Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings
Dagskrá
1.Deiliskipulag iðnaðarlóðar á Bakka
Málsnúmer 201209005Vakta málsnúmer
Rætt var um tímasetningar á almennum kynningarfundi um skipulagstillöguna. Þar sem skipulagsráðgjafi hefur ekki lokið tillögu að greinargerð skipulagsins leggur skipulags- og byggingarnefnd til við bæjarstjórn að almennum kynningarfundi um skipulagstillöguna verði frestað þar til í febrúar.
2.Deiliskipulag fyrir fiskeldið Rifósi
Málsnúmer 201211017Vakta málsnúmer
Nú er athugasemdafresti lokið við skipulagslýsingu vegna deiliskipulags fyrir fiskeldi í Lóni. 1. Skipulagsstofnun bendir á að deiliskipulagið fellur einnig undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og því þarf að vinna umhverfisskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í því samhengi er bent á að fyrir liggur ákvörðun um matsskyldu og starfsleyfi fyrir starfsemina og má hafa þær upplýsingar til hliðsjónar við gerð umhverfisskýrslu. Loks minnir stofnunin á að senda þarf Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun umhverfisskýrsluna til athugunar á auglýsingatíma hennar. 2. Umhverfisstofnun telur að fjalla eigi um fráveitur frá landkvíum í deiliskipulagi. Stofnunin telur einnig að gera verði grein fyrir áhrifum deiliskipulagsins á náttúruverndargildi svæðisins enda er meginhluti skipulagssvæðis innan svæðis nr. 532 á náttúruminjaskrá. 3. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra bendir á ákvæði reglugerðar nr. 533/2001 um breytingu á reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Þar kemur fram að umhverfis hvert vatnsból skal ákvarða verndarsvæði sem skiptist í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. 4. Guðmundur H. Eiríksson telur afmörkun deiliskipulagssvæðis of umfangsmikla og að hafa þurfi samráð við landeigendur um afmörkun skipulagssvæðis. 5. Rúnar Gústafsson, f.h. 50% eigenda Auðbjargarstaða, telur skipulagssvæðið of rúmt og tekur það ekki í mál að það nái inn fyrir landamerki Auðbjargarstaða í það minnsta. 6. Einar Ófeigur Björnsson telur skipulagssvæðið óþarflega stórt. Ekki stendur til að nýta nema lítinn hluta svæðisins undir mannvirki og því óþarft að skipuleggja það í þeim tilgangi. Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings telur að skipulagsaðili verði að fylgja þeim leiðbeiningum sem í athugasemdunum felast.
3.Deiliskipulag fyrir nýjan Dettifossveg
Málsnúmer 201209089Vakta málsnúmer
Vegagerðin og Vatnajökulsþjóðgarður óska eftir því við sveitarstjórn Norðurþings að "Deiliskipulag Dettifossvegar 862" verði tekið til formlegrar umfjöllunar. Deiliskipulagstillagan er lögð fram á fimm uppdráttum (A1) og í greinargerð. Meirihluti skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings áréttar sína afstöðu um að fyrirhugaður vegur sé mikilvæg samgönguæð og því óásættanlegt að umferðarhraði verði sérstaklega tekinn þar niður. Því er farið fram á að felld verði út úr greinargerð ítrekuð umfjöllun um leiðir til að draga úr umferðarhraða á aðalveginum. Meirihlutinn leggur til við bæjarstjórn að tillagan með fyrrgreindri breytingu verði auglýst til kynningar skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur að allar meginforsendur vegarins liggi fyrir í aðalskipulagi og telur því óþarft að halda almennan kynningarfund um skipulagstillöguna skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að senda Skipulagsstofnun áætlunina til umfjöllunar á grundvelli 7. gr. laga nr. 105/2006 og skipulagslaga. Arnþrúður leggur til að skipulagstillagan verði kynnt eins og hún er lögð fram.
4.Stracta Konstruktion ehf. sækir um lóð undir hótel
Málsnúmer 201301029Vakta málsnúmer
Stracta Konstruktion ehf óskar eftir viðræðum um allt að 8.000 m² lóð undir 100 herbergja hótel og veitingastað á Húsavík. Engin hæfileg lóð er til á skipulagi Norðurþings. Skipulags- og byggingarnefnd telur mögulega staðsetningu fyrir umrædda lóð á túnum gegnt sláturhúsi Norðlenska við Þingeyjarsýslubraut. Breyta þyrfti aðalskipulagi og útbúa deiliskipulag áður en til úthlutunar kæmi. Skipulagsnefndin lýsir sig reiðubúna til viðræðna um skipulagsvinnu og úthlutun lóðar undir hótel. Skipulags- og byggingarnefnd vísar málinu til umfjöllunar í bæjarráði.
Fundi slitið - kl. 13:00.