Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

265. fundur 25. september 2018 kl. 08:20 - 10:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Óli Halldórsson formaður
  • Kristján Þór Magnússon
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Silja Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Guðbjartur Ellert Jónsson áheyrnarfulltrúi
  • Birna Ásgeirsdóttir
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun Norðurþings 2019

Málsnúmer 201805247Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að samþykkja tekjuáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2019 og þriggja ára áætlunar 2020-2022 og fjárhagsramma vegna áætlunar fyrir árið 2019.
Byggðarráð samþykkir að vísa framlögðum römmum til frekari úrvinnslu í nefndum sveitarfélagsins.

2.Tilraunaverkefni um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni

Málsnúmer 201809061Vakta málsnúmer

Samþykkt hefur verið að sveitarfélagið sæki um að gerast aðili að tilraunverkefni í húsnæðismálum sem Íbúðalánasjóður mun hafa veg og vand af. Fyrir fundinum liggja til kynningar vinnuskjöl vegna umsóknarinnar sem send verður Íbúðalánasjóði fyrir 30. september nk.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá umsókn og senda fyrir hönd Norðurþings í samráði við samstarfsaðilana.

3.Fyrirhuguð hitaveita í Kelduhverfi - Ytri Bakki (Þórseyri), Sjávarbakki

Málsnúmer 201809014Vakta málsnúmer

Á undanförnum árum hefur Orkuveita Húsavíkur haft til athugunar að byggja upp hitaveitu í Kelduhverfi. Byggja fyrirætlanir þessar á því að hagnýta heitt vatn úr borholu BA-04 sem stendur á eiðinu milli Skjálftavatns og Bakkahlaups í Kelduhverfi. Erindi liggur fyrir byggðarráði þess efnis að óskað er eftir afstöðu eigenda Ytri-Bakka (Þórseyri) þess efnis hvort eigendur óski eftir því að taka inn hitaveitu, komi til þeirrar framkvæmdar.
Byggðarráð telur ljóst að ef Orkuveita Húsavíkur tekur ákvörðun um að leggja hitaveitu í Kelduhverfi mun sveitarfélagið taka inn hitaveitu fyrir þær fasteignir sem tilheyra sveitarfélaginu á svæðinu og líklegt er að verði í framtíðinni í notkun fyrir atvinnustarfsemi og/eða búsetu. Sveitarstjóra er falið að skrifa undir meðfylgjandi yfirlýsingu frá Orkuveitu Húsavíkur.

4.Innra eftirlit hjá Norðurþingi

Málsnúmer 201809087Vakta málsnúmer

Innra eftirlit er mikilvægur þáttur í starfsemi sveitarfélaga og er til þess fallið að að veita vissu um að sveitarfélagið nái árangri og skilvirkni í starfsemi í samræmi við markmið sveitarfélagins, að það veiti áreiðanlegar og réttmætar fjárhagsupplýsingar til ytri aðila og að það hlíti lögum og reglum sem gilda um starfsemina. Í 72. gr. sveitarstjórnarlaga segir; 'endurskoðandi sveitarfélags skal skila skriflegri skýrslu til sveitarstjórnar um mikilvæg atriði sem fram hafa komið við endurskoðun ársreiknings og könnun skv. 3. mgr. Í skýrslunni skal sérstaklega, ef við á, geta um veikleika í innra eftirliti í vinnuferli við gerð reikningsskila'. Undanfarin ár hafa borist ábendingar frá endurskoðendum Norðurþings varðandi innra eftirlit og hafa þær snúið að aðgangsheimildum og skörun starfa tengdum bókhaldskerfi Norðurþings.
Á fjármála- og bókhaldssviði Norðurþings eru starfsmenn fáir og því óhjákvæmilegt að störf, sem æskilegt er að skarist ekki, geri það. Hlutverk kerfisstjóra hefur undanfarin ár verið í höndum aðalbókara vegna fámennis á fjármála- og bókhaldssviði hjá Norðurþingi, en í 5. gr. reglugerðar um rafrænt bókhald nr. 205 frá 2013 kemur fram að starfsmönnum þ.m.t. kerfisstjóra er óheimilt að annast hvers konar verkefni er snerta færslur gagna inn í kerfið.
Af þeim sökum er æskilegt að fyrir liggi skýrar verklagsreglur varðandi þessi störf sem tryggi gagnaöryggi í vinnslum sveitarfélagsins. Tilgangur fyrirliggjandi verklagsreglu er að tryggja innra eftirlit og öryggi gagna m.t. til skörunar starfa aðalbókara og kerfisstjóra og er í samræmi við ábendingar endurskoðenda Norðurþings undanfarin ár.
Byggðarráð samþykkir framlagða verklagsreglu.

5.Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna 2018

Málsnúmer 201809079Vakta málsnúmer

Árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin fimmtudaginn 11. október og föstudaginn 12. október á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Skráningu lýkur mánudaginn 8. október og eru sveitarstjórnarmenn og aðrir vinsamlega beðnir um að virða þau tímamörk og skrá sig tímanlega.
Lagt fram til kynningar.

6.Fundargerðir Eyþings 2016-2018

Málsnúmer 201603019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 308. fundar stjórnar Eyþings.
Lagt fram til kynningar.

7.Fundargerð Svæðisráðs VJÞ - 53.fundur

Málsnúmer 201809108Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 53. fundar svæðisráðs norðursvæðis Vatnajökulsþjógarðar.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:00.