Fara í efni

Fjölskylduráð

141. fundur 07. febrúar 2023 kl. 08:30 - 10:35 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Bylgja Steingrímsdóttir aðalmaður
  • Hanna Jóna Stefánsdóttir aðalmaður
  • Ingibjörg Benediktsdóttir aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir varaformaður
  • Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Hróðný Lund félagsmálastjóri
  • Kjartan Páll Þórarinsson Íþrótta- og tómstundafulltrúi
  • Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir fjölmenningarfulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir stjórnsýslufulltrúi
Dagskrá
Hróðný Lund félagsmálastjóri sat fundinn undir liðum 1-4.
Kjartan Páll Þórarinsson íþrótta- og tómstundafulltrúi sat fundinn undir liðum 5-11.
Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir fjölmenningarfulltrúi sat fundinn undir liðum 6-7.

1.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202302002Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur trúnaðarmál.
Fært í trúnaðarmálabók.

2.Framkvæmdaáætlun í barnavernd

Málsnúmer 202001036Vakta málsnúmer

Á 140. fundi fjölskylduráðs 31.01.2023, var málinu frestað til næsta fundar.
Fjölskylduráð hyggst halda vinnufund á næstu vikum vegna endurskoðunar á framkvæmdaáætluninni.

3.Árleg endurskoðun jafnréttisáætlunar Norðurþings

Málsnúmer 202101145Vakta málsnúmer

Á 140. fundi fjölskylduráðs 31.01.2023, var málinu frestað til næsta fundar.
Tillaga frá minnihluta: Ingibjörg fyrir hönd V lista, Ingibjörg Hanna fyrir hönd M lista og Rebekka fyrir hönd S lista leggja til þá tillögu að leitað verði til Hinseginfélags Þingeyinga varðandi endurskoðun á jafnréttisáætlun Norðurþings. Jafnframt að fjölskylduráð fái félagið til að kynna starfsemi sína á fundi fjölskylduráðs.

Tillagan er samþykkt.

Fjölskylduráð vísar jafnréttisáætlun til umfjöllunar í skipulags- og framkvæmdaráði og í byggðarráði og óskar eftir ábendingum frá ráðunum um úrbætur.

4.Bakkagata 15, Útskálar Ósk um söluheimild.

Málsnúmer 202302007Vakta málsnúmer

Húsnæðisnefnd tók fyrir húsnæði Bakkagötu 15, Kópaskeri. Húsnæðið er verulega illa farið, þarfnast úrbóta og býður ekki upp á aðgengi fyrir öll. Taka þarf ákvörðun um hvort fara eigi í framkvæmdir eða selja húsnæðið.
Fjölskylduráð leggur til að Bakkagata 15 verði seld og vísar málinu til skipulags- og framkvæmdaráðs.

5.Húsnæði fyrir Frístund - tillaga minnihlutans

Málsnúmer 202302004Vakta málsnúmer

Tillaga Ingibjargar Benediktsdóttur, Ingibjargar Hönnu Sigurðardóttur og Rebekku Ásgeirsdóttur vegna húsnæðis frístundar.

Tillagan er eftirfarandi:
Lagt er til að skoðað verði að byggja frístundarhús við Borgarhólsskóla. Tillagan lítur að því að þessi möguleiki verði skoðaður samhliða þeirri hugmynd sem unnið er að núna. Það er að byggja húsnæðið við Íþróttahöllina.
Ingibjörg Benediktsdóttir og Rebekka Ásgeirsdóttir greiða atkvæði með tillögunni
Bylgja Steingrímsdóttir, Helena Eydís Ingólfsdóttir og Hanna Jóna Stefánsdóttir greiða atkvæði gegn tillögunni.

Tillögunni er hafnað.

Undirritaðar hafna tillögu minnihlutans um að á þessum tímapunkti verði hafin vinna við að kanna kosti þess að byggja húsnæði fyrir frístund við Borgarhólsskóla.
Lengi hefur verið unnið að því að koma upp nýrri aðstöðu fyrir frístund. Á síðasta kjörtímabili störfuðu til að mynda tveir starfshópar að því að undirbúa byggingu nýrrar aðstöðu þ.e. greina kosti og galla mismunandi staðsetninga og byggingarleiða. Afrakstur þeirrar vinnu hefur meðal annars verið nýttur við frumhönnun húsnæðis sem byggt yrði við íþróttahöllina. Í vor, eftir að hætt var við byggingu frístandandi húsnæðis úr færanlegum einingum, kom fram tillaga um að kostnaður við að rífa Tún og byggja frístundahúsnæði á þeirri lóð yrði kannaður og í haust var ákveðið að kanna samhliða kostnað við að byggja við íþróttahöllina. Á þessu tímabili komu engar aðrar formlegar tillögur fram.
Á einhverjum tímapunkti þarf að taka ákvörðun. Það var gert í nóvember síðastliðinn þegar ákveðið var að hefja undirbúning byggingar við íþróttahöllina undir frístundastarfsemi. Undirritaðar eru áfram um að sú hugmynd verði að veruleika og að aðstaða frístundar verði loksins komið fyrir í góðri aðstöðu.
Komi upp aðstæður, eins og gerðu á síðasta kjörtímabili þegar ákveðið var að hætta við byggingu með færanlegum einingum vegna kostnaðar, verður hægt að taka þessa tillögu sem og aðrar eldri eða nýjar sem kæmu fram til ítarlegrar skoðunar og ákvarðanatöku.
Bylgja, Helena Eydís og Hanna.

6.Umsókn í lista- og menningarsjóð 2023

Málsnúmer 202301089Vakta málsnúmer

Safnahúsið á Húsavík sækir um styrk í lista- og menningarsjóð Norðurþings að upphæð 100.000 kr. vegna samfélagsverkefnis sem felst í því að greina gamlar ljósmyndir.
Fjölskylduráð hafnar erindinu þar sem 2.gr. í reglum um úthlutun styrkja í lista- og menningarsjóð Norðurþings segir að styrki megi veita einstaklingum, félögum og samtökum.

7.Umsókn í lista- og menningarsjóð 2023

Málsnúmer 202301090Vakta málsnúmer

Guðný María Waage sækir um styrk í lista- og menningarsjóð Norðurþings að upphæð 100.000 kr. til þess að efla hundavini á Húsavík; fara í vorhreinsun á hundasvæði og bjóða upp á grillaðar pylsur.
Fjölskylduráð hafnar erindinu þar sem það samræmist ekki reglum sjóðsins.

8.Aldarafmæli íþróttafélagsins Völsungs

Málsnúmer 202209071Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð hefur til umfjöllunar minnisblað frá íþrótta- og tómstundafulltrúa varðandi tilnefningar í afmælisnefnd Völsungs.
Fjölskylduráð skipar þau Bergdísi Björk Jóhannsdóttur, Guðmund Friðbjarnarson og Ingólf Freysson í afmælisnefnd Völsungs.

Verkefni afmælisnefndar er að gera tillögur að mögulegum afmælisgjöfum sveitarfélagsins til Völsungs í tilefni af 100 ára afmæli félagsins árið 2027.
Fjölskylduráð óskar eftir því að nefndin leggi fram minnisblað með tillögum að gjöfum. Í því verið hugað að hvort tveggja smærri gjöfum, sem gætu verið til hverrar deildar innan félagsins, sem og stærri gjöfum sem kæmu sér vel fyrir félagið í heild og allar deildir þess.
Óskað er eftir því að minnisblaðið liggi fyrir áður en fjárhagsáætlanagerð ársins 2024 hefst.

9.Rekstur tjaldsvæða Norðurþings 2023

Málsnúmer 202301076Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð hefur til umfjöllunar rekstur tjaldsvæða Norðurþings. Málið var áður til umfjöllunar á 140. fundi fjölskylduráðs 31.01.2023.
Fjölskylduráð samþykkir að rekstur tjaldsvæða í Norðurþingi verði óbreyttur árið 2023.

10.Frístund sumarstarfsemi 2023

Málsnúmer 202301075Vakta málsnúmer

Á 140. fundi fjölskylduráðs 31.01.2023, var málinu frestað til næsta fundar.
Fjölskylduráð felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að vinna málið áfram og kynna starfsemi sumarfrístundar sem fyrst.

11.Ungmennaráð 2022 - 2023

Málsnúmer 202210048Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð hefur til kynningar fundargerð ungmennráðs.
Fjölskylduráð þakkar ungmennaráði fyrir framúrskarandi bókanir.
Ráðið felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að kanna kostnað við fræðsluerindi fyrir 14-25 ára. Fjölskylduráð hvetur öll ungmenni til þátttöku í íbúafundi um Mærudaga sem fer fram 28. febrúar nk.

Fundi slitið - kl. 10:35.