK).
V-listinn afþakkar styrk frá sveitarfélaginu til stjórnmálaflokka fyrir árið 2020 í ljósi stöðunnar sem er í samfélaginu og vill þannig leggja sitt af mörkum líkt og allir fulltrúar hafa gert með því að lækka laun sín fyrir nefndarsetu. Jafnframt skorum við á aðra lista að gera slíkt hið sama.

7.Fundargerðir SSNE 2019 - 2020

Málsnúmer 202002015Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 19. fundar stjórnar SSNE frá 9. desember sl.
Lagt fram til kynningar.

8.Fundargerðir 2020 - Samband íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 202002019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 892. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 11. desember sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:00.