Leigusamningur við Norður-Siglingu um dráttarbrautina á Húsavík
Málsnúmer 201110052
Vakta málsnúmerFramkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 20. fundur - 10.07.2012
Fulltrúi Þinglistans, Áki Hauksson, vill fá upplýsingar um slippinn í samræmi við afgreiðslu nefndarinnar frá 12. október 2011 en þar var samþykkt að leita eftir endurskoðun samningsins á grundvelli 4. gr. hans. Framkvæmda- og hafnanefnd frestar afgreiðslu málsins fram á haust.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 24. fundur - 12.12.2012
Fyrir fundinum liggja drög að leigusamningi milli Hafnasjóðs Norðurþings og Norðursiglingar vegna slippsins á Húsavík. Framkvæmda- og hafnanefnd fór yfir samningsdrögin. Nefndin felur hafnastjóra að láta gera úttekt á ástandi dráttarbrautar og búnaði og tekur afstöðu til samningsins þegar hún liggur fyrir.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 26. fundur - 13.02.2013
Farið yfir matsskýrslu sem Grímur ehf vélsmiðja / Þórir Örn Gunnarsson vann fyrir nefndina en hann skoðaði og mat ástand dráttarbrautarinnar nú í janúar sl. Framkvæmda- og hafnanefnd þakkar Þóri Erni fyrir góða og vel unna skýrslu. Ljóst er ástand slippsins er mjög bágborið og viðhaldi ábótavant. Nefndin telur því nauðsynlegt, áður en lengra er haldið, að fá lögfræðiálit um réttarstöðu eiganda dráttarbrautarinnar. Fá á hreint hver sér um eftirlit slíkra mannvirkja og fá umsögn þess aðila. Funda með leigutaka (Norðursiglingu) og kynna skýrsluna fyrir honum.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 27. fundur - 20.03.2013
Fyrir fundinum liggur tillaga að leigusamningi við Norðursiglingu um dráttarbrautina á Húsavík og ýmsar upplýsingar tengdar slippnum og ástandi hans. Arnar Sigurðsson lagði fram eftirfarandi breytingartillögur.- gjald verði greitt af bátum sem eru í dráttarbrautinni. Meirihluti nefndarinnar hafnar tillögunni. - leigugjald verði 100 þús. á mánuði. Meirihluti nefndarinnar samþykkir tillöguna. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir fyrirliggjandi samning með áorðnum breytingum. Arnar Sigurðsson og Áki Hauksson samþykkja ekki samninginn. Arnar óskar bókað.Ég undirritaður Arnar Sigurðsson, fulltrúi Sjálfstæðisfélags Húsavíkur í framkvæmda- og hafnanefnd legg til að Slippnum verði lokað. Norðursigling hafi svigrúm til að klára að vinna við Hildi sem nú er í Slippnum og síðan verði hún sett fram. Norðursigling lagfæri það sem upp er talið í viðhaldsáætlun undirritaðri af Ragnari Hermannssyni, svo og aðrar lagfæringar sem fagaðilar telja að þurfi að framkvæma svo Slippurinn geti talist öruggur og í góðu lagi með vísan í matsskýrslu Gríms ehf. Að loknu viðhaldi og úttekt fagaðila (t.d. Grímur ehf.) geti Norðursigling fengið Slippinn á leigu. Þegar síðasti leigusamningur um Slippinn var gerður lá fyrir úttekt um lagfæringar og kostnað á þeim, það hlýtur að hafa verið skilningur aðila að leigutaki myndi lagfæra Slippinn samkvæmt þeirri úttekt og skildi það vera leigugjald fyrir afnot af Slippnum. Nú liggur fyrir að leigutaki hefur ekki efnt þann samning, skilyrði fyrir nýjum samningi verði að fyrri samningur verði uppfylltur. Áki tekur undir bókun Arnars.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 29. fundur - 08.05.2013
Fyrir framkvæmda- og hafnanefnd liggur erindi frá Steinunni Sigvaldadóttir, f.h. Norðursiglingar vegna leigugjalds í leigusamningi um dráttarbrautina á Húsavík. Bréfritari óskar eftir því að leigugjaldið verði endurskoðað með tilliti til rekstrarhæfni dráttarbrautarinnar. Gert er ráð fyrir í rekstraráætlunum fyrirtækisins að viðhaldskostnaður vegna dráttarbrautarinnar verði á árínu 2013 um 2 mkr. Endanleg uppbygging og endurnýjun á dráttarbrautinni tekur lengri tíma og hefur fyrirtækið mikinn áhuga á að leggja fram fyrir nefndina á haustmánuðum hugmynd af framtíðarsýn Slippsins og viðskiptaáætlun til lengri tíma. Þar sem sú vinna er ekki nægilega langt komin og starfsemi dráttarbrautarinnar í lágmarki er óskað eftir því að leigugjaldið verði lækkað. Meirihluti framkvæmda- og hafnanefndar samþykkir að leiguverðið verði kr. 35 þúsund á mánuði fyrir árið 2013. Áki óskað bókað:Áki minnir á að nefndin samþykkti nýlega að leiguverð ætti að vera 100 þúsund á mánuði. Engar forsendur hafa breyst varðandi leiguverðið. Sigurgeir situr hjá við afgreiðsluna.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings - 35. fundur - 05.11.2013
Núverandi leigusamningur við Norðursiglingu rennur út um næstu áramót. Steinunn Sigvaldadóttir, framkvæmdastjóri og Ragnar Hermannsson viðhaldsstjóri Norðursiglingar komu á fundinn og kynntu hugmyndir fyrirtækisins um framtíðaruppbyggingu slippsins á Húsavík. Framkvæmda- og hafnanefnd þakkar þeim fyrir kynninguna. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir að framlengja leigusamning um dráttarbrautina um eitt ár eða til áramóta 2014-2015. Leiguverð skal taka mið af verðlagsbreytingum.