Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

95. fundur 15. ágúst 2012 kl. 13:00 - 13:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Helgadóttir varaformaður
  • Dóra Fjóla Guðmundsdóttir aðalmaður
  • Hilmar Dúi Björgvinsson aðalmaður
  • Hannes Höskuldsson 3. varamaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Katý Bjarnadóttir 2. varamaður
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Endurskoðun deiliskipulags miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 201105013Vakta málsnúmer

Á fundi nefndarinnar þann 11. júlí s.l. var staðhæft að engin athugasemd hefði borist við kynningu tillögu deiliskipulags miðhafnarsvæðis. Í ljós kom hinsvegar að athugasemdir bárust Norðurþingi frá Braga Sigurðssyni innan tilskilins frests með bréfi dags. 5. júlí 2012. Nefndin harmar þau mistök sem leiddu til þess að athugasemdirnar lágu ekki fyrir á síðasta fundi og biður hlutaðeigandi afsökunar á því. Athugasemdir Braga snúa bæði að tillögu að breytingu aðalskipulags á miðhafnarsvæði sem og tillögu að nýju deiliskipulagi miðhafnarsvæðis. Breyting aðalskipulagsins heyrir undir hafnarnefnd og fjallar því skipulags- og byggingarnefnd eingöngu um þær athugasemdir sem snúa að tillögu að breyttu deiliskipulagi. Bragi er í heild algerlega á móti deiliskipulagi miðhafnarsvæðis. 1. Skipulagið telur hann snúast um að hygla einum ferðaþjónustuaðlila á miðhafnarsvæðinu á kostnað annara aðila. Viðbrögð: Skipulagsnefnd hafnar því að deiliskipulagið snúist um að hygla einstökum aðila í ferðaþjónustu. Umsvif í ferðaþjónustu á Húsavík hafa aukist verulega á síðustu 15 árum. Þar er einkum um um að ræða sjávartengda ferðaþjónustu við hvalaskoðun. Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar telur eðlilegt að ætla ferðaþjónustunni aukin rýmildi á og við hafnarsvæði eins og deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir. 2. Bragi telur að markvisst sé unnið að því að koma útgerðum úr verbúðum hafnarsjóðs m.a. með háu leiguverði. Minnt er á að ríkið hafi borið 40% uppbyggingarkostnaðar hússins enda yrðu verbúðirnar leigðar út gegn vægu gjaldi. Viðbrögð: Skipulags- og byggingarnefnd hefur ekki umsýslu með úthlutun verbúða eða leiguverði, en skipulagslega má vera hvort heldur sem er útgerð eða þjónusta í verbúðarhúsinu skv. skipulagstillögunni. 3. Bragi hafnar því alfarið að stigi yfir sundið norðan við verbúð verði þar áfram. Brúin sé rúmlega einum metra of lág og hindri umferð stærri tækja (þ.m.t. slökkvibíla) að verbúðum. Nægar aðrar leiðir séu frá bakkanum niður til hafnarsvæðis. Viðbrögð: Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar telur að brúin yfir sundið sé mikilvæg samgönguleið gangandi vegfarenda milli hafnarsvæðis og Garðarsbrautar. Því gerir deiliskipulagstillagan ráð fyrir að brú megi vera áfram yfir sundið. Nefndinni hafa ekki borist athugasemdir frá eldvarnareftirliti gagnvart hæð brúarinnar fyrir umferð slökkvibíla og kannast ekki við að hæð brúarinnar sé á neinn hátt ólögleg. 4. Bragi áréttar að kvöð verði um akstur frá Gamla sláturhúsi og alla leið suður vestan við Naust, Svartabakka og verbúðir hafnarsjóðs suður til suðurgarðs. Viðbrögð: Í deiliskipulagstillögunni er skilgreind kvöð um akstursleið frá Gamla sláturhúsi (nú Hvalasafni) suður vestan við Naust, Svartabakka og verbúðir. 5. Bragi hafnar hugmyndum um að heimila byggingu upp fyrir ofan bakka á Hafnarstétt 11. Fullbyggja ætti skv. gildandi byggingarrétti og láta þar við sitja. Viðbrögð: Skipulagstillagan gerir ráð fyrir að lóðarhafi að Hafnarstétt 11 geti valið um að fullnýta núverandi byggingarrétt Hafnarstéttar 11, eða nýta hann að hluta og fá í staðinn bráðabirgðaheimild fyrir allt að 45 m² húsi ofan bakka. Eins og áður kemur fram telur meirihluti nefndarinnar gönguleið um þak Hafnarstéttar 11 og brú til hafnarstéttar mikilvæga samgönguleið. Ennfremur telur nefndin eðlilegt að heimila jafnvægi til aðstöðusköpunar tveggja samkeppnisaðila í hvalaskoðunarferðum ofan bakka. Því ákvað skipulagsnefndin að gera tillögu að breytingum byggingarréttar að Hafnarstétt 11 í skipulagstillögunni. Soffía og Katý taka undir sjónarmið Braga um að réttast væri að fullbyggja skv. núverandi byggingarrétti og heimila ekki byggingu ofan bakka innan lóðarinnar. 6. Bragi hafnar alfarið breyttum byggingarrétti að Hafnarstétt 19. Sérstaklega telur hann að byggingarréttur fram í húslínu verbúðar og bílastæði framan við byggingarreit skerði aðkomu að verbúðarhúsi og þrengi þar enn og aftur að sjómönum á hafnarsvæðinu. Viðbrögð: Skipulags- og byggingarnefnd fól skipulagsráðgjafa að gera tillögu að breyttri og aukinni nýtingu lóðarinnar að Hafnarstétt 19 með það m.a. sem útgangspunkt að nýtt/breytt mannvirki skyggði lítið sem ekkert á kirkjuna séð frá Hafnarstétt. Nefndin telur tillögu ráðgjafa góða og því er hún innfærð í deiliskipulagstillöguna. Sýnd mörk lóðar að Hafnarstétt 19 eru skv. þinglýstum lóðarleigusamningi og því ekki um að ræða þrengingu á gildandi umferðarrétti almennings í skipulagstillögunni. 7. Bragi telur að aðeins eigi að heimila rútum að stöðva tímabundið á miðhafnarsvæði til að hleypa út farþegum. Þeim verði síðan vísað á bílastæði sunnan skipulagssvæðis. Viðbrögð: Skipulagstillagan gerir ráð fyrir skammtímabílastæðum fyrir rútur við aðalgangstétt gegnt Hvalasafni og Saltvík og á ferðamannatímanum einnig gegnt Gamla Bauk. Að öðru leyti eru rútustæði á uppfyllingum í Stangarbakkafjöru sunnan skipulagssvæðisins. 8. Bragi telur ekki til bóta að gera ráð fyrir aðstöðu söluvagna á hafnarsvæðinu enda sé örtröðin næg fyrir. Skipulags- og byggingarnefnd telur ekki að litlir reitir undir torgsölu á skipulagstillögunni valdi verulegri aukningu á örtröð á hafnarsvæðinu. Skipulags- og byggingarnefnd þakkar Braga athugasemdir og ábendingar en telur þær þó ekki gefa tilefni til breytinga á deiliskipulagstillögunni. Þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum hafa áður komið fram við vinnslu skipulagstillögunnar og því búið að taka afstöðu til þeirra í kynntri tillögu. Nefndin leggur því til við framkvæmda- og hafnanefnd og bæjarráð í umboði bæjarstjórnar að deiliskipulagstillagan verði samþykkt án breytinga að undangenginni breytingu aðalskipulags sem auglýst var samtímis deiliskipulagstillögunni.

2.Skipulagsstofnun, ósk um umsögn vegna kísilmálmverksmiðju Thorsil á Bakka við Húsavík

Málsnúmer 201208010Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hefur kynnt sér beiðni Skipulagsstofnunar um umsögn um matsáætlun fyrir fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju Thorsil ehf við Bakka á Húsavík með ársframleiðslu allt að 100.000 tonn. Fyrir liggur tillaga Mannvits að matsáætlun dags. júlí 2012. Norðurþing hefur átt í viðræðum við Thorsil um úthlutun 22 ha lóðar úr iðnaðarlandi á Bakka undir starfsemina. Iðnaðarsvæðið á Bakka er skilgreint í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030 og telur nefndin fyrirhugaða starfsemi í samræmi við ákvæði aðalskipulags. Gert er ráð fyrir allt að 40 m háum mannvirkjun innan lóðarinnar. Hráefni til verksmiðju verður flutt með bílum frá höfn á Húsavík inn á iðnaðarlóðina. Framleiðslan er síðan flutt til baka í stórsekkjum og gámum til útflutnings. Geymsla hráefna yrði bæði á iðnaðarlóð og á geymslusvæði við höfnina. Helstu útblástursefni frá framleiðsluferlinu eru kísilryk og koldíoxíð auk þess sem nokkuð brennisteinsoxíð myndast vegna brennisteinsinnihalds í kelefnisgjöfum. Allur útblástur er leiddur í gegnum reykhreinsibúnað með pokasíum. Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings gerir ekki athugasemd við framlagða matsáætlun vegna fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju Thorsil ehf á iðnaðarsvæði á Bakka. Varaformanni falið að kanna möguleika á því að endurvekja verkefnið "Sjálfbært samfélag" sem hýst er hjá Þekkinganeti Þingeyinga varðandi vöktun og mælingar vegna stóriðjuframkvæmda á Bakka. Katý vék af fundi við umfjöllun þessa erindis.

3.Árni Gunnarsson f.h. Þeistareykja ehf. sækir um framkvæmdaleyfi vegna breikkunar á Þeistareykjavegi nyrðri

Málsnúmer 201207044Vakta málsnúmer

Óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna breikkunar á þeim hluta Þeistareykjavegar frá Höfuðreiðarmúla til Þeistareykja sem liggur innan Norðurþings ásamt lagningu tilheyrandi lagna í vegöxl. Endanleg breidd vegar verður um 7 m. Ennfremur er óskað eftir leyfi til efnistöku allt að 80.000 m³ úr opinni efnisnámu E36 (RHN5) sunnan Höskuldsvatns. Vegstæði og fyrirhuguð línulögn eru í samræmi við aðalskipulag Norðurþings 2010-2030. Efnistökusvæði E36 er skilgreint í aðalskipulagi Norðurþings og áætluð efnistaka vel innan þeirra marka sem aðalskipulag heimilar. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að leyfi til umbeðinna framkvæmda verði samþykkt.

4.Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir vegaframkæmdir á Reykjaheiði og tilheyrandi efnisvinnslu

Málsnúmer 201207045Vakta málsnúmer

Óskað er eftir framkvæmdaleyfi til að byggja upp, breyta á kafla og lagfæra Reykjaheiðarveg frá Húsavík að Höskuldsvatni skv. framlögðum teikningum. Ennfremur er sótt um leyfi til efnistöku úr opnum námum E33 og E34 og nýrri námu E38 skammt suður af E33 þar sem óskað er eftir leyfi til að vinna 35.000 m3 af burðarlagsefnum. Endurbætur Reykjaheiðarvegar eru í samræmi við aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 sem og efnistaka úr opnum námum E33 og E34. Nefndin leggur því til við bæjarráð að veitt verði leyfi til lagfæringar vegarins sem og tileyrandi efnistöku og verði framkvæmdin og frágangur í verklok unnin í samráði við skipulagsfulltrúa Norðurþings. Skipulags- og byggingarnefnd leggur einnig til við bæjarráð að fallist verði á töku 35.000 m3 af efni úr E38, enda verði námu lokað og hún frágengin með uppgræðslu að efnistöku lokinni í samráði við skipulagsfulltrúa.

5.Almar Eggertsson sækir um leyfi til að breyta póstum í glugga að Brúnagerði 1

Málsnúmer 201208024Vakta málsnúmer

Erindi var samþykkt af byggingarfulltrúa 15. ágúst. Lagt fram til kynningar.

6.Almar Eggertsson f.h. Rifóss hf. sækir um byggingarleyfi fyrir 5 seiðaeldisker á lóð fyrirtækisins

Málsnúmer 201208023Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir 5 staðsteyptum fiskeldiskerjum sunnan sundlaugar í landi Lóns í Kelduhverfi. Hvert ker um sig er 12 m í þvermál og um 360 m3 að rúmtaki. Meðfylgjandi umsókn eru teikningar af kerjunum og afstöðumyndir. Nefndin leggur á það áheyrslu að unnið verði deiliskipulag af svæðinu áður en til frekari uppbyggingar kemur á svæðinu. Hún mun þó samþykkja umsótta uppbyggingu, enda skili umsækjandi inn til byggingarfulltrúa afriti lóðarleigusamnings sem staðfesti lóðarréttindi sem og skriflegu samþykki eigenda Lóns fyrir framkvæmdinni.

7.Dýralæknaþjónustan ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir hesthús að Fákatröð 4 í deiliskipulögðu hesthúsahverfi í Saltvík

Málsnúmer 201207016Vakta málsnúmer

Erindi var samþykkt með fyrirvörum af byggingarfulltrúa 6. júlí s.l. enda í samræmi við samþykkt deiliskipulag á svæðinu. Lagt fram til kynningar.

8.Þorgrímur Jóel Þórðarson sækir um byggingarleyfi fyrir hesthús að Fákatröð 3 í deiliskipulögðu hesthúsahverfi í Saltvík

Málsnúmer 201207015Vakta málsnúmer

Erindi var samþykkt með fyrirvörum af byggingarfulltrúa 6. júlí s.l. enda í samræmi við samþykkt deiliskipulag á svæðinu. Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 13:00.