Áhugaverð umræða á íbúafundum um aðalskipulag
Síðari hluta febrúar voru haldnir þrír íbúafundir í Norðurþingi í tengslum við gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Á fundum á Raufarhöfn og Kópaskeri fimmtudaginn 19. febrúar sl. var farið yfir drög að skipulagi þorpanna og rætt um viðfangsefni í skipulagi og áherslur varðandi framtíðarþróun byggðar. Á fundi í Skúlagarði laugardaginn 21. febrúar var síðan rætt um skipulag og áherslur í dreifbýli austan Tjörness og samspil við verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.
Íbúafundur á Raufarhöfn
Þátttakendur á fundinum á Raufarhöfn töldu að til framtíðar væri hægt að horfa til þeirra tækifæra sem felast í staðsetningu bæjarins, náttúru og lífríki, auk þess sem áfram yrði að sjálfsögðu byggt á sjávarútvegi. Í nálægðinni við heimskautsbaug og einstakri náttúru fælust möguleikar til að skapa sterka ímynd af svæðinu og byggja upp ferðaþjónustu. Reiknað er með að heimskautagerðið verði mikið aðdráttarafl sem geti haft jákvæð áhrif á uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þá voru einnig taldir möguleikar í atvinnuþróun á grundvelli þeirra vatnsauðlinda og efnisnáma sem er að finna á Melrakkasléttu, en Álfasteinn hefur nýlega hafið starfsemi á Raufarhöfn. Þá var bent á að nægt húsnæði væri í boði fyrir atvinnustarfsemi og að í því fælust möguleikar t.d. fyrir fjarvinnslu ýmis konar.
Fundarmenn voru sammála um að á Raufarhöfn væri náið og gott samfélag og fjölskylduvænt umhverfi en vissulega vantaði fleira fólk. Til þess að gera bæinn vænlegri til búsetu var talið mikilvægt að fegra bæinn en lélegt viðhald húsa er alvarlegt vandamál. Þar er oftast um að ræða eignir sem ekki er búið í eða fólk sem ekki býr á staðnum á. Þörf var talin á að sveitarfélagið gerði kröfur um viðhald húsa og fylgdi þeim eftir. Einnig var talin þörf á betra viðhaldi bygginga og lóða sveitarfélagsins. Þá var bent á að auka þyrfti gróður en þó þannig að eitt helsta landslagseinkennið, grjótið, nyti sín áfram. Slíkar úrbætur myndu ekki einungis gera bæinn betri fyrir íbúana heldur einnig hvetja gesti til að hafa þar viðdvöl. Þá var minnt á að huga þyrfti vel að því að skemma ekki þær fáu minjar sem eftir eru um síldarárin.
Almenn ánægja var með tillögu um þéttingu íbúðarbyggðar á milli Kottjarnar og Hafnarbrautar. Lagt var til að gera ráð fyrri sparkvelli við grunnskólann, stækka e.t.v. hesthúsasvæðið til norðurs og fegra umhverfi kirkjunnar.
Íbúafundur á Kópaskeri
Líkt og á Raufarhöfn töldu íbúar á Kópaskeri framtíðarmöguleika fyrir viðhald og vöxt byggðarinnar m.a. felast í eflingu þjónustu við ferðamenn, samhliða áframhaldandi starfsemi í tengslum við landbúnað og útgerð. Hugmynd um ylströnd í Grímshöfn fékk góðar undirtektir og bent var á að í grenndinni mætti jafnvel koma fyrir tjaldsvæði, smáhýsum til gistingar eða jafnvel hóteli. Einnig var lagt til að bekkjum og borðum ásamt sjónauka yrði komið fyrir við höfnina þar sem gott útsýni væri og hægt að fylgjast með selum og fuglum. Ekki var tekið undir tillögu um byggingu íbúðarhúss að Útskálum heldur talið mikilvægt að varðveita svæðið eins og það er og skerða ekki útsýni frá húsi eldri borgara.
Skiptar skoðanir voru um tillögu um golfvöll umhverfis Klifatjörn. Ýmsir töldu það jákvætt fyrir íbúa og ferðamenn en aðrir töldu svæðið geta nýst vel fyrir tómstundabúskap en hluti svæðisins er í dag nýttur af hestamönnum. Fram kom að nauðsynlegt væri að snyrta til og bæta umgengni á atvinnusvæðinu á Röndinni og að jafnvel væri ástæða til að finna annað svæði fyrir starfsemi sem þarf útisvæði fyrir ýmsarvélar og búnað. Mögulegt atvinnusvæði sunnan Randarinnar var ekki talið ákjósanlegt fyrir slíka starfsemi þar sem það væri mjög sýnilegt frá þjóðveginum. Þar þyrfti því að setja skýra skilmála um ásýnd og umgengni. Bent var á að skoða þyrfti hvort gera ætti ráð fyrir nýjum hafnargarði í aðalskipulaginu en í eldar aðalskipulagi var gert ráð fyrir garði sem lægi í austur-vestur frá Röndinni.
Íbúafundur í Skúlagarði
Í Skúlagarði kynntu ráðgjafar frá Alta vinnu við aðalskipulagið og greiningu á landi sveitarfélagsins Ráðgjafi frá Náttúrustofu Norðausturlands kynnti vinnu við verndaráætlun um norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og samspil hennar við aðalskipulagsgerðina. Síðan fóru fram umræður um hina ýmsu landnotkun sem er eða gera ætti ráð fyrir, í dreifbýlinu og samspil þeirrar landnotkunar við náttúru, landslag og minjar.
Fundarmenn voru sammála um að svæðið hefði mikla sérstöðu og að tækifæri í byggðaþróun fælust bæði í nýtingu og verndun. Nýting auðlinda eins og jarðhita og vatns gæti skotið sterkari stoðum undir byggðina en það sama ætti við um verndun náttúru, landslags og minja sem styddi við svæðið til búsetu og til ferðalaga.
Frístundabyggð
Rætt var um ákjósanleg eða líkleg svæði fyrir frístundahúsabyggð og töldu menn að austan Jökulsár mætti helst gera ráð fyrri fjölgun bústaða í grennd við núverandi sumarbústaðasvæði í Öxarfirði. Þar þyrfti þó að gæta að verndun birkiskógarins og beina bústöðum í jaðar hans en ekki lengst inn í skóginn. Ólíklegt var talið að sóst yrði eftir að reisa bústaði á söndunum og sumarbústaðir í Forvöðum voru ekki taldir koma til greina. Stakir bústaðir voru taldir geta fallið að landslagi Sléttunnar en sumarbústaðasvæði voru ekki tiltekin þar. Fram kom að vatnsleysi getur háð uppbyggingu frístundahúsa í Kelduhverfi og að svo stöddu sé ekki líklegt að þar verði umfangsmikil sumarhúsabyggð. Ef frístundabyggð af einhverju tagi rís í heiðum Kelduhverfis er mikilvægt að skipulag hennar sé vandað til að það falli sem best að öldóttu landslagi heiðanna og taki tillit til mikils fjölda fornminja á heiðunum, sem eru skammt ofan núverandi byggðar og eru einstakar á landsvísu. Þá var bent á að á Raufarhöfn er talsvert af húsum sem nýta má sem sumarhús.
Þjónustukjarnar
Skiptar skoðanir voru um uppbyggingu veitingaþjónustu við Dettifoss. Sumir töldu lítið kaffihús koma til greina þar en aðrir bentu á að erfitt gæti orðið að halda starfseminni umfangslítilli þar sem ásókn í svæðið væri þegar mikil og ætti eftir að aukast. Uppbygging á þessu svæði væri mjög vandmeðfarin þar sem Dettifoss væri sá staður sem hefði mesta aðdráttaraflið og að ímynd og upplifun af svæðinu í dag byggðist á ósnertri náttúru fjarri mannvirkjum. Einnig gæti rekstrargrundvöllur fyrir starfsemi þar reynst erfiður vegna fjarlægðar frá byggð og annmarka vegna vatnsöflunar, rafmagns og fleiri þátta. Talið var mikilvægt að ef til uppbyggingar einhverskonar veitingaþjónustu kæmi yrðu gerðar strangar kröfur um umfang, útlit og frágang mannvirkja. Bent var á að hugmyndir um uppbyggingu við Dettifoss þyrfti að skoða í samhengi við þá þjónustu sem er til staðar og mögulega uppbyggingu á Grímsstaðatorfunni en þar ætti veitingaþjónusta e.t.v. betur heima. Í þessu samhengi þarf að horfa til Dettifossvegar vestan ár en með tilkomu hans er líklegt að umferðarþunginn muni færast vestur fyrir á.
Ásbyrgi er og verður aðalþjónustusvæði þjóðgarðsins en þar þarf að leggja línur varðandi umfang og eðli starfseminnar og einkenni mannvirkja. Talið var eftirsóknarvert að á þjónustusvæðinu í Ásbyrgi væri hugguleg veitingaþjónusta en þangað væri góður sunnudagsbíltúr fyrir íbúa bæði í vestur- og austurhluta Norðurþings.
Tvær megin hugmyndir komu fram um staðsetningu mögulegs hótels á svæðinu. Annarsvegar var talið að Lundar- eða Akurselssvæðið væri ákjósanlegt m.a. þar sem það myndi dreifa ferðalöngum meira um héraðið og beina mönnum norður á Melrakkasléttu. Hinsvegar var Sandurinn fyrir norðan Ásbyrgi talinn eftirsóknarverður staður vegna nálægðar við aðra þjónustu, gönguleiðir og gestastofu þjóðgarðsins. Mikilvægt var talið að geta boðið upp á fjölbreytta gistingu s.s. hótel, svefnpokapláss, heimagistingu og tjaldsvæði á svæðinu öllu. Heilsárshótel myndi draga ferðamenn enn frekar að.
Bent var á að búast mætti við aukningu í tjaldferðalögum innanlands og mikilvægt væri að hafa áhugaverð tjaldsvæði með góða þjónustu. Leggja ætti áherslu á tjaldsvæðin við Lund og á Kópaskeri og Raufarhöfn en því til viðbótar gætu verið minni einkarekin tjaldsvæði. Fram kom að þegar mikið er af ferðafólki á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi myndu sumir vilja fara úr fjöldanum og komast á minni tjaldsvæði sem hefðu samt einnig góða þjónustu. Bygging gönguskála á Melrakkasléttu var ekki talin nauðsynleg, heldur mætti nýta núverandi gangnamannaskála.
Almennt voru menn á því að styrkja þá þjónustukjarna sem væru nú þegar á svæðinu og var einkum horft til þess að beina ferðamönnum lengra norður á Melrakkasléttu til að styrkja Lund, Kópasker og Raufarhöfn enn frekar sem þjónustustaði.
Ferðamannastaðir og samgöngur
Rætt var um að leitast þyrfti við að dreifa ferðamönnum sem mest um sveitarfélagið og að þjóðgarðurinn væri þar mikilvægur upplýsingafulltrúi. Minnt var á að ýmis önnur merkileg náttúrufyrirbæri eru á svæðinu en Ásbyrgi, s.s. gliðnun jarðskorpunnar, landris, Skjálftavatn og stærsta móasvæði á Íslandi, sem gera mætti hærra undir höfði og bæta aðgengi að þeim. T.d. mætti merkja og gera góða gönguleið að Skjálftavatni. Merkja þyrfti fleiri gönguleiðir, upphafsstaði gönguleiða og gera góð göngukort. Mikil vinna var talin vera eftir í að merkja og búa til kort fyrir göngu- og reiðleiðir en þar liggja mörg tækifæri.
Fram kom hugmynd um að gera minningarstað um Alfred Wegener höfund landrekskenningarinnar, í námunda við Hól en gliðnun er eitt helsta einkenni lands vestan Jökulsár og í sveitarfélaginu er nyrsti sýnilegi hluti Atlantshafshryggsins. Þá var talið mikilvægt að efla jarðskjálftasetrið á Kópaskeri og styðja við heimskautagerðið á Raufarhöfn.
Nefnt var að byggja mætti upp afþreyingu á jaðri þjóðgarðsins, t.d. golfvöll.
Bent var á að vegurinn um Melrakkasléttu verður mikilvæg ferðaleið með tilkomu Hólaheiðarvegar og þar með möguleika á að hringleið um Sléttuna. Fram komu áhyggjur fundarmanna að því að aðeins yrði lokið við gerð Dettifossvegar milli Hringvegar og Dettifoss en ekki áfram norður í Kelduhverfi. Það eitt og sér gæti verið ógn við ferðaþjónustu á svæðinu. Rætt var um að stýra þurfi þungaflutningum um nýjan Dettifossveg til að trufla sem minnst almenna umferð og umferð ferðamanna og í því sambandi var nefnt á að banna þungaflutninga á daginn. Einnig var minnst á að umferð um heiðar Kelduhverfis getur truflað landbúnað og ekki er æskilegt að auglýsa þær sem ferðamannaleiðir. Ástæða gæti verið til að skilgreina eina eða tvær leiðir sem ferðamannaleiðir og merkja þær og halda þeim við sem slíkum.
Önnur landnotkun
Ýmis skógræktarverkefni eru í gangi í sveitarfélaginu en vegna mikilvægis sauðfjárræktar á svæðinu töldu fundarmenn ólíklegt að hún yrði mikil. Tryggja þyrfti land fyrir sauðfjárræktina. Það sjónarmið koma fram að landslagseinkenni Sléttunnar fengju að halda sér og skógrækt verði hvorki þar né niður á söndunum þó svo þar þurfi að hefta fok. Mikilvægt sé að halda landgræðslu áfram á söndunum og heiðunum. Nú eru nokkur skógræktarsvæði í Kelduhverfi og er mikilvægt að þau sem og önnur svæði sem verða nýtt undir skógrækt í framtíðinni falli vel að landslagi heiðanna.
Áhugi virtist vera fyrir nýtingu jarðhita, t.d. til ylræktar, en skiptar skoðanir voru um hverskonar nýting væri æskileg. Sumir töldu að nýta ætti hitann í smáum stíl til að efla ferðaþjónustu eða landbúnað en aðrir töldu hvaða nýtingu sem er koma til greina svo fremi ef hún styrkti byggð á svæðinu. Sóknarfæri voru talin í landbúnaði m.a. með því lífrænni sauðfjárrækt og grænmetisræktun.
Þau sjónarmið sem komu fram á íbúafundunum verða til skoðunar við áframhaldandi vinnslu aðalskipulags Norðurþings. Upplýsingar um framgang vinnunnar verða birtar á vef Norðurþings. Sjónarmiðin verða einnig tekin til skoðunar vegna vinnu við verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.