Fara í efni

Orkuveita Húsavíkur ohf

222. fundur 27. júlí 2021 kl. 08:30 - 10:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sigurgeir Höskuldsson formaður
  • Bergur Elías Ágústsson varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson varamaður
Starfsmenn
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
Fundargerð ritaði: Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmdastjóri
Dagskrá
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri og Drífa Valdimarsdóttir, fjármálastjóri sátu fundinn undir fundarliðum nr. 2 og 3.

1.Málefni Stekkjarholts í Reykjahverfi

Málsnúmer 202107038Vakta málsnúmer

Formaður stjórnar OH, Sigurgeir Höskuldsson leiðir umræður undir fundarliðnum.
Örlygur Hnefill Jónsson hefur óskað eftir að málinu verði frestað.

2.Þjónustusamningur Orkuveitu Húsavíkur og Norðurþings 2020

Málsnúmer 201911045Vakta málsnúmer

Bergur Elías Ágústsson óskar eftir umræðum um gildandi þjónustusamning milli Orkuveitu Húsavíkur ohf. og Norðurþings sem staðfestur var í sveitarstjórn þann 19.05.2020 og undirritaður var af sveitarstjóra og formanni stjórnar OH þann 16.06.2020.
TILLAGA
Undirritaður leggur til að þar sem ekki hefur tekist að gera grein fyrir raunkostnaði við skrifstofukostnað sem og gjald og eignfærslur innan Orkuveitu Húsavíkur ohf sem tilheyra Norðurþingi, verði samningi milli Orkuveitur Húsavíkur ohf og Norðurþings sagt upp nú þegar. Þegar samkomulagið rennur sitt gildi er lagt til að gerð verði ítarskoðun á raunkostnaði og gjaldfærðum kostnaði samkvæmt samkomulaginu.

GREINARGERÐ
Með vísan til bókunar minnar og fyrirvara við ársreikninga Orkuveitu Húsavíkur, er vísar til samnings milli Orkuveitunnar og sveitarfélagsins Norðurþings, er hér óskað eftir framangreindum upplýsingum með vísan til greinar 6, 7 og 9 í reglugerð 1180/2014 með síðari breytingum, sem fjallar um milliverðlagningu á milli tengdra aðila og þeirra gagna sem ber að leggja fram við slík viðskipti.

Ástæða fyrirspurnar minnar er að ég tel að sá samningur sem samþykktur var af meirihluta stjórnar standist ekki skoðun með vísan til framangreinds. Óskað er eftir sundurliðuðum launakostnaði á þá starfsmenn sem unnið hafa fyrir Orkuveitnuna, leigu á húsnæði sem og sundurliðun á annarri þjónustu sem greitt hefur verið fyrir á liðnu ári. Þess er óskað að upplýsingarnar verið sendar á undirritaðan eins fljótt og auðið er.

Á aðalfundi Orkuveitu Húsavíkur ohf lagði undirritaður eftirfarandi fram. Rétt er að það komi fram að undirritaður ritar nafn sitt við ársreikning félagsins fyrir 2020 með fyrirvara. Þar sem slíkt er ekki algengt geri ég hér ítarlega grein fyrir þeirri ákvörðun.

Ástæða þess er að ekki hefur verið skýrt, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, ákveðna kostnaðarlið í ársreikningi félagsins. Fyrir það fyrsta hefur verið óskað eftir skýringu sem og kostnaðargreiningu á skrifstofukostnaði að upphæð 109.828.441 krónum á árinu. Í öðru lagi hefur komið fram að Orkuveita Húsavíkur hef greitt og eignfært hlutdeild A hluta í framkvæmdum fyrir um 16.000.000 krónur. Samtals 125.828.441 krónur

Það er ábyrgðarhlutur að sitja í stjórn félags í eigu íbúa sveitarfélagsins Norðurþings og þar af leiðand mikilvægt að rauntekjur- og raunkostnaður sé ávallt til staðar í reikningum félagsins og hann sé vel skilgreindur og skiljanlegur fyrir stjórnarmenn sem og íbúa sveitarfélagsins, sem eru eigendur félagsins.

Sveitarfélagið Norðurþing (móðurfélagið A hlutinn ) sem selur Orkuveitu Húsavíkur ( B hluta félag) þjónustu, beri því að sýna stjórn með óyggjandi hætti hvað felist í veittri þjónustu og hver afleiddur kostnaður er.

Hægt er færa nokkuð góð rök fyrir því að A hluti (sveitasjóður) er að sækja óskilgreint fé í B hluta félag (OH, sem er opinbert hlutafélag) án þess að skýrar upplýsingar um kostnað liggi fyrir (of eða van). Eitt er að kaupa skilgreinda fjárhags- og bókhaldsþjónustu og eftir atvikum aðkeypt vinnuafl en annað gildir um óskilgreinda kostnaðarþátttöku í framkvæmdum á vegum A hluta. Þessi verkefni þarf að skýra og jafnframt þarf að liggja fyrir verkbókhald og kostnaður um þá hluti sem snúa að aðkeyptri þjónustu sbr. vinnu starfsmanna og frágang og umsýslu með reikningagerð og bókhaldi.

OH gæti hugsanlega fengið þessa þjónustu ódýrari frá þriðja aðila eða framkvæmt hana sjálf. Sé það staðan, ber stjórn að hugsa um hag félagsins. Í annan stað hafi A hlutinn þurft á fjármögnun að halda fyrir verklegum framkvæmdum er eðlilegt að slíkt sé reikningsfært á A hlutann. Það breytir því ekki að önnur aðkeypt þjónusta þarf að vera skilgreind og þekkt þannig að ljóst sé hvað er verið að greiða fyrir.

Sjálfstæð og löglega skipuð stjórn í OH fer með ákvörðunarvaldið og vinnur samkvæmt samþykktum félagsins - eigandinn kemur að félaginu á árs eða hluthafafundi, þess á milli bera stjórnarmenn einir ábyrgð á rekstri félagsins.

Rétt er að benda á að hér er um milliverðlagningu að ræða. En hugtakið milliverðlagning vísar til þess hvernig tengdir lögaðilar verðleggja viðskipti sín á milli. Reglum um milliverðlagningu er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum slíkra aðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila, þ.e. að verð sé í samræmi við svokallaða armslengdarreglu. Reglurnar eru jafnframt leiðbeinandi fyrir skattyfirvöld um hvernig eigi að ganga úr skugga um að verðlagningin uppfylli þessi skilyrði. Ef verðlagning er innan armslengdar (þ.e. milli tengdra aðila), og verð er frábrugðið því sem væri í viðskiptum ótengdra aðila, ber að leiðrétta verðið og ákvarða skattstofn eða skattstofna að nýju eftir því hvort verð reynist of- eða vanmetið.

Reglur um milliverðlagningu eiga við um viðskipti milli tengdra lögaðila þrátt fyrir að á þeim hvíli ekki krafa um skjölunarskyldu. Ef tengsl milli lögaðila eru með öðrum hætti en greinir í ákvæði um milliverðlagningu geta almennar reglur um skattasniðgöngu átt við vegna viðskipta þeirra á milli. Reglurnar eiga ekki við ef um málamyndagerninga eða sýndargerninga er að ræða. Í þeim tilvikum gilda almenn ákvæði um skattasniðgöngu.
1. Reglurnar eiga eingöngu við þegar tiltekin tengsl eru á milli lögaðila sem eiga í viðskiptum. Það er:
2. Þegar lögaðilar eru hluti af sömu samstæðunni eru þeir ótvírætt tengdir lögaðilar.
3. Þegar lögaðili er undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu telst hann tengdur öllum lögaðilum innan samstæðunnar.
4. Þegar lögaðili á meira en 50% í öðrum lögaðila með óbeinum hætti teljast þeir tengdir í skilningi ákvæðis laganna um milliverðlagningu. Ef annar lögaðilinn er hluti af samstæðu telst hinn lögaðilinn tengdur öllum öðrum lögaðilum innan samstæðunnar.

Það er mín einlæg ósk að framangreint verði skýrt ítarlega fyrir seinni umræðu um ársreikninga í sveitarstjórn. Spurningin sem þarf að svara er, hvort Orkuveitan vangreiðir, greiðir rétta upphæð eða ofgreiðir fyrir þjónustu A-hluta og hver sinnir kostnaðareftirliti félagsins.

Undirritaður hefur fengið í hendur minnisblað dagsett 12 maí sl. Er það merkt sem vinnuskjal og því ekki til opinberar birtingar samkvæmt venju. Óhætt er að segja að þær tölur sem þar birtast séu áhugaverðar og í raun gefa þær stjórn ekki annarra kosta völ en að seiga upp hinu umdeilda samkomulagi milli Norðurþings og Orkuveitu Húsavíkur ohf. Rétt er að nefna að aðeins er gert grein fyrir 56,4 m.kr af þeim tæpu 126 m.kr sem óskað er að gerð verði grein fyrir, eða um 43% af upphæðinni.

Að lokum þá er rétt að benda á grunnstarfsemi Orkuveitu Húsavíkur ohf samanstendur að þremur þáttum, sem eru;
Liðir Hitaveita Vatnsveita Fráveita Samtals
Tekjur 259 100 66 425
Rekstarkostnaður 213 11 11 235
Afskriftir 54 25 55 134
Rekstrarhagnaður / (tap) -8 64 0 56

Ljóst er að Orkuveitan er í döprum rekstri í Hitaveitu, Fráveitu, en góða afkomu hjá Vatnsveitu, en þar eru blikur á lofti sem ekki er vitað hvernig fer. Fjárfestingarþörf er veruleg. Ljóst er að stjórn getur ekki vikið sér undan því að taka á rekstri félagsins, sé það ekki gert mun slíkt aðeins leiða til eins þegar fram líða stundir þ.e. að auka þarf álögur á viðskiptavini Orkuveitunnar og það verulega.

Bergur Elías Ágústsson,
varaformaður stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf.

Fyrir liggur minnisblað fjármálastjóra, yfirfarin af endurskoðendum hvernig greiðslum er háttað frá Orkuveitu Húsavíkur til Norðurþings. Að mati meirihluta stjórnar er ekkert óeðlilegt við það sem þar kemur fram. Fyrir liggur tillaga frá Bergi Elíasi Ágústssyni sem stjórn OH hefur ekki fengið tækifæri til að kynna sér. Þ.a.l. er lagt til að tillagan verði tekin fyrir síðar.

3.Rekstrarstjóri Orkuveitu Húsavíkur ohf

Málsnúmer 202107037Vakta málsnúmer

Umsóknarfrestur um stöðu rekstrarstjóra Orkuveitu Húsavíkur ohf, rann út á miðnætti 12. júlí sl. Ráðningarferli byggt á þeim umsóknum sem bárust er í ferli hjá sveitarstjóra Norðurþings.
Alls sóttu fimm manns um stöðu rekstrarstjóra Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri og Drífa Valdimarsdóttir, fjármálastjóri kynna umsækjendur og fara yfir ráðningarferlið og stöðu þess.

4.Samkomulag um sölu á heitu vatni til N-Lax ehf

Málsnúmer 202103074Vakta málsnúmer

Unnin hafa verið drög að endurnýjuðu samkomulagi við N-Lax ehf vegna vatnssölu til félagsins. Drögin byggja á eldra samkomulagi sama efnis sem gert var við gjaldþrota félag Norðurlax hf og stuðst hefur verið við í tengslum við innheimtu veitugjalda N-Lax ehf fram til þessa. Drögin eru lögð fram til kynningar, en hægt verður að leggja samkomulagið fyrir fulltrúa N-Lax ehf til undirritunar um leið og gengið hefur verið frá uppgjöri vegna eldri veituskulda félagsins.
Lagt fram til kynningar.

5.Framkvæmdaáætlun OH 2021

Málsnúmer 202009099Vakta málsnúmer

Framkvæmdastjóri fer yfir stöðu verkefna og fjárfestinga OH á yfirstandandi rekstrarári.

1. Endurnýjun stofnlagna hitaveitu við Lindarhlíð í Aðaldal - Lokið.
2. Endurnýjun stofnlagna hitaveitu við Jódísarstaði í Kinn - Að hefjast.
3. Frágangur heimæða vegna félagsþjónustukjarna við Stóragarð 12 - Lokið.
4. Veitulagnir í gegnum Höfðagöng (kalt vatn og fráveita) - Í útboðsferli.
5. Viðhald þjónustumiðstöðvar OH að Höfða 13 - Ekki hafið.
6. Fjárfestingar í dælubúnaði vegna reksturs holu HU-01 svo tryggja megi rekstraröryggi sjóbaða á Húsavíkurhöfða.
(bókfært 2020 en afhent 2021) - Lokið.
7. Endurnýjun þjónustubifreiðar OH - Lokið.
8. Minnisvarði 100 ára afmælis Rafveitu Húsavíkur - Lokið.
9. Endurnýjun stofnlagnar neysluvatns í Ásgarðsvegi - Ekki hafið (verður mögulega frestað til 2022 vegna verkefnaálags).
10. Endurnýjun búnaðar í dælu húsi á Kópaskeri - Ekki hafið.
11. Endurnýjun fráveitukerfa á Raufarhöfn - 1. hluti - Ekki hafið.
12. Viðgerð á yfirþrýstri stofnlögn hitaveitu um Reykjahverfi til Húsavíkur - Lokið 2021.
13. Jarðhitaleit í landi Húsavíkur - Ekki hafið (verður líklega frestað til 2022).
Framkvæmdastjóri fer yfir stöðu verkefna OH.

6.Framúrskarandi fyrirtæki 2021

Málsnúmer 202107036Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir stjórn OH er kynning frá CreditInfo þar sem tilkynnt er að OH sé í hópi framúrskarandi fyrirtækja árið 2021.
Lagt fram til kynningar.

7.Samkeppnislýsing vegna orkustöðvar OH

Málsnúmer 201905094Vakta málsnúmer

Framkvæmdastjóri fer yfir þá stöðu sem uppi er í tengslum við viðræður við Þingorku varðandi orkunýtingu til raforkuframleiðslu í orkustöð OH á Húsavík.
Framkvæmdastjóri fór yfir málefni orkustöðvar OH á Húsavík.

8.Ósk um viðræður í tengslum við nýtingu auðlindastrauma frá orkustöð OH

Málsnúmer 202107040Vakta málsnúmer

JT Consulting hefur farið fram á viðræður við OH varðandi nýtingu á auðlindastraumum frá orkustöð OH sem þegar eru virkjaðir og aðgengilegir eru í orkustöðinni.
Stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. mun fara yfir heildarstöðu orkumála í orkustöð og taka afstöðu um framhaldið út frá niðurstöðu þeirrar skoðunar.

9.Styrkumsóknir vegna fráveituverkefna 2020-2030

Málsnúmer 202105098Vakta málsnúmer

Fyrir liggur samþykki umsóknar um styrk sem sótt hefur verið um til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna fráveituframkvæmda á árunum 2020 og 2021. Opið verður fyrir umsóknir um slíka styrki árlega til ársins 2030 og því mikilvægt að sótt verði í þennan sjóð á því tímabili vegna fyrirliggjandi fráveituverkefna OH.
Lagt fram til kynningar.

10.Athugasemdir við útboðsgögn og opnun tilboða

Málsnúmer 202107052Vakta málsnúmer

Fyrir liggja athugasemdir sem Björn Sigurðsson f.h. Hóls ehf. hefur óskað eftir að stjórn OH taki til skoðunar, en málið varðar útboðsferli vegna fyrirhugaðrar lagningu veitulagna um Höfðagöng sem ráðist verður í á haustmánuðum.
Málið er lagt fram til kynningar og mun OH svara erindinu bréfleiðis.

11.Ósk um endurskoðun aðstöðugjalds OH í Lindahlíð

Málsnúmer 202107053Vakta málsnúmer

Hagaðilar Lindahlíðar í Aðaldal hafa óskað eftir endurskoðun samkomulags sem gert var árið 1994 og varðar aðstöðugjald vegna aðstöðu sem Orkuveita Húsavíkur ohf hefur haft undir dælubúnað sem tengist rekstri hitaveitu í Aðaldal og í Kinn.
Gerð hafa verið drög að viðaukasamkomulagi sem lagt er til samþykktar fyrir stjórn OH.
Stjórn OH samþykkir gerðan viðauka við samkomulag við landeigendur Lindahlíðar frá árinu 1994 og felur framkvæmdastjóra að ganga frá undirrtun hans.

12.Beiðni um upplýsingar varðandi vatnsgjald og leiðbeiningar ráðuneytisins þar að lútandi.

Málsnúmer 202105115Vakta málsnúmer

Byggðaráð Norðurþings ákvarðar vatns- og fráveitugjöld í Norðurþingi, en þau mynda að hluta þann gjaldstofn sem innheimtur er af sveitarfélaginu í formi fasteignagjalda. Skv. bókun á fundi byggðaráðs þann 22. júlí sl. er samþykkt tillaga Hjálmars Boga Hafliðasonar um að óskað verði eftir minnisblaði frá stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. varðandi stöðu málsins.
Lagt fram til kynningar.

Þar sem þetta er síðasti fundur framkvæmdastjóra félagsins, þakkar stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. Gunnari Hrafni samstarfið á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Sigurgeir Höskuldsson
Bergur Elías Ágústsson
Guðmundur H. Halldórsson

Fundi slitið - kl. 10:30.