Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

255. fundur 28. júní 2018 kl. 08:15 - 10:15 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Óli Halldórsson formaður
  • Kristján Þór Magnússon
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Silja Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Guðbjartur Ellert Jónsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Fundarboð - Hluthafafundur Orkuveitu Húsavíkur

Málsnúmer 201806115Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundarboð á hluthafafund Orkuveitu Húsavíkur ohf. sem haldinn verður fimmtudaginn 28. júní n.k.
Byggðarráð samþykkir að fela Drífu Valdimarsdóttur að fara með umboð Norðurþings á fundinum.

2.Skipulags- og framkvæmdaráð - 1

Málsnúmer 1806004FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 1. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs frá 26. júní.
Lagt fram til kynningar.
Staðfestingu á lið 19 er frestað til næsta fundar byggðarráðs.

3.Fjölskylduráð - 1

Málsnúmer 1806003FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 1. fundar fjölskylduráðs frá 25. júní.
Lagt fram til kynningar.

4.Hverfisráð Öxarfjarðar 2017-2018

Málsnúmer 201709132Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur 4. fundargerð hverfisráðs Öxarfjarðar
Byggðarráð afgreiðir fundargerð Hverfisráðs Öxarfjarðar með eftirfarandi hætti:

1. Þjóðgarður á Melrakkasléttu
Vísað til skipulags- og framkvæmdaráðs að fjalla um möguleika á breyttri landnýtingu á Melrakkasléttu, þ.m.t. að mynda fólkvang, þjóðgarð eða aðrar tegundir landnýtingar á svæðinu.
2. Umgengni á Kópaskeri
Byggðarráð þakkar ábendingar hverfisráðs um þörf á úrbótum í umhverfi fasteigna sveitarfélagsins og beinir því til skipulags- og framkvæmdaráðs að koma á úrbótum.
3. Sjúkrabíll á Raufarhöfn
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fara þess á leit við Heilbrigðisstofnun Norðurlands að fyrirkomulag sjúkraflutninga á svæðinu verði kynnt á opnum íbúafundi.
4. Sundlaugarsjóður
Í bókun hverfisráðs er óskað eftir afstöðu Norðurþings til Sundlaugar á Kópaskeri. Byggðarráð vísar erindinu til skipulags- og framkvæmdaráðs og fjölskylduráðs til umfjöllunar.
5. Málefni leikskóla
Málið er þegar til umfjöllunar í fjölskyldunefnd.

5.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um tímabundið tækifærisleyfi vegna dansleiks í Bústólpahöllinni

Málsnúmer 201806130Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um tímabundið tækifærisleyfi vegna dansleiks í Bústólpahöllinni frá kl. 23:00 föstudaginn 27. júlí til kl. 03:00 laugardaginn 28. júlí.
Byggðarráð veitir erindinu jákvæða umsögn að því tilskyldu að aðrir sem um málið fjalla geri slíkt hið sama.

6.Hluthafafundur í Greiðri leið ehf. Fundarboð

Málsnúmer 201806117Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur boð á hluthafafund Greiðrar leiðar ehf. sem haldinn verður mánudaginn 2. júlí n.k.
Byggðarráð tilnefnir Kristján Þór Magnússon sem fulltrúa Norðurþings á hluthafafundinn.

7.Aðalfundur Fjallalambs hf. 2018

Málsnúmer 201806132Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur boð á aðalfund Fjallalambs hf. sem haldinn verður laugardaginn 7. júlí n.k.
Byggðarráð tilnefnir Berg Elías Ágústsson sem fulltrúa Norðurþings og Silju Jóhannesdóttur til vara.

8.Aðalfundur Menningarmiðstöðvar Þingeyinga 2018 og ársreikningur 2017

Málsnúmer 201806077Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja ársreikningur MMÞ og boð á aðalfund sem haldinn verður þann 28. júní n.k.
Lagt fram til kynningar.

9.Aðalfundur AÞ hf. og MMÞ, fundur fulltrúaráðs HNÞ og AÞ ses.

Málsnúmer 201806073Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja fundarboð á aðalfund AÞ hf., fyrsta fund nýs fulltrúaráðs HNÞ bs., fyrsta fund fulltrúaráðs AÞ ses. og aðalfund MMÞ.
Lagt fram til kynningar.

10.Aðalfundarboð og ársskýrsla - Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. 2018

Málsnúmer 201806076Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur ársreikningur Atvinnuþróunarfélags Þingeyginga ásamt fundarboði á aðalfund sem haldinn verður þann 28. júní n.k. Einnig fylgja samþykktir félagsins og tillaga stjórnar um formbreytingu félagsins, ásamt drögum að samþykktum nýrrar sjálfseignarstofnunar.
Byggðarráð tilnefnir Kristján Þór Magnússon sem fulltrúa Norðurþings á aðalfundinn.

11.Ársreikningur og ársskýrsla Náttúrustofu Norðausturlands 2017

Málsnúmer 201806069Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur ársskýrsla og ársreikningur Náttúrustofu Norðausturlands ásamt skýrslu um fuglavöktun í Þingeyjarsýslum árið 2017.
Lagt fram til kynningar.

12.Aðalfundur Landkerfis bókasafna hf. 2018

Málsnúmer 201805223Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja skýrsla stjórnar Landskerfis bókasafna hf. og fundargerða aðalfundar frá 30. maí 2018.
Lagt fram til kynningar.

13.Málefnasamningur um meirihlutasamstarf í sveitarstjórn 2018-2022

Málsnúmer 201806096Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum liggur undirritaður málefnasamningur meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings 2018-2022. Samningurinn er lagður fram í sveitarstjórn sem stefnumótunplagg meirihlutans fyrir kjörtímabilið.
Samningurinn er samþykktur með atkvæðum Óla Halldórssonar og Helenu Eydísar Ingólfsdóttur.

Fulltrúi framsóknarflokksins tekur ekki afstöðu gagnvart málefnasamningnum og innihalds hans í heild sinni.

14.Breyting á Aðalskipulagi Norðurþings vegna efnistökusvæða

Málsnúmer 201806114Vakta málsnúmer

Á 1. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð í umboði sveitarstjórnar að skipulagslýsingin verði kynnt samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.
Byggðarráð samþykkir erindið.

15.Beiðni um styrk vegna Landsþings Kvenfélagasambands Íslands.

Málsnúmer 201806008Vakta málsnúmer

Landsþing Kvenfélagasambands Íslands, KÍ, verður haldið á Húsavík dagana 12.-14. október 2018. Gera má ráð fyrir að þingið sæki um 100-120 konur hvaðanæva að af landinu.

Kvenfélagasamband Íslands óskar eftir að Norðurþing kosti móttöku á landsþingi sambandsins sem verður haldið á Húsavík.
Byggðarráð samþykkir að kosta móttöku á landsþinginu.

16.Veiðileyfi göngusilungs í sjó fyrir landi Húsavíkur 2018

Málsnúmer 201805252Vakta málsnúmer

Í inngangi að málinu sem lá fyrir skipulags- og framkvæmdaráð kom fram að eftir útgáfu silungsveiðileyfa fyrir landi Húsavíkur vorið 2017, barst erindi frá veiðifélögum Laxár, Reykjadalsár og Mýrarkvíslar um beiðni um afturköllun útgefinna veiðileyfa. Í kjölfarið skapaðist umræða um umrædd veiðileyfi og hvort sveitarfélagið ætti yfir höfuð að standa í útgáfu þeirra.

Árlega hafa verið gefin út 10 leyfi til silungsveiði í net fyrir landi Húsavíkur, en fjöldi útgefinna leyfa byggir á fjölda lögbýla í landi Húsavíkur fyir árið 1957 skv. lögum nr. 61 frá 14. júní 2006 um lax- og silungsveiði.
Verð pr. leyfi árið 2017 var kr 20.000, en um helmingur þeirrar upphæðar fékkst endurgreiddur við skil á veiðiskýrslu í lok tímabils.

Skipulags- og framkvæmdaráð ákvað að gefin verði út 10 leyfi til veiða á göngusilungi í sjó fyrir landi Húsavíkur.

Gjald vegna veiðileyfis verði kr. 30.000 og við skil á veiðiskýrslu í lok tímabils fást kr 20.000 endurgreiddar. Ákvörðuninni er vísað til staðfestingar í sveitarstjórn.

Byggðarráð staðfestir afgreiðsluna.
Óli Halldórsson óskar bókað í kjölfar fyrirliggjandi ákvörðunar framkvæmda- og skipulagsráðs að hann telji að endurskoða þurfi netaveiðiheimildir nærri ósum Laxár fyrir árið 2019.

17.Styrkumsókn vegna menningardaga á Raufarhöfn 2018

Málsnúmer 201806075Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur beiðni um styrk að fjárhæð 150.000 krónur vegna Menningardaga á Raufarhöfn sem haldnir verða vikuna 29. september til 6. október n.k.
Byggðarráð samþykkir að veita styrk að upphæð 150.000 kr. til verkefnisins.

18.Nýr kjarasamningur við Félag grunnskólakennara

Málsnúmer 201803062Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja kynningarglærur frá kynningarfundum Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna nýs kjarasamnings Félags grunnskólakennara.
Lagt fram til kynningar.

19.Gjaldskrá tjaldsvæðis á Húsavík 2018

Málsnúmer 201806106Vakta málsnúmer

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þann 26. júní var bókað; Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til að verðskrá verði uppfærð í takti við hækkun gistináttagjalds og virðisaukaskattinn af því.
Byggðarráð samþykkir framlagða gjaldskrá með þeirri breytingu að aldursviðmið gjaldtöku verði við 18 ára aldur.

20.Jafnlaunakönnun fyrir Norðurþing

Málsnúmer 201703088Vakta málsnúmer

Norðurþing óskaði eftir því við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri í lok árs 2017 að framkvæma Jafnlaunakönnun hjá sveitarfélaginu til að greina stöðu mála er varðar mögulegan kynbundinn launamun hjá starfsmönnum Norðurþings. Niðurstöður könnunarinnar liggja nú fyrir. Könnunin er birt á heimasíðu Norðurþings.
Fyrir liggur niðurstaða jafnlaunakönnuar sem unnin var af RHA fyrir Norðurþing. Greiningin sýnir að ekki sé um kynbundinn launamun á dagvinnulaunum að ræða hjá sveitarfélaginu þegar búið er að taka tillit til starfs, ábyrgðar, aldurs, starfsaldurs og vaktavinnu. Að því leyti sé ekki um kynbundinn launamun að ræða hjá Norðurþingi. Hins vegar kemur fram í greiningunni að þegar ekki er búið að leiðrétta m.t.t. ofangreindra þátta (starf, ábyrgð, aldur, starfsaldur, vaktavinna) eru tekjur karla töluvert hærri. Einnig reynist marktækur kyndbundinn munur á heildarlaunum og talsverður munur á álags- og yfirvinnugreiðslum eftir kyni.
Sveitarstjóra er falið að vinna úr niðurstöðunum og leggja fram tillögur til úrbóta þar sem skýrslan gefur tilefni til slíks, fyrir upphaf fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2019.





21.Kosningar til sveitarstjórna 2018

Málsnúmer 201802061Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar skýrsla yfirkjörstjórnar.

Með vísan til 95. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, sendir yfirkjörstjórn Norðurþings hér samantekt um störf sín og úrslit sveitarstjórnarkosninganna árið 2018 í Norðurþingi.

Sveitarstjórnarkosningarnar fóru fram 26. maí 2018 og bárust fimm framboð til sveitarstjórnar Norðurþings. Kjörstjórn tók við framboðslistum og meðmælendum laugardaginn 5. maí. Farið var yfir listana og meðmælendur og leiðrétt það sem þurfti að leiðrétta.
Niðurstaða kosninganna var skv. eftirfarandi:

B - listi Framsóknar og félagshyggjufólks 418 atkvæði (3 fulltr.)
D - listi Sjálfstæðisflokks 477 atkvæði (3 fulltr.)
E - listi Listi Samfélagsins 223 atkvæði (1 fulltr.)
S - listi Samfylkingar og annars félagshyggjufólks 228 atkvæði (1 fulltr.)
V - listi Vinstri græn og óháð í Norðurþingi 238 atkvæði (1 fulltr.)
Auð 52 atkvæði
Ógild 14 atkvæði
Samtals greiddu 1.650 atkvæði, á kjörskrá voru 2.115, kjörsókn varð því 78%.
Lagt fram til kynningar.

22.Kosning fulltrúa á landsþing Samband íslenskra sveitarfélaga 2018-2022

Málsnúmer 201806030Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 4. júní 2018, þar sem fram kemur að samkvæmt 5. gr. samþykkta Sambands íslenskra sveitarfélaga kjósa sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna fulltrúa á landsþing Sambandsins að afloknum almennum sveitarstjórnarkosningum og gildir sú kosning fyrir kjörtímabil sveitarstjórnar.

Á fyrsta fundi sveitarstjórnar Norðurþings að afloknum kosningum voru 3 fulltrúar kosnir (og 3 til vara) í samræmi við íbúafjöldareglu. Kjörgengir eru nýkjörnir aðalmenn í sveitarstjórn og varamenn þeirra jafnmargir að tölu.

Áríðandi er að kjörbréf með nöfnum aðalfulltrúa og varafulltrúa ásamt upplýsingum um stöðuheiti innan sveitarstjórnar og netföngum verði sent skrifstofu Sambandsins sem fyrst að kosningu lokinni, í síðasta lagi 1. ágúst 2018.

Á fundi nýrrar sveitarstjórnar þann 19. júní s.l. voru eftirfarandi aðalmenn og varamenn kosnir á Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. Norðurþings:

Aðalmenn:
Helena Eydís Ingólfsdóttir
Silja Jóhannesdóttir
Hjálmar Bogi Hafliðason

Varamenn:
Örlygur Hnefill Örlygsson
Óli Halldórsson
Guðbjartur Ellert Jónsson
Á fundi nýrrar sveitarstjórnar þann 19. júní s.l. voru eftirfarandi aðalmenn og varamenn kosnir á Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. Norðurþings:
Aðalmenn: Helena Eydís Ingólfsdóttir, Silja Jóhannesdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason
Varamenn: Örlygur Hnefill Örlygsson, Óli Halldórsson, Guðbjartur Ellert Jónsson

23.Skyldur sveitarstjórna samkvæmt jafnréttislögum.

Málsnúmer 201806005Vakta málsnúmer

Með bréfi frá 29. maí sl. vill Jafnréttisstofa minna sveitarstjórnir á ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem lúta að skyldum sveitarfélaga. Eftirfarandi ákvæði eiga sérstaklega við sveitarfélögin: 12. gr. laganna kveður á um að skipa skuli jafnréttisnefndir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags. Skulu nefndirnar m.a. hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára sem leggja skal fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar. 15. gr. laganna kveður á um að þess skuli gætt við skipan í nefndir, ráð og stjórnir að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Að auki bera sveitarfélögin skyldur skv. lögunum sem atvinnurekendur og veitendur þjónustu.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út upplýsingaritið Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál og er þar að finna hagnýtar upplýsingar um hlutverk sveitarfélaga
http://www.samband.is/media/jafnrettismal/Jafnretti2.pdf

Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008
http://www.althingi.is/lagas/nuna/2008010.html

Jafnréttisstofa bendir á að velkomið sé að leita til stofnunarinnar um leiðbeiningar og aðstoð. Hægt er að hafa samband í síma 460 6200 eða senda fyrirspurnir með tölvupósti í netfangið jafnretti@jafnretti.is

Athygli sveitarstjórna er vakin á því að haldnir eru samráðsfundir sveitarfélaga um jafnréttismál hvert haust. Næsti fundur verður í Mosfellsbæ 20. september.
Guðbjartur Ellert Jónsson vék af fundi kl. 8:50.

Sveitarstjórnarfulltrúar og framboð sem mynda sveitarstjórn í Norðurþingi 2018-2022 sammælast um að leggja mikla áherslu á að fylgja ákvæðum laga sem lúta að jafnrétti, þ.m.t. með skipan í nefndir og ráð sem og eftirfylgni jafnréttisáætlunar.
Byggðarráð vísar erindinu til frekari umræðu í sveitarstjórn að loknu sumarleyfi.

24.Ráðning sveitarstjóra

Málsnúmer 201806104Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til afgreiðslu ráðningarsamningur sveitarstjóra.
Kristján Þór Magnússon vék af fundi undir þessum lið.

Byggðarráð samþykkir samninginn samhljóða.

Fundi slitið - kl. 10:15.