Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

59. fundur 25. febrúar 2020 kl. 14:00 - 17:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Jónas Hreiðar Einarsson starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Smári Jónas Lúðvíksson, umhverfisstjóri sat fundinn undir liðum 1-3, 8-9.
Jónas Hreiðar Einarsson verkefnastjóri á framkvæmdasviði sat fundinn undir liðum 1-13.
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir liðum 3-10.
Ketill Gauti Árnason Verkefnastjóri á framkvæmdasviði sat fundinn undir liðum 10-11.

1.Almennt um sorpmál 2020

Málsnúmer 202001018Vakta málsnúmer

Fyrir fundi liggur kynning á þróun úrgangsmála í Norðurþingi.
Farið verður yfir aðferðir og árangur í flokkun og hvað má gera til að bæta þann árangur sem þegar hefur náðst.
Einnig verður farið yfir rekstur málaflokksing og þróun síðan 2007 til 2019.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar umhverfisstjóra fyrir kynninguna.

2.Útboð vegna sorphirðu 2020

Málsnúmer 202001017Vakta málsnúmer

Athugasemd barst vegna útboðs "Söfnun, flutningur, afsetning og endurvinnsla úrgangs ásamt rekstri móttökustöðvar á Húsavík fyrir sveitarfélögin Norðurþing og Tjörneshrepp 2020-2025 - 202001017"
athugasemdin var eftirfarandi
"Sæll Smári, með tilvísan í lið 0.1.7 í útboðsgögnunum gerir undirritaður athugasemd við lið 0.4.7: Meðferð og mat á tilboðum.
Vísað er í óvenju hátt hlufall á vægi umhverfisstjórnunarkerfis og gæðastjórnunarkerfis sem vega á 10% hvort um sig í útboði þessu.
Ljóst er að aðeins brot af íslenskum fyrirtækjum eru með slík kerfi til staðar í sínum rekstri.
Þau fyrirtæki sem ekki hafa þessi kerfi til staðar eiga ekki möguleika á því að taka þau upp áður en tilboðsfrestur er liðinn.
Það er því að mati undirritaðs líklegt að Norðurþing og Tjörneshreppur muni þurfa að greiða umtalsvert hærri fjárhæðir en ella og viðbúið er að bjóðendur verði talsvert færri fyrir vikið.
Undirritaður leggur því til við Norðurþing og Tjörneshrepp að umræddum kröfum verði breytt og vægi þeirra minnkað umtalsvert."

Svör við fyrirspurn voru eftirfarandi
Fyrirspurn 3: Tvær fyrirspurnir bárust um vægi gæða- og umhverfisstjórnunarkerfa í útboði en bæði vega 10% í heildareinkunn í útboði og tilboðsupphæð 80%. Gagnrýnt var hversu hátt vægi þessara kerfa væri og óskað eftir endurskoðun á vægi.
Svar: Tekið skal fram að gæðakerfi og umhverfisstjórnunarkerfi eru ekki nauðsynleg til að taka þátt í útboði og ekki krafa um þessi kerfi til að tilboði verði tekið. Norðurþing gerir hins vegar þá kröfu í sínum innkaupum á vörum og þjónustu að sínir birgjar og verktakar vinni eftir ákveðnum ferlum er varða gæði og umhverfismál, til að tryggja gæði vara/þjónustu og lágmörkun á umhverfisáhrifum. Efnisleg afstaða til breytinga á vægi þessara kerfa í útboðinu verður tekin á fundi skipulags og framkvæmdaráðs þriðjudaginn 25. febrúar n.k. Tilkynning verður send til allra aðila sem óskuðu eftir útboðsgögnum ef ákveðið verður að breyta vægi þessara kerfa í útboðinu. Að öðru leyti verður vísað í bókun ráðsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að breyta ekki útboðsgögnum.

Vert er að koma þeim upplýsingum á framfæri að ef tilboðsaðilar geta sýnt fram á staðfestingu eða samning þess efnis að þeir séu að koma sér upp vottuðu gæða- og/eða umhverfisstjórnunarkerfi og það yrði klárað fyrir gildistöku verksins þá sé horft til þess við mat tilboða.

3.Ósk um samþykki fyrir mögulegu landsvæði undir vindorkuver við Húsavík

Málsnúmer 202002096Vakta málsnúmer

Tryggvi Þór Herbertsson, f.h. Quadran Iceland Development ehf., óskar eftir heimild Norðurþings til að leggja fram til rammaáætlunar hugmyndir að landsvæði undir vindorkuver í landi Húsavíkur norðan Húsavíkurfjalls. Tryggvi kynnti áður hugmyndir fyrirtækisins í byggðaráði 14. nóvember s.l. Hugmyndir hafa mótast og lúta að uppsetningu allt að 61 MW vindmyllugarðs. Meðfylgjandi erindi er hugmynd að afstöðu vindmylla á svæðinu.
Tryggvi Þór kynnti verkefnið um síma.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið og gerir ekki athugasemdir við að fyrirliggjandi hugmyndir Quadran Iceland Development ehf. verði sendar inn til Orkustofnunar/Rammaáætlunar.

4.Rifós óskar eftir byggingarleyfi fyrir skemmu utan um fiskeldisker

Málsnúmer 202002083Vakta málsnúmer

Rifós hf. óskar eftir byggingarleyfi fyrir 1.772 m² skemmu utan um fiskeldisker á lóð fyrirtækisins við Lón í Kelduhverfi. Húsið er stálgrindarhús, klætt með PIR samlokueiningum. Teikningar eru unnar af Þorvaldi Vestmann byggingartæknifræðingi. Fyrir liggja jákvæðar umsagnir frá eldvarnareftirliti og heilbrigðiseftirliti.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur fyrirhugaða byggingu í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað inn.

5.Óska eftir uppskiptingu lóðar í þrennt.

Málsnúmer 202002086Vakta málsnúmer

Bjarni Páll Vilhjálmsson, f.h. Saltvíkur ehf., óskar eftir að lóð fyrirtækisins við Saltvík (L199175) verði skipt upp í þrjár lóðir undir aðskilin mannvirki.
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti hugmyndir að uppskiptingunni, þar sem Saltvík A utan um gamla íbúðarhús væri 2.656,2 m², Saltvík B utan um gistiskála væri 1.185,6 m² og Saltvík C utan um starfsmannahús væri 2.041,6 m².
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að uppskipting lóðarinnar í þrennt verði samþykkt til samræmis við fyrirliggjandi tillögu.

6.Óska eftir breyttri skráningu starfsmannahúss.

Málsnúmer 202002087Vakta málsnúmer

Bjarni Páll Vilhjálmsson, f.h. Saltvíkur ehf., óskar eftir því að starfsmannahús við Saltvík (mhl. 06 á lóð L199175) verði skráð sem íbúðarhús.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að hvorki rýmisstærðir, gluggastærðir né einangrun gólfs og þaks fullnægi kröfum byggingarreglugerðar til íbúðarhúsnæðis og fellst því ekki á breytingu skráningar.

7.Umsókn um byggingarleyfi fyrir frístundarhúsi að Reykjavöllum.

Málsnúmer 202002089Vakta málsnúmer

Hilmar Kári Þráinsson óskar eftir byggingarleyfi fyrir 68,5 m² gestahúsi við Reykjavelli í Reykjahverfi. Fyrirhuguð bygging er timburhús, klætt timburklæðningu, ein hæð auk geymslu í risrými. Fyrir liggja teikningar unnar af Sæmundi Óskarssyni. Einnig liggur fyrir skriflegt samþykki nágranna að Litlu Reykjum.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur grenndarkynningu fullnægjandi og að fyrirhuguð bygging samræmist ákvæðum aðalskipulags um uppbyggingu á lögbýlum.

Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað.

8.Umsókn um landaafnot norðan Kópaskers.

Málsnúmer 201909028Vakta málsnúmer

Hverfisráði hefur verið sent málið til umsagnar og var tekið fyrir á íbúafundi í síðustu viku. Íbúar hafa áhyggjur af moldarfoki, lyktarmengun ef notast verður við úrgang og spyrja hvort möguleiki sé að annað land ekki svona nærri þorpinu gæti hentað betur. Einnig var bent á að í skipulagi er þetta hugsað undir íbúðir og vonir standi til að verðandi starfauppbygging samhliða fiskeldi gæti kallað á uppbyggingu húsnæðis.
Skipulags- og framkvæmdaráð hvetur hverfisráð Öxarfjarðar til að fá kynningu á verkefninu í samráði við formann skipulags- og framkvæmdaráð og í kjölfarið að veita ráðinu formlega umsögn.

9.Norðlenska óskar heimildar til dreifingar á gori og blóði í nágrenni Húsavíkur til uppgræðslu

Málsnúmer 202002064Vakta málsnúmer

Norðlenska óskar eftir samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing um að dreifa gori og blóði sem til fellur í sláturtíð Norðlenska til uppgræðslu á gróðurrýru landi í nágrenni Húsavíkur. Á undanförnum árum hefur gori og blóði frá Norðlenska verið dreift á Hólasandi í samstarfi við Landgræðsluna. Nú sér fyrir endann á því verkefni. Í sláturtíð falla til um 500 tonn af blóði og gori sem reiknað er með að verði dreift á um 15 ha af landi. Landið þarf að vera afgirt og beit ekki heimiluð á landinu í 20 ár eftir síðustu dreifingu.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að gera úttekt á mögulegum stöðum í nágrenni Húsavíkur til uppgræðslunnar. Í því samhengi er einkum horft til mögulegrar samlegðar með fyrirhugaðri skógrækt Kolviðar í landi Norðurþings á Ærvíkurhöfða, en aðrir möguleikar verði einnig skoðaðir.

10.Ósk um kaup á íbúð Norðurþings

Málsnúmer 201910123Vakta málsnúmer

Á 56. fundi skipulags og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað um málið: Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að íbúðin verði auglýst til sölu.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að afturkalla söluheimild á íbúðinni.

11.Ósk um aðkomu að endurbótum hússins Breiðabliks á Raufarhöfn

Málsnúmer 202002063Vakta málsnúmer

Erindi hefur borist frá íbúa á Raufarhöfn um samkomulag varðandi framtíð hússins Breiðabliks á Raufarhöfn. Beðið er um að sveitarfélagið veiti fjármagni til hússins á næstu fjórum árum í viðhald, eina milljón á ári. Einnig að sveitarfélagið afsali sér húsinu til eldri borgara á Raufarhöfn og felli niður fasteignagjöld og eftirlitskostnað við framkvæmdir við húsið en borgi áfram rekstrarkostnað af húsinu sem er tæp milljón á ári.
Undirritaðir óska bókað:
Undirritaðir þakka erindi Hólmsteins Helgasonar ehf. er varðar málefni húseignarinnar Breiðabliks á Raufarhöfn. Um er að ræða málefni sem lengi hefur velkst í stjórnsýslu sveitarfélagsins og erfitt hefur verið að ná lendingu um.
Að mati undirritaðara hefur skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings þær skyldur á herðum sér að stefna að því að sveitarfélagið Norðurþing komist á þann stað að framkvæmdaáætlun hvers árs feli í sér þá fjárhagslegu sjálfbærni að eignum sveitarfélagsins verði sæmilega viðhaldið frá ári til árs með tilliti til meðalfjárhags. Því miður er staða dagsins í dag ekki sú og er dæmi um slíkt að finna á öllum þéttbýlisstöðum sveitarfélagsins.
Lausnir á vandamálinu virðast annarvegar felast í sölu eigna eða úreldinu eftir atvikum.
Hugmyndir hafa verið uppi um að færa starfsemi eldri borgara í grunnskóla Raufarhafnar sem er nú er vannýtt húsnæði sem sveitarfélagið hyggst halda við og reka áfram.

Eftirfarandi atriði geta undirritaðir samþykkt til þess að vilji hluteigandi nái fram að ganga sem eru eftirfarandi.

-
Norðurþing afhendi Hólmsteini Helgasyni á Raufarhöfn húsið til eignar
-
Norðurþing leggi til framlag til verkefnisins sem t.d. má hugsa sem jafngildi kostnaðar við að farga eigninni, ca 1 mill á ári næstu 4 ár.
-
Norðurþing innheimti ekki kostnað vegna framkvæmdanna s.s. varðandi úttektir byggingafulltrúa, eldvarnareftirlits o.þ.h.

Undirritaðir geta ekki samþykkt þær kvaðir Hómsteins Helgasonar ehf. að sveitafélagið Norðurþing muni undirgangast þær kvaðir að greiða rekstarkostnað af eigninni Breiðablik ef Félag Eldri borgara á Raufarhöfn fær húsið til eignar eins og hugmyndir Hólmsteins Helgasonar ehf. gera ráð fyrir, né fella niður fasteignagjöld af eigninni.
Frekari meðferð málsins er í höndum Byggðaráðs og fjölskylduráðs.
Guðmundur og Kristinn.

Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fyrir erindið og tekur jákvætt í það en bendir á að verkið er ekki á framkvæmdaáætlun ársins 2020. Viðhald eigna sveitarfélagsins er víða aðkallandi. Á Raufarhöfn er unnið í viðhaldi á ráðhúsinu. Auk þess hafa viðhaldsverkefni í grunnskólanum, sundlaug, íþróttamiðstöð og Hnitbjörgum áður komið á borð ráðsins.
Sveitarfélagið hefur ekki heimild til að fella niður fasteignagjöld en fordæmi eru fyrir því að félög sæki um styrk á móti fasteignagjöldum. Slíkt er á ábyrgð hvers og eins félags.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að fela framkvæmda- og þjónustufulltrúa ásamt sveitarstjóra að boða Hólmstein Helgason ehf., Félag eldri borgara og hverfisráð Raufarhafnar á fund til að ræða málið.



12.Bráðabirgðaryfirlit fyrstu vatnaáætlunar fyrir Ísland, til kynningar

Málsnúmer 202002084Vakta málsnúmer

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að bráðabirgðaryfirlit fyrstu vatnaáætlunar fyrir Ísland hefur nú verið auglýst til kynningar. Hér gefst tækifæri til að koma með ábendingar eða athugasemdir um verndun vatns sem gætu nýst við gerð vatnaáætlunarinnar sem mun taka gildi árið 2022. Sjá nánar frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/02/18/Bradabirgdayfirlit-fyrstu-vatnaaaetlunar-Islands-er-komid-ut/?fbclid=IwAR16oi-jFUlpAPgJPoXjZig2ySz0j8H-9HYNVRRxoMBK35PG4wqOo82rjtA
Lagt fram til kynningar

13.Beiðni frá Rannsóknastöðinni Rifi um samstarf við Norðurþing - þjónusta rykmæla

Málsnúmer 202002068Vakta málsnúmer

Forstöðumaður Rannsóknarstöðvarinnar Rifs óskar eftir samstarfi við Norðurþing og Áhaldahúsið á Raufarhöfn fyrir hönd Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Raufarhöfn. Málið varðar þjónustu við rykmæla sem fyrirhugað er að setja upp á Raufarhöfn í lok mars 2020.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að gera drög að samningi og leggja fyrir ráðið að nýju.

Fundi slitið - kl. 17:00.