Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings
Dagskrá
1.Kynning á hlutverki og störfum skipulags- og byggingarnefndar
Málsnúmer 201406079Vakta málsnúmer
Gaukur Hjartarson, skipulags- og byggingarfulltrúi, kynnti verkefni skipulagsnefndar og starfshætti.
2.Breyting aðalskipulags v/ norðurhafnar
Málsnúmer 201406081Vakta málsnúmer
Vigfús Sigurðsson skipulagsráðgjafi mætti til fundarins og kynnti tillögu að breytingu aðalskipulags vegna nýrrar fyllingar í Norðurhöfn. Skipulags- og byggingarnefnd telur þá breytingu aðalskipulags sem kynnt er ekki falla undir ákvæði 2. mgr. 36 gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 eins og gengið er út frá í tillögunni. Því verði að fara með hana á grundvelli 1. mgr. 36. gr. Skipulagsráðgjafa er falið að vinna skipulagslýsingu vegna breytingarinnar fyrir næsta fund skipulags- og byggingarnefndar. Nefndin telur tillögu skipulagsráðgjafa til samræmis við þær hugmyndir sem áður hafa verið kynntar í framkvæmda- og hafnanefnd.
3.Breyting á deiliskipulagi norðurhafnar
Málsnúmer 201406082Vakta málsnúmer
Vigfús Sigurðsson kynnti tillögu að breytingu deiliskipulags Norðurhafnar til samræmis við áður samþykktar breytingar á aðalskipulagi sem og þeirri breytingu sem fjallað var um hér á undan. Skipulagsráðgjafi leggur til að deiliskipulög Norðurhafnar og Naustagarðs verði sameinuð í eitt deiliskipulag, enda lendi fyrirhuguð fylling innan beggja skipulagsreita. Skipulags- og byggingarnefnd fellst á að sameina deiliskipulögin í eitt. Farið verði með deiliskipulagsbreytingarnar sem skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Nefndin telur ekki þörf á gerð sérstakrar lýsingar enda skýr grein gerð fyrir meginbreytingum deiliskipulaga í áðurnefndum aðalskipulagsbreytingum. Skipulagstillögu, eins og hún var kynnt, er vísað til umfjöllunar í framkvæmda- og hafnarnefnd. Skipulagsráðgjafa er falið að vinna tillöguna áfram til samræmis við umræður á fundinum og mögulegum ábendingum framkvæmda- og hafnanefndar.
4.Efla hf. f.h. Vatnajökulsþjóðgarðs óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir vatns-, frá- og rafveitu fyrir ferðamannaaðstöðu við Dettifoss að vestan
Málsnúmer 201406070Vakta málsnúmer
Óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna vatnsveitu, rafveitu með vindmyllu og sólarsellum fyrir ferðamannaðstöðu við Dettifoss að vestanverðu. Veitur munu þjóna ferðamannaaðstöðu við Dettifoss. Meðfylgjandi erindi eru teikningar af fyrirhuguðum mannvirkjum. Fyrirhuguð veitumannvirki eru í samræmi við samþykkt deiliskipulag á svæðinu. Skipulags- og byggingarnefnd leggur því til við bæjarráð að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að veita umbeðið framkvæmdaleyfi.
5.Halldór Svanur Olgeirsson sækir um byggingarleyfi fyrir ferðaþjónustuhús að Bjarnastöðum
Málsnúmer 201406071Vakta málsnúmer
Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir ferðaþjónustuhús að Bjarnastöðum í Öxarfirði. Meðfylgjandi umsókn er teikningar unnar af Marinó Eggertssyni ásamt afstöðumynd. Flatarmál húss er 74,0 m² skv. framlögðum teikningum, byggt úr timbri og klætt með bárustáli eða sambærilegu efni. Fram kom að húsið hefur þegar verið reist á staðnum. Skipulags- og byggingarnefnd harmar að húsið skildi reist í heimildarleysi. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti þinglýst gögn sem staðfesta að land Bjarnastaða er óskipt með Sigtúnum. Skv. ákvæði gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð skal ekki byggja nær vötnum, ám eða sjó en 50 m. Nefndin frestar afgreiðslu erindisins þar til umsækjandi hefur lagt fram skriflegt samþykki meðeiganda að landinu.
6.Ingibjörg K. Steinbergsdóttir og Rúnar Birgisson óska eftir leyfi til að gera bílastæði vestan húss að Lyngbrekku 10
Málsnúmer 201405074Vakta málsnúmer
Óskað er eftir leyfi til að gera bílastæði vestan við Lyngbrekku 10 á Húsavík. Meðfylgjandi erindi er rissmynd til skýringar. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið.
7.Steinunn Sigvaldadóttir f.h. Norðursiglingar ehf. sækir um leyfi fyrir merkingum á nýju miðasöluhúsi
Málsnúmer 201405085Vakta málsnúmer
Óskað er eftir leyfi til að setja merkingar á nýja þjónustumiðstöð sem hýsir miðasölu. Aðalmerking eru fljótandi stafir á skyggni hússins ásamt þremur 4 m háum fánastöngum á sv-hlið hússins. Einnig er gert ráð fyrir gegnsæum merkingum á gleri hússins ásamt upplýsingaskjá í nyrsta glugga á framhlið. Meðfylgjandi umsókn eru teikningar af útfærslum. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir þær merkingar sem óskað er eftir.
8.Frágangur úthlutaðra lóða
Málsnúmer 201305024Vakta málsnúmer
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti stöðu ófrágenginna lóða við Stakkholt, Lyngholt og Laugarbrekku og fyrri umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar. Nokkrar lóðir í umræddum götum hafa staðið því sem næst óhreyfðar frá 2008 eftir að þar voru steyptar undirstöður húsa. Lóðarhafar flestra lóðanna brugðust við athugasemdum skipulagsnefndar í fyrrasumar og tóku til á sínum lóðum, þannig að þær geta talist þokkalegar útlits og ekki verulega hættulegar. Undantekning frá því er þó lóðin að Lyngholti 2a þar sem fátt hefur gerst þrátt fyrir ítrekaðar óskir um úrbætur. Skipulags- og byggingarfulltrúa falið að fara fram á tafarlausar úrbætur þar. Jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ræða við lóðarhafa að Laugarbrekku 23 um frágang þeirrar lóðar.
9.Sýslumaðurinn á Húsavík óskar eftir umsögn vegna leyfisveitingar til handa Örlygi H. Örlygssyni fyrir Vallholtsveg 9
Málsnúmer 201406017Vakta málsnúmer
Óskað er umsagnar vegna leyfisveitingar til sölu gistingar að Vallholtsvegi 9 á Húsavík. Skipulags- og byggingarnefnd veitir jákvæða umsögn um leyfi til sölu gistingar að Vallholtsvegi 9, enda verði eingöngu leigð út til gistingar þau rými sem ætluð eru til gistingar skv. samþykktum teikningum af húsinu. Örlygur vék af fundi við afgreiðslu þessa erindis.
10.Sýslumaðurinn á Húsavík, ósk um umsögn vegna leyfisveitingar til handa Elínu B. Hartmannsdóttur
Málsnúmer 201405089Vakta málsnúmer
Óskað er umsagnar um leyfi til sölu heimagistingar að Brúnagerði 4 á Húsavík. Skipulags- og byggingarnefnd veitir jákvæða umsögn um erindið, enda verði eingöngu leigð út til gistingar þau rými sem ætluð eru til gistingar skv. samþykktum teikningum af húsinu.
11.Súslumaðurinn á Húsavík, ósk um umsögn vegna leyfisveitingar til handa Jónu Jónsdóttur f.h. Norðlenska ehf
Málsnúmer 201406039Vakta málsnúmer
Óskað er eftir leyfi til sölu gistingar í Vísi Gistiheimili, Garðarsbraut 14 á Húsavík. Skipulags- og byggingarnefnd veitir jákvæða umsögn um erindið, enda verði eingöngu leigð út til gistingar þau rými sem ætluð eru til gistingar skv. samþykktum teikningum af húsinu.
12.Sýslumaðurinn á Húsavík, ósk um umsögn vegna leyfisveitingar til handa Óskari F. Jónssyni v/Hafnarstétt 5, áður Pallurinn
Málsnúmer 201406043Vakta málsnúmer
Óskað er eftir rekstrarleyfi til sölu veitinga á þaki Hafnarstéttar 7 þar sem áður var rekinn Pallurinn. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tölvupóst frá Óskari Jónssyni, dags. 25. júní s.l. þar sem hann gerir m.a. grein fyrir að mögulega verði eldhús á efri hæð Hafnarstéttar 7 notað til rekstrarins ef þörf er á. Skipulags- og byggingarnefnd telur sér ekki fært að veita jákvæða umsögn um sölu veitinga úr eldhúsi sem stendur í óleyfi bæjaryfirvalda og veitir því neikvæða umsögn um erindið meðan gert er ráð fyrir matsölu úr fyrrum eldhúsi Pallsins.
13.Bjarni Páll Vilhjálmsson og Elsa Björk Skúladóttir sækja um byggingarleyfi fyrir einbýlishús á lóð úr landi Saltvíkur
Málsnúmer 201403052Vakta málsnúmer
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti samþykki byggingaráforma fyrir íbúðarhús með sambyggðum bílskúr á lóð við Saltvík. Húsið er einnar hæðar timburhús á steyptum grunni, 234,5 m² að grunnfleti. Teikningar eru unnar af Bent Larsen Fróðasyni. Lagt fram til kynningar.
14.Júlíus Stefánsson f.h. Björgunarsveitarinnar Garðars sækir um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Naust, Hafnarstétt 7
Málsnúmer 201404026Vakta málsnúmer
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti samþykki byggingarleyfis fyrir viðbyggingu við Hafnarstétt 7. Viðbygging er steinsteypt, samtals 123 m². Teikningar voru unnar af Almari Eggertssyni byggingarfræðingi. Lagt fram til kynningar.
15.Pétur Eggertsson óskar eftir leyfi til að fjarlægja skorstein af íbúðarhúsinu að Höfðabrekku 25
Málsnúmer 201406049Vakta málsnúmer
Óskað er eftir leyfi til að fjarlægja skorstein af íbúðarhúsinu að Höfðabrekku 25 á Húsavík. Erindið var móttekið og samþykkt af byggingarfulltrúa 19. júní s.l. Lagt fram til kynningar.
16.Deiliskipulag brúarsvæðis við Jökulsá á Fjöllum
Málsnúmer 201402035Vakta málsnúmer
Vegagerðin hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi vegna tímabundinna athafnasvæða við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Skipulagstillagan hefur verið unnin í samráði við Skútustaðahrepp og Norðurþing. Hún tekur til vinnubúða og athafnasvæðis sem áformað er að setja upp vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar við byggingu nýrrar brúar við Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði og vegaframkvæmda á Hringvegi (1). Um er að ræða tímabundna notkun á svæði sem skilgreint er sem óbyggt svæði. Auk þess tekur deiliskipulagið til efnistökusvæða sem skilgreind eru í aðalskipulögum sveitarfélaganna. Að framkvæmd lokinni verða vinnubúðir fjarlægðar. Skipulagssvæðið sem er 170 ha að flatarmáli nær yfir breytta legu Hringvegarins, tvö námusvæði og fjögur athafnasvæði við brúarstæðið og þrjú svæði fyrir vinnubúðir sem hvert um sig er 1,0 ha að stærð.Við kynningu skipulagslýsingar bárust engar athugasemdir Norðurþingi, en í umsögn Skipulagsstofnunar dags. 27. mars 2014 var vakin athygli á að fyrirhugað deiliskipulag væri háð lögum um umhverfismat áætlana. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að skipulagstillagan verði kynnt til samræmis við ákvæði skipulagslaga í samráði við Skútustaðahrepp.
Fundi slitið.