Tillaga að breytingum deiliskipulags Dettifossvegar ásamt umhverfisskýrslu
Breytingar deiliskipulagsins er tvíhliða. Annarsvegar eru skilgreind tvö svæði undir tímabundnar vinnubúðir vegna framkvæmdanna. Nyrðra svæðið er 1 ha að flatarmáli, norðan Norðausturvegar (nr. 85) og austan við efnistökusvæði sem nýtt verður við framkvæmdina. Hitt svæðið er 0,5 ha að flatarmáli vestan nýs vegar um 400 m norðan núverandi enda slitlagðs Dettifossvegar. Hinsvegar er skipulagssvæðið útvíkkað lítillega til suðurs að meintum sveitarfélagsmörkum Norðurþings við Skútustaðahrepp. Þar er skilgreindur reitur fyrir vatnsveitu (vatnsgeymir og borhola) og raforkuframleiðslu (vindmylla og sólarsellur) skammt norður af bílastæðum sem eru talin innan Skútustaðahrepps. Skilgreindar eru lagnaleiðir milli veitumannvirkja og bílastæða.
Breytingartillögurnar eru settar fram á tveimur blöðum í blaðstærð A1 sem innfela uppdrætti og greinargerðir.
Breytingartillögurnar verða til sýnis á bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík frá 23. desember 2013 til 5. febrúar 2014. Ennfremur verður hægt að skoða breytingartillögurnar á heimasíðu Norðurþings (nordurthing.is). Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til og með miðvikudeginum 5. febrúar 2014. Skila skal skriflegum athugasemdum til bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna teljast henni samþykkir.
Breytingarnar verða sérstaklega kynntar á opnu húsi í fundarsal bæjarskrifstofu Norðurþings föstudaginn 20. desember milli kl. 10 og 12 skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga.
Húsavík 17. desember 2013
Gaukur Hjartarson
Skipulags- og byggingarfulltrúi