Tillögur að breytingu aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 og tveimur nýjum deiliskipulögum ásamt umhverfisskýrslum
22.01.2014
Tilkynningar
Bæjarstjórn Norðurþings auglýsir hér með til almennrar kynningar eftirfarandi skipulagstillögur og tilheyrandi umhverfisskýrslur.
- Breyting aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 vegna stækkunar verslunar- og þjónustusvæðis við golfvöllinn á Húsavík. Breytingin felst í stækkun verslunar- og þjónustusvæðis V3 í gildandi aðalskipulagi úr 0,43 ha í 3,2 ha og tengja götuna Langholt inn á þjóðveg nr. 85 sunnan Þorvaldsstaðaár. Fyrirhuguð er bygging hótels og golfskála á umræddum þjónustureit. Skipulagstillagan ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu er sett fram á einu blaði í stærð A3.
- Tillaga að deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæðis við golfvöllinn á Húsavík. Deiliskipulaginu er ætlað að skilgreina byggingarrétt á 3,2 ha verslunar- og þjónustusvæði við golfvöllinn og er tillagan til samræmis við stækkun svæðisins með aðalskipulagsbreytingu sem kynnt er samhliða. Skilgreindar eru tvær lóðir innan skipulagssvæðisins. Önnur þeirra er ætluð undir hótelbyggingar á einni og tveimur hæðum auk kjallara. Flatarmál lóðarinnar er 2,1 ha og leyfilegt nýtingarhlutfall er 0,4. Hin lóðin er ætluð undir golfskála á tveimur hæðum auk kjallara. Stærð lóðarinnar er 0,58 ha og skal nýtingarhlutfall vera allt að 0,3. Skipulagstillagan er sett fram á uppdrætti á blaðstærð A2 og greinargerð með umhverfisskýrslu í sérstöku hefti.
- Tillaga að deiliskipulagi 2. áfanga iðnaðarlóðar á Bakka. Skipulagstillagan skilgreinir byggingarrétt á þremur nýjum iðnaðarlóðum á iðnaðarsvæði á Bakka á 6,6 ha svæði austan þjóðvegar og norðan Bakkaár. Stærsta lóðin er 4,2 ha að flatarmáli og er þar horft til þarfa steypustöðvar. Hinar lóðirnar tvær eru hvor um sig um hektari að flatarmáli. Skipulagstillagan er sett fram sem uppdráttur á blaðstærð A1 auk greinargerðar með umhverfisskýrslu.
Skipulagstillögurnar ásamt umhverfisskýrslum verða til sýnis á bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík frá 23. janúar til 7. mars 2014. Ennfremur verður hægt að skoða skipulagstillögurnar á heimasíðu Norðurþings (nordurthing.is). Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til og með föstudeginum 7. mars 2014. Skila skal skriflegum athugasemdum til bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillögurnar teljast þeim samþykkir.
Húsavík 21. janúar 2014
Gaukur Hjartarson
Skipulags- og byggingarfulltrúi