Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings
Dagskrá
1.Breyting á aðalskipulagi Norðurþings vegna iðnaðarlóðar á Bakka
Málsnúmer 201303042Vakta málsnúmer
Kynnt var svarbréf Skipulagsstofnunar vegna tillögu að breytingu aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 vegna breyttrar legu raflína og spennivirkis við Bakka. Stofnunin telur að skipulagsbreytingin falli undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 þar sem hún markar stefnu um tilkynningarskildar framkvæmdir skv. lögum nr. 106/2000. Skipulagstillögun þurfi því að kynna á grundvelli 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga og kynna samhliða umhverfisskýrslu skv. 3. mgr. 7. gr. laga um umhverfismat áætlana. Skipulagsráðgjafa er falið að vinna tillögu að skipulagslýsingu fyrir aðallskipulagsbreytinguna til umfjöllunar á næsta fundi nefndarinnar.
2.Deiliskipulag iðnaðarlóðar á Bakka
Málsnúmer 201209005Vakta málsnúmer
Lokið er kynningu tillögu að 1. áfanga deiliskipulags iðnaðarsvæðis á Bakka. Athugasemdir og umsagnir bárust frá fjórum aðilum. 1. Umhverfisstofnun, bréf dags. 15. maí 2013: Umhverfisstofnun telur tillöguna ítarlega og að þar sé fjallað um alla þætti sem málið skipta. Stofnunin gerir því ekki athugasemdir við skipulagstillöguna. 2. Minjastofnun Íslands, bréf dags. 17. maí 2013: Minjastofnun telur að ráðast þurfi í nokkuð umfangsmiklar rannsóknir á þeim minjum sem í hættu eru vegna fyrirhugaðra framkvæmda á skipulagssvæðinu. Minjastofnun hefur hafið vinnu við gerð áætlunar um nauðsynlegar rannsóknir áður en framkvæmdaleyfi verður veitt. 3. Skipulagsstofnun, bréf dags. 8. maí 2013: Stofnunin gerir eftirfarandi athugasemdir við umhverfisskýrslu og deiliskipulagstillögu:3.1: Meta þarf áhrif stíflu og uppistöðulóns á vatnafar og lífríki.3.2: Stofnunin gerir athugasemdir við að ekki séu settir skýrir og bindandi skilmálar um hreinsun útblásturs í deiliskipulagstillöguna. Í því samhengi er minnt á að deiliskipulag er grundvöllur leyfisveitinga.3.3: Stofnunin gerir athugasemdir við að ekki eru settir bindandi skipulagsskilmálar í deiliskipulagstillöguna um fyrirkomulag fráveitu frá fyrirhugaðri iðnaðarstarfsemi svæðisins.3.4: Stofnunin telur að marka þurfi stefnu fyrir það 7 ha svæði innan skipulagssvæðis þar sem í tillögu er gert ráð fyrir að skipulagi sé frestað.3.5: Setja þarf skýra skilmála um fyrirhugaða stíflu í Bakkaá sem og uppistöðulónið.3.6: Setja þarf skilmála um mengunarvarnir á iðnaðarlóðunum sem og um hreinsun útblásturs og fráveitumál.3.7: Stofnunin telur æskilegt að skýrlega komi fram í skipulagstillögu hvort nýtingarhlutfall miðast við stærð lóðar eða stærð byggingarreits.3.8: Stofnunin telur að ekki séu sýnd mörk iðnaðasvæðis austan þjóðvegar.3.9: Fjallað er um jarðstrengi í greinargerð en þeir eru ekki sýndir á uppdrætti.3.10: Skipulagsstofnun bendir á að notkun sömu hugtaka og lita á deiliskipulagsuppdrætti og eru notaðir til að skilgreina og tákna landnotkunarflokka á aðalskipulagi er ekki æskileg. 4. Erla Bjarnadóttir, Kjartan Traustason, Héðinn Jónasson, Sigríður Hörn Lárusdóttir, Katý Bjarnadóttir og Sigrún Ingvarsdóttir, bréf dags. 16. maí 2013. Eftirfarandi athugasemdir og ábendingar koma fram:4.1: Óskað er eftir upplýsingum um til hvaða fjalla á Tjörnesi sé verið að vernda útsýn frá þjóðvegi eins og mælt er fyrir um í aðalskipulagi.4.2: Ábending um að tillaga að svæði undir steypustöð austan þjóðvegar norðan Bakkaár sé í mótsögn við umfjöllun deiliskipulagstillögu um varðveislu útsýnis til fjalla.4.3. Óskað er eftir skýringum á hvar ætlað er að taka neysluvatn til nota á iðnaðarsvæði.4.4. Gerð er krafa um að könnuð verði áhrif sjónmengunar, hljóðstigs, ljós- og rykmengunar sem íbúar á Héðinshöfða muni verða fyrir á uppbyggingartíma og við rekstur fyrirhugaðra mannvirkja. Farið er fram á að mælingar þar að lútandi hefjist nú þegar svo hægt verði að nýta til samanburðar á síðari stigum.4.5: Bent er á að hvergi sé í skipulagstillögunni umfjöllun um hvaða áhrif stóriðja PCC muni hafa á landbúnað og lífsgæði á Héðinshöfða.4.6: Spurt er hvaða veðurfarsrannsóknir liggi til grundvallar mengunarútreikninga frá stóriðju á Bakka. Minnt er á að veðurathuganir hafi ekki verið gerðar á Bakka frá 2010 og veðurstöð á hafnarsvæði Húsavíkur hafi verið óvirk í langan tíma. Þess er krafist að veðurathugunarstöðvar á Bakka og í Húsavíkurhöfn verði endurvirkjaðar nú þegar.4.7: Spurt er um útblástur vinnuvéla og faratækja á framkvæmdatíma og rekstrartíma stóriðju á Bakka. Hver verða mengunaráhrif á íbúabyggð, ræktun lands og landbúnaðar á Héðinshöfða. Gerð er krafa um að tekið verði tillit til þeirra áhrifa við fyrirhugaðar framkvæmdir.4.8: Óskað er eftir ítarlegum upplýsingum um áhrif sambærilegrar verksmiðju í fullum rekstri og þeirrar sem PCC hyggst reisa á Bakka á íbúa, landbúnað, gróður og dýralíf. 4.9: Gerð er krafa um að staðfest verði af fulltrúum Norðurþings og eigendum PCC að með tilkomu kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka verði lífsgæðum íbúa og landeigenda á Héðinshöfða ekki skert. Ræktun, landbúnaður og lífríki á Héðinshöfða skerðist ekki og verðgildi fasteigna og annara mannvirkja rýrni ekki á uppbyggingartíma né við rekstur. Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulagsráðgjafa að gera tillögu að viðbrögðum við athugasemdum og ábendingum sem borist hafa.
3.Frágangur úthlutaðra lóða
Málsnúmer 201305024Vakta málsnúmer
Um miðjan sendi skipulags- og byggingarfulltrúi bréf á nokkra lóðarhafa ófullbyggðra lóða og óskaði úrbóta á frágangi þeirra. Við úttekt skipulags- og byggingarfulltrúa 12. júní 2013 kom í ljós að lítið hafði unnist við lagfæringar lóðanna. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að senda lóðarhafa að Lyngholti 2a kröfu um tafarlausar úrbætur vegna öryggismála á lóðinni að viðlögðum dagsektum. Öðrum þeim lóðarhöfum sem ekki hafa brugðist á fullnægjandi hátt við fyrra bréf verði send ítekun um úrbætur.
4.Einar Ófeigur Björnsson f.h. Lóns 2 ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir fjárhús að Lóni 2 í Kelduhverfi
Málsnúmer 201306006Vakta málsnúmer
Meðfylgjandi erindi eru teikningar unnar af Haraldi árnasyni á H.S.Á. teiknistofu. Meðfylgjandi erindi eru skriflegar yfirlýsingar nágranna um að þeir geri ekki athugasemdir við framkvæmdina. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið.
5.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir veitingahús að Hafnarstétt 5
Málsnúmer 201305063Vakta málsnúmer
Skipulags- og byggingarnefnd minnir á að samþykkt hefur verið breytt deiliskipulag af miðhafnarsvæði Norðurþings þar sem lagðar eru skýrar línur um hvað byggja má á hverri lóð. Ósk um byggingarleyfi verður afgreitt af byggingarfulltrúa þegar lagðar hafa verið fram fullnægjandi teikningar ef húsi sem samrýmist ákvæðum deiliskipulagsins.
6.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. sækir um leyfi til að breyta skiltavegg við hlið miðasöluhúss Hafnarstétt 7
Málsnúmer 201305065Vakta málsnúmer
Skipulags- og byggingarnefnd getur ekki tekið afstöðu til erindisins þar sem því fylgir ekki fullnægjandi teikning.
7.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. óskar eftir áframhaldandi stöðuleyfi fyrir skúra á þaki Nausts, Hafnarstétt 7
Málsnúmer 201306040Vakta málsnúmer
Fyrr á árinu tók skipulags- og byggingarnefnd þá afstöðu að leyfa óbreytt ástand frá fyrra sumri í því ljósi að seint gekk með lokafrágang deiliskipulags miðhafnarsvæðis. Skipulags- og byggingarnefnd leggur því til við bæjarstjórn að samþykkt verði áframhaldandi stöðuleyfi fyrir umræddum húsum til loka október 2013.
8.Völundur Snær Völundarson sækir um stöðuleyfi fyrir veitingatjald á þaki Nausts, Hafnarstétt 7
Málsnúmer 201306041Vakta málsnúmer
Fyrr á árinu tók skipulags- og byggingarnefnd þá afstöðu að leyfa óbreytt ástand frá fyrra sumri í því ljósi að seint gekk með lokafrágang deiliskipulags miðhafnarsvæðis. Skipulags- og byggingarnefnd leggur því til við bæjarstjórn að samþykkt verði stöðuleyfi fyrir veitingatjaldi til 15. september 2013.
9.Þórhildur Jónsdóttir og Jónas Sigmarsson sækja um lóðina Lyngholt 3
Málsnúmer 201305033Vakta málsnúmer
Þórhildur Jónsdóttir og Jónas Sigmarsson óska eftir úthlutun lóðarinnar að Lyngholti 3 eins og hún kemur fram í deiliskipulagi svæðisins. Ekki eru aðrir umsækjendur um lóðina. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að Þórhildi og Jónasi verði úthlutað lóðinni.
Fundi slitið - kl. 13:00.