Fara í efni

Skipulags- og umhverfisnefnd

2. fundur 12. apríl 2016 kl. 14:00 - 19:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfull
  • Guðmundur Halldór Halldórsson varamaður
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingafulltrúi
Dagskrá

1.Umsókn um byggingarleyfi fyrir sumarhús að Stekkjarsult 1 Sultum Kelduhverfi

Málsnúmer 201603089Vakta málsnúmer

Umsókn um byggingarleyfi fyrir sumarhús að Stekkjarsult 1 að Sultum í Kelduhverfi. Fyrirhuguð bygging er 72,5 m² auk 26,8 m² svefnlofts. Aðalhönnuður er Þröstur Sigurðsson hjá Opus ehf. Þar sem húsið er stærra en heimilt er skv. deiliskipulagi fylgdi skriflegt samþykki annara lóðarhafa á svæðinu með umsókn.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að framlögð grenndarkynning sé fullnægjandi og samþykkir fyrir sitt leiti frávik frá gildandi deiliskipulagi. Byggingarfulltrúa er því falið að gefa út byggingarleyfi þegar hann telur gögn fullnægjandi.

2.Lóðaumsókn á suðurfyllingu

Málsnúmer 201603147Vakta málsnúmer

GPG Seafood óskar eftir lóðunum að Fiskifjöru 2 og Suðurgarði 8 til byggingar kæli- og frystigeymslu annarsvegar og hinsvegar geymsluhúsnæðis.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur við hafnanefnd og sveitarstjórn að GPG Seafood verði boðnar umbeðnar lóðir þegar þær verða tilbúnar til uppbyggingar.

3.Flóki sækir um lóð á Suðurhafnarsvæði

Málsnúmer 201604083Vakta málsnúmer

Óskað er eftir lóð undir starfsemi fyrirtækisins á nýdeiliskipulögðu suðurhafnarsvæði. Meðfylgjandi umsókn er greinargerð um byggingaráform og nýtingu lóðarinnar.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við hafnanefnd og sveitarstjórn að Flóka ehf verði boðin lóðin að Fiskifjöru 4 þegar hún verður tilbúin til uppbyggingar.

4.Almar Eggertsson f.h. fjárfesta lýsir yfir áhuga á lóðinni að Búðarfjöru 1 til uppbyggingar heilsuræktarmiðstöðvar m.m.

Málsnúmer 201604059Vakta málsnúmer

Almar Eggertsson, f.h. fjárfesta, lýsir yfir áhuga á lóðinni að Búðarfjöru 1 til að byggja upp heilsuræktarmiðstöð, aðra tengda starfsemi og skrifstofur. Meðfylgjandi erindi er greinargerð um byggingaráform.
Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar telur að sú starfsemi sem óskað er eftir að byggja upp á lóðinni samræmist ekki ákvæðum aðalskipulags og leggur því til við Sveitarstjórn að umsækjendum verði ekki boðin lóðin. Örlygur leggur til að umsækjendum verði boðin lóðin.

5.Trésmiðjan Rein sækir um tvær lóðir í suðurfjöru þ.e.við Fiskifjöru nr. 1 og 3

Málsnúmer 201602107Vakta málsnúmer

Trésmiðjan Rein óskar eftir að fá vilyrði fyrir lóðunum að Fiskifjöru 1 og 3 skv. deiliskipulagi Suðurhafnar. Meðfylgjandi umsókn er greinargerð um byggingaráform.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að Trésmiðjunni Rein verði úthlutað umbeðnum lóðum þegar þær verða tilbúnar til bygginga.

6.Faglausn fyrir hönd Naustið ehf sækir um lóðarstækkun á lóð Ásgarðsvegur 1 Húsavík

Málsnúmer 201604076Vakta málsnúmer

Óskað er eftir lóðarstækkun um 160 m² að Ásgarðsvegi 1 skv. teikningu frá Faglausn.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að lóðin verði stækkuð til samræmis við framlagða mynd.

7.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi til handa Flóka ehf til sölu veitinga

Málsnúmer 201604057Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd veitir jákvæða umsögn um erindið.

8.Framhaldserindi frá Safnafólk á Húsavík varðandi staðsetningu skilta á Húsavík

Málsnúmer 201604056Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að setja upp skilti við þak verbúða. Skilti merki áhugaverða staði og opinbera þjónustustaði. Meðfylgjandi erindi er teikning sem sýnir hugmynd að útliti skiltisins.
Skipulags- og umhverfisnefnd felst fyrir sitt leyti á uppsetningu skiltisins. Nánari útfærsla og staðsetning verði unnin í samráði við byggingarfulltrúa. Sif og Örlygur véku af fundi við afgreiðslu þessa erindis.

9.Umsókn um sameiningu lóða að Smiðjuteig 7 a og b í Reykjahverfi. Einnig er sótt um stækkun á lóð um 40 m til suðurs

Málsnúmer 201604054Vakta málsnúmer

Óskað er eftir sameiningu lóða 7a og 7b við Smiðjuteig. Jafnframt er óskað eftir stækkun lóðarinnar um 40 m til suðurs.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að lóðirnar verði sameinaðar og stækkaðar skv. fram komnu erindi.

10.Kvartanir vegna ónæðis við gistiheimili að Iðavöllum 6 - Húsavík

Málsnúmer 201603059Vakta málsnúmer

Norðurþingi hafa borist kvartanir frá nágrönnum gisitheimilis að Iðavöllum 6 á Húsavík. Telja nágrannarnir ýmiskonar ónæði af þeirri starfsemi sem þar fer fram.
Skipulags- og umhverfisnefnd harmar þau óþægindi sem nágrannar verða fyrir vegna gistisölu að Iðavöllum 6. Nefndin hvetur aðila til að koma athugasemdum sínum á framfæri til leyfisveitanda sem er Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra.

11.Faglausn ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir hönd Naustið ehf. að Ágarðsvegi 1

Málsnúmer 201604040Vakta málsnúmer

Faglausn ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir hönd Naustsins ehf. að Ágarðsvegi 1. Gert er ráð fyrir umtalsverðum breytingum á innra skipulagi hússins, niðurrif á gömlu bíslagi og nýbygging mun stærri viðbyggingar. Teikningar eru unnar af Almari Eggertssyni hjá Faglausn. Fyrir liggja jákvæðar umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Vinnueftirliti og Eldvarnareftirliti. Ennfremur liggur fyrir samþykki nágranna að Ásgarðsvegi 3.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti og heimilar byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

12.Deiliskipulag í Reitnum

Málsnúmer 201510034Vakta málsnúmer

Nú er liðinn athugasemdafrestur vegna skipulagstillögu íbúðarsvæðis í Reitnum. Minjastofnun veitti umsögn um skipulagstillöguna í bréfi dags. 7. apríl. Þar kemur fram að ekki séu skráðar fornminjar innan skipulagssvæðisins, en nokkrar minjar eru hinsvegar skráðar skammt utan skipulagsmarka. Gæta verði þess að raska ekki þeim minjum við framkvæmdir á svæðinu. Minjavörður horfir til þess að kanna betur skipulagssvæðið þegar snjóa leysir og ákveða í framhaldinu frekari skilyrði til framkvæmda. Stofnunin minnir einnig á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 þar sem fram kemur að finnist ókunnar minjar við framkvæmd verks skal þegar stöðva verkið og hafa samráð við Minjastofnun um framhaldið. Aðrar athugasemdir eru ekki gerðar. Vegagerðin tilkynnti með bréfi dags. 11. apríl að ekki væru gerðar athugasemdir við skipulagstillöguna. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tilkynnti með bréfi dags. 8. apríl að ekki væru gerðar athugaemdir við skipulagstillöguna. Grímur Kárason og Sylvía Ægisdóttir gera athugasemdir við byggingarmagn og hæðir húsa að Grundargarði 2 og Ásgarðsvegi 27. Uppbyggingin muni hafa í för með sér stóraukna umferð um Ásgarðsveg og Grundargarð, ekki síst þar til búið verði að tengja Stóragarð inn á Þverholt eins og aðalskipulag gerir ráð fyrir. Bæði húsin muni geta aukið gríðarlega á snjósöfnun við Ásgarðsveg 25 vegna skjóláhrifa. Byggingarnar muni skyggja verulega á sólargang á lóðinni að Ásgarðsvegi 25. Útsýni frá Ásgarðsvegi 25 til austurs muni skerðast verulega vegna fyrirhugaðrar byggingar að Ásgarðsvegi 27. Bílastæði að Grundargarði 2 séu við lóðarmörk að Ásgarðsvegi 25 og muni þau hafa í för með sér umtalsverða truflun á lóðinni ekki síst í formi hljóðmengunar. Ef bygging húsanna tveggja mun ná fram að ganga verður umtalsverð breyting á ásýnd svæðisins, opin svæði munu skerðast verulega sem jafnframt þrengir að uppsöfnunarstöðum fyrir snjómokstur. Einnig óskar Grímur lóðarstækkunar.
Með bréfi dags. 11. apríl komu athugasemdir frá Hlöðveri Stefáni Þorgeirssyni. Hlöðver telur óþarft að skipuleggja íbúðarlóðir utan þegar byggðra svæða í Reitnum. Nægilegt rými ætti að vera fyrir fyrirliggjandi íbúðaþörf innan núverandi afmörkunar byggðarinnar.

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fram komnar athugasemdir.

Umsagnir Minjastofnunar, Heilbrigðiseftirlits og Vegagerðarinnar kalla ekki á breytingar á skipulagstillögunni. Nefndin telur að tveggja hæða hús á lóðunum að Ásgarðsvegi 27 og Grundargarði 2 geti hvorki valdið verulegri skuggamyndun á lóðinni að Ásgarðsvegi 25 né umtalsverðri snjósöfnun. Í því samhengi er bent á að byggingarreitur að Ásgarðsvegi 27 er 10 m frá lóðinni að Ásgarðsvegi 25 og byggingarreitur að Grundargarði 20 m frá lóðarmörkum. Vissulega mun þétting byggðar við Grundargarð og Ásgarðsveg auka á umferð og þar með hljóðmengun á þeim götum. Slíkt er óhjákvæmilegur fylgifiskur þéttbýlis sem og útsýnisskerðing á flatlendi. Skipulagsnefndin fellst á að stækka lóðina að Ásgarðsvegi 25 um 2 m til vesturs og samsvarandi útvíkkun byggingarreits. Skipulagsnefndin tekur ekki undir sjónarmið Hlöðvers. Við gerð aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 var tekin nokkuð ítarleg umræða um þéttingu byggðar á Húsavík. Í aðalskipulaginu er hvergi gert ráð fyrir meðalstórum fjölbýlishúsum annarsstaðar en í Reitnum. Nefndin telur þörf á lóðum undir fjölbýlishús á Húsavík og því tímabært að undirbúa slíkar lóðir í deiliskipulagi. Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga snýst um það.

Skipulagsnefnd leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á skipulagsuppdrættinum:
1. Felldir verði út byggingarreitir af Grundargarði 4 og 6 enda teljast lóðirnar fullbyggðar.
2. Rétt væri að fella út byggingarreiti sem teiknaðir eru utan skipulagssvæðisins.
3. Skilgreina þyrfti hámarks og lágmarks íbúðarfjölda fyrir hverja lóð.
4. Stilla þyrfti upp sniðmyndum af fyrirkomulagi mögulegra bílakjallara.
5. Skilgreint verði í greinargerð að reisa megi eitt smáhýsi á hverri lóð, allt að 15 m² að flatarmáli og 3 m að hæð.
6. Sett verði í deiliskipulagsskilmála að ekki sé heimilt að selja gistingu í atvinnuskyni á lóðum sem óbyggðar eru við samþykkt skipulagsins.
7. Gert verði ráð fyrir aðkomu að hverri íbúð í raðhúsum frá Ásgarðsvegi.
8. Gera þarf kröfu um aðkomu slökkvibíla að húshliðum.
9. Breikka göngustíg í gegn um fjölbýlishúsasvæði í 4 m til að leyfa þar umferð slökkvibíla og annarar neyðarumferðar.
10. Lagfæra þarf byggingarreiti fjölbýlishúsalóða við Ásgarðsveg.
11. Leiðrétta þarf afmörkun lóðar að Grundargarði 6 og þar með skerða lóðina að Ásgarðsvegi 27.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem tilgreindar eru hér að ofan.

13.Flóki ehf. sækir um stækkun lóðar sinnar að Hafnarstétt 21

Málsnúmer 201603138Vakta málsnúmer

Flóki ehf. sækir um stækkun lóðar sinnar að Hafnarstétt 21 til norðurs að Hafnarstétt 19.
Lóð Hafnarstéttar 19 nær að húsvegg Hafnarstéttar 21. Sveitarfélagið er því ekki í stöðu til að verða við umbeðinni lóðarstækkun.

14.Flóki ehf. sækir um leyfi til að byggja svalir og fl. við Hafnarstétt 21

Málsnúmer 201603139Vakta málsnúmer

Flóki ehf. sækir um leyfi til að byggja svalir 8 m út frá framhlið Hafnarstéttar 21.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst ekki á stærð þeirra svala sem óskað er leyfis fyrir. Nefndin getur hinsvegar fallist á svalir að lóðarmörkum ef breytingar á deiliskipulagi þar að lútandi ná fram að ganga.

15.Óskarsson ehf. sækir um leyfi fyrir breytingum við Mararbraut 13. Um er að ræða lagfæringu á framhlið og fl.

Málsnúmer 201603137Vakta málsnúmer

Óskarsson ehf. sækir um leyfi fyrir breytingum við Mararbraut 13. Um er að ræða lagfæringu á framhlið og fl.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur fyrir sitt leyti vel í hugmyndir að breytingum á umræddu svæði. Mikilvægt er þó að gera skýra grein fyrir framkvæmdunum áður en hafist er handa. Einnig þarf að vera sátt um fráganginn við nágrannann að Mararbraut 15 sem og Vegagerðina.

16.Óskarsson ehf. sækir um að fá tímabundin afnot af almenna svæðinu milli nýstækkaðra lóða að Mararbraut 15 og 17

Málsnúmer 201603136Vakta málsnúmer

Óskarsson ehf. sækir um að fá tímabundin afnot af almenna svæðinu milli nýstækkaðra lóða að Mararbraut 15 og 17
Umrætt svæði milli lóðanna að Mararbraut 15 og 17 er hugsað sem göngustígur og því fellst nefndin ekki á að það verði notað sem bílastæði.

17.Ásgeir Kristjánsson fyrir hönd Varar Húsavík sækir um leyfi fyrir útlitsbreytingum að Naustagarði 2.

Málsnúmer 201603117Vakta málsnúmer

Ásgeir Kristjánsson fyrir hönd Varar Húsavík sækir um leyfi fyrir breyttum teikningum af Naustagarði 2. Breytingar felast í að rými veitingastaðar er aukið verulega frá því áður var. Bætt er við gluggum á vesturhlið. Fyrir liggja teikningar unnar af Sigurði Jakobssyni. Ennfremur liggja fyrir jákvæðar umsagnir frá Vinnueftirliti, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og eldvarnareftirliti.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið.

18.Neyðarlínan sækir um að setja niður hús fyrir neyðar- og öryggisfjarskiptaaðstöðu upp á Höskuldsvatnshnjúk

Málsnúmer 201603104Vakta málsnúmer

Neyðarlínan sækir um leyfi til að setja niður þrjá 12 m háa timburstaura og lítið hús fyrir neyðar- og öryggisfjarskiptaaðstöðu upp á Höskuldsvatnshnjúk. Meðfylgjandi erindi er hnitsett mynd af 2.500 m² lóð og afstöðu fyrirhugaðra mannvirkja innan lóðarinnar.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að Neyðarlínunni verði veitt lóð undir mannvirkin skv. framlagðri mynd og heimilaðar framkvæmdir til samræmis við erindið.

19.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um nýtt rekstrarleyfi til sölu á gistingi í Stóragarði 6 neðstu hæð

Málsnúmer 201604046Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um nýtt rekstrarleyfi til sölu gistingar í neðstu hæða Stóragarðs 6. Fyrir er í gildi samsvarandi rekstrarleyfi í tveimur efri íbúðum sama húss.
Heiti gististaðar er Old School Stóragarði 6
Rekstrarleyfi gistaður: Flokkur II.
Skipulags- og byggingarnefnd veitir jákvæða umsögn um erindið.

20.Arnar Sigurðsson óskar eftir að fá stækkun á lóð við Stóragarð 6 og byggja þar hús

Málsnúmer 201602097Vakta málsnúmer

Arnar Sigurðsson fyrir hönd Sjóferða Arnars sækir um lóðarstækkun og byggja hús fyrir ferðamenn að Stóragarði 6. Erindið var áður til umfjöllunar á síðasta fundi skipulags- og umhverfisnefndar.
Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar leggst gegn umbeðinni lóðarstækkun á þessu stigi. Örlygur Hnefill er hlynntur umbeðinni lóðarstækkun.

21.Deiliskipulag suðurhafnar

Málsnúmer 201511061Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á breytingu deiliskipulags suðurhafnar á Húsavík. Athugasemdir bárust frá Minjastofnun með bréfi dags. 7. apríl. Þar er minnt á að það eru skráðar fornminjar í sjávarbakkanum innan skipulagssvæðisins þó þar standi ekki til að raska landi. Ef komið verði niður á fornminjar skuli stöðva framkvæmdir strax og leita umsagnar Minjastofnunar varðandi framhald. Heilbrigðisseftirlit Norðurlands eystra skilaði inn umsögn í bréfi dags. 8. apríl. Þar er f.o.f. minnt á að skipulagssvæðið er áberandi frá þjóðvegi í gegn um bæinn. Því sé sérlega mikilvægt að halda húshæðum í lágmarki og sérstaklega að huga í því samhengi að mannvirkjum sem standa upp fyrir mænishæðir meginbygginga. Vegagerðin telur að 2-3 m breiður göngustígur meðfram brimvörn sunnan Búðarár muni ekki duga til að viðhalda brimvörnum. Jafnframt er sérstaklega tiltekið að ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði vegna sjóvarna vegna landfyllinga. Hlöðver Stefán Þorgeirsson gerir athugasemdir við skipulagstillöguna með bréfi dags. 11. apríl. Hlöðver telur að ekki eigi að byggja sunnan núverandi bygginga við Suðurgarð og skilgreina það svæði sem útivistarsvæði. Ef byggt verður á svæðinu verði að setja skýrari takmarkanir á verslunar og þjónustustarfsemi á svæðinu. Aðrar umsagnir bárust ekki.
Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fram komnar athugasemdir. Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á skipulagstillögunni:

1. Færðar verði inn á skipulagsuppdrátt skráðar fornminjar innan skipulagssvæðisins og þeirra getið í greinargerð.
2. Settir verði skilmálar í greinargerð skipulagsins um að ekki verði leyfðir strompar hærri en 15 m frá botnkóta húsa og síló verði ekki hærri en 10 m.
3. Settir verði skilmálar um að ekki verði heimilt að geyma lausamuni til lengri tíma sunnan byggingarreita lóðanna að Fiskifjöru 4 og 5 eða Búðarfjöru 1.
5. Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir sjónarmið Vegagerðarinnar og leggur til að tekið verði frá 6 m breytt svæði milli lóða og brimvarnargarðs sunnan Búðarár sem nýtist sem gönguleið og akstursleið.
6. Eins og fyrirspurnir og lóðarumsóknir hafa sýnt er veruleg þörf fyrir þær lóðir sem gert er ráð fyrir norðan nýs farvegar Búðarár. Ekki er á þessu stigi búið að taka ákvörðun um tímasetningu uppfyllingar sunnan Búðarár. Við endurskoðun aðalskipulags kæmi til álita að skilgreina hluta fjörunnar sunnan Búðarár sem útivistarsvæði, en ákvörðun um breytingu þar að lútandi yrði tekin síðar.
7. Skipulagssvæðið er að hluta hafnarsvæði og að hluta athafnasvæði. Ekki er því gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi á svæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við hafnarnefnd og sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með ofangreindum breytingum. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að auglýsa gildistöku skipulagsbreytingarinnar að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar.

22.Breyting á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 201411063Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á breytingum deiliskipulags Miðhafnarsvæðis á Húsavík. Athugasemdir bárust eingöngu frá Flóka ehf. 1. Flóki óskar eftir að fá að byggja allt að 8 m svalir fram úr Hafnarstétt 21 og mögulega hreinlætisaðstöðu þar undir. 2. Flóki ehf hefur áhuga á lagfæringum á sínu húsi á næstu árum og í því ljósi horfa til þess að fá að hafa hönd í bagga með framkvæmdum til úrbóta á svæðinu. Mögulega innifælu þær hugmyndir breytingar á gönguleið frá kirkju niður á Hafnarstétt. 3. Gerð er athugasemd við að lóð Hafnarstéttar 19 sé sýnd alveg að húsinu að Hafnarstétt 21. Flóki hefur í huga að steypa upp nýjan norðurvegg og væri eðlilegt að steypa hann upp í sundinu milli húsa. Ennfremur er bent á að í sundinu hefur verið gámur án stöðuleyfis til margra ára. Nánar þurfi að útfæra í skipulagi hvernig ætlunin er að nýta svæðið milli húsa við Hafnarstétt og Garðarsbrautar.
Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fram komnar athugasemdir.
1. Nefndin fellst ekki á að leyfa svalir 8 m út frá núverandi vegg. Hinsvegar fellst nefndin á að heimilt verði að byggja svalir að lóðarmörkum sem eru 4 m frá húsvegg á lóðunum að Hafnarstétt 21 og 23.
2. Í gildandi deiliskipulagi er nokkuð fjallað um fyrirkomulag svæðis milli húsa við Hafnarstétt og Garðarsbrautar. Nefndin fagnar nánara samráði við hagsmunaaðila um frágang þess svæðis.
3. Lóð Hafnarstéttar 19 er teiknuð á uppdrátt til samræmis við gildandi lóðarleigusamning og sveitarfélagið því ekki í stöðu til að stækka lóð Hafnarstéttar 21 til norðurs.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt með þeirri breytingu sem fram kemur að ofan.

Fundi slitið - kl. 19:00.