Fara í efni

Gagnlegar umræður um skipulag Húsavíkur og Reykjahverfis á íbúafundi um aðalskipulag

Drög að aðalskipulagi fyrir Húsavík  voru kynnt á opnum fundi í Borgarhólsskóla 11. júní sl. Vinna við aðalskipulag Norðurþings í heild sinni var einnig kynnt og dregnar fram áherslur sem varða Reykjahverfið, en í febrúar sl. var fundur í Skúlagarði þar sem fjallað var um aðra hluta dreifbýlisins.  

Drög að aðalskipulagi fyrir Húsavík  voru kynnt á opnum fundi í Borgarhólsskóla 11. júní sl.

Vinna við aðalskipulag Norðurþings í heild sinni var einnig kynnt og dregnar fram áherslur sem varða Reykjahverfið, en í febrúar sl. var fundur í Skúlagarði þar sem fjallað var um aðra hluta dreifbýlisins.

 

Drög að skipulagi fyrir dreifbýlið verða birt á vef Norðurþings á næstu vikum. Á fundinum var einnig kynnt tillaga að breytingu á gildandi aðalskipulagi Húsavíkur að því er tekur til skipulags iðnaðarlóðar að Bakka, háspennulína, efnistökusvæða og legu virkjanavegar að Þeistareykjum.

Að aflokinni kynningu skipulagsráðgjafa á tillögudrögum fóru fram umræður í fjórum hópum þar sem rætt  var um skipulag Húsavíkur m.t.t. íbúðar- og atvinnusvæða, umferðarmála, útivistar og tómstunda, sögu og landslags. Einn hópur fjallaði um skipulag í Reykjahverfi. Helstu sjónarmið sem komu fram á fundinum voru eftirfarandi (óháð því hvort fundarmenn voru sammála um þau eða ekki):

- Talið var að svæði á Húsavíkurhöfða, vestan Höfðavegar (merkt A1 á tillöguuppdrætti) ætti að nýta sem athafnasvæði ef álver verður reist að Bakka en annars ætti að nýta það sem íbúðarsvæði. Bent var á að svæðið vestan Höfðavegar (merkt A2 á tillöguppdrætti), sem nú er nýtt sem athafnasvæði, væri ákjósanlegt íbúðarsvæði.

- Bent var á að koma mætti fyrir litlum garði á Bessastaðalóðinni auk 2-3 hæða húss auk akstursleiðar upp í Höfðaveg.

- Óæskilegt var talið að fylla upp í Suðurfjöruna, þar sem hún er mikilvægt útivistarsvæði og skiptir máli fyrir ásýnd frá Bakkanum. Láta ætti nægja að stækka Suðurhöfnina lítillega til suðurs fyrir hafnsækna starfsemi.

 -Talið var að á Reitnum mætti byggja allt að 5 hæða hús en einnig kom fram sjónarmið um að hús af þeirri hæð verði einungis í útjaðri byggðar á Reitnum og ekki annarsstaðar í bænum.

 -Lýst var áhyggjum af að í Skógargerðismel kunni að verða opið malarnám í mörg ár eða áratugi, áður en byggt verði á melnum eða gengið frá honum. Skoða þyrfti því vel hvort nýtanlegt efni væri það mikið að ástæða væri til efnistöku úr melnum. Einnig komu fram sjónarmið um að byggja beint á melinn og varðveita þannig landslag bæjarlandsins.

 -Mikilvægt var talið að varðveita svæðið í kringum Búðará allt upp að Botnsvatni og að stækka skrúðgarðinn upp með Skógargerðislæk. Tryggja þyrfti gott aðgengi að Botnsvatni árið um kring.

 -Bent var á nauðsyn þess að vinna skógræktarskipulag fyrir bæinn og nágrenni hans. Áhyggjum af breytingum á landslagi og gróðurfari umhverfis bæinn var lýst, þ.m.t. tap á berjalandi. Einnig var bent á mikilvægi þess að í skógræktarskipulagi sé tekið mið af brunahættu og aðgengi slökkvibíla.

 -Rætt var um reiðleiðir um bæjarlandið en samkvæmt tillögudrögum gæti þurft að breyta reiðleið í gegnum golfvöll og ofan bæjar. Fulltrúar hestamanna munu skila inn tillögum sínum um legu reiðleiða um bæjarlandið og verða tillögurnar unnar áfram í framhaldi af því. Fulltrúi Golfklúbbs Húsavíkur lýsti yfir vilja til samvinnu um legu reiðleiðar í gegnum golfvöllinn.

 -Einnig var rætt um nauðsyn þess að tryggja beitarlönd fyrir hestamenn, en með uppbyggingu álvers að Bakka þarf að finna ný svæði. Þá mun golfvöllur fara inn á núverandi beitarlönd ef hann verður stækkaður samkvæmt tillögudrögum.

 -Fram koma óánægja með fyrirhugaða legu nýrra raflína frá Þeistareykjum þar sem þær voru taldar liggja of nærri byggði í Reykjahverfi.

 -Bent var á að athuga þyrfti hvort ástæða væri til að breyta afmörkun skíðasvæðis við Höskuldsvatn þannig að það nái ekki niður fyrir vatnið.

Þau sjónarmið sem komu fram á íbúafundinum verða til skoðunar við áframhaldandi vinnslu aðalskipulags Norðurþings. Upplýsingar um framgang vinnunnar verða birtar á vef Norðurþings.