Fara í efni

Tillögur að breytingum aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 og nýjum deiliskipulögum ásamt umhverfisskýrslum

Bæjarstjórn Norðurþings auglýsir hér með til almennrar kynningar eftirfarandi skipulagstillögur og tilheyrandi umhverfisskýrslur.

 

  1. Breyting aðalskipulags vegna tilfærslu háspennumannvirkja á Bakka.  Breytingin felst í tilfærslu tengivirkis innan iðnaðarsvæðisins um 700 m til suðurs og austur fyrir þjóðveg.  Tilfærslu tengivirkis fylgir tilfærsla háspennulína á um 4-5 km kafla næst Bakka.  Ennfremur er færð inn í skipulagsbreytinguna tilfærsla á Tjörneslínu (11 kV) um iðnaðarsvæðið sem þegar hefur verið unnin.  Skipulagstillagan ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu eru sett fram á einum uppdrætti á blaðstærð A1.
  2. Breyting aðalskipulags vegna stækkunar sorpförgunarsvæðis á Kópaskeri.  Áformuð er stækkun sorpförgunarsvæðis á Kópaskeri úr 2,6 ha í um 28 ha.  Gert er ráð fyrir að hluti sorpförgunarsvæðisins verði notaður til urðunar, hluti fyrir byggingar og athafnasvæði og að hluta svæðisins sé óráðstafað.  Skipulagstillagan ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu eru sett fram á einum uppdrætti á blaðstærð A2.
  3. Breyting aðalskipulags vegna lagningar jarðstrengs frá Höfuðreiðarmúla að tengivirki á Húsavík.  Skipulagsbreytingin fellst í að skilgreind er lega jarðstrengs (66 kV) meðfram Reykjaheiðarvegi frá Höfuðreiðarmúla að tengivirki á Húsavík.  Skipulagstillagan ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu eru sett fram á einum uppdrætti á blaðstærð A2.
  4. Tillaga að deiliskipulagi 1. áfanga iðnaðarsvæðis við Bakka.  Tillaga þessi er lítillega breytt frá tillögu skipulags sama svæðis sem kynnt var s.l. vor.  Deiliskipulagið nær til 77 ha svæðis í suðurhluta iðnaðarsvæðis við Bakka.  Tillagan skilgreinir 23,6 ha lóð undir kísilmálmvinnslu sunnan Bakkaár og vestan þjóðvegar nr. 85.  Auk lóðar fyrir kísilmálmvinnslu eru skipulagðar lóðir fyrir annan tengdan iðnað og þjónustu s.s. slökkvistöð, spennivirki raforku og skólphreinsi-/skólpdælustöð.  Einnig er inni á deiliskipulagssvæðinu gerð grein fyrir uppistöðulóni í farvegi Bakkaár austan þjóðvegar sem tryggja á aðgengi að slökkvivatni fyrir iðnaðarsvæðið. Samhliða er kynnt tillaga að breytingu aðalskipulags á svæðinu sbr. hér að ofan.  Deiliskipulagstillagan er í samræmi við þær breytingar aðalskipulagsins.  Skipulagstillagan er sett fram á uppdrætti (mkv. 1:2.500 á A1) auk greinargerðar með umhverfisskýrslu.
  5. Tillaga að deiliskipulagi sorpförgunarsvæðis við Kópasker.  Deiliskipulagið nær til um 28 ha lands og þar af er urðunarsvæðið 9,6 ha.  Gert er ráð fyrir urðun á allt að 500 tonnum af almennum úrgangi árlega.  Nyrst á svæðinu er reitur undir tímabundna geymslu brotajárns.  Skilgreindur er byggingarreitur við aðkomu að svæðinu þar sem byggja má allt að 50 m²  þjónustuhús og allt að 300 m² vélageymslu.  Einnig er skilgreindur byggingarreitur fyrir aðstöðu skotæfingasvæðis.  Skipulagstillagan ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu eru sett fram á einum uppdrætti á blaðstærð A2.

 

Skipulagstillögurnar ásamt umhverfisskýrslum verða til sýnis á bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík frá 7. nóvember 2013 til 19. desember 2013.  Ennfremur er hægt að skoða skipulagstillögurnar með því að smella á tenglana í liðum 1-5 hér að ofan.  Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til og með fimmtudeginum 19. desember 2013.  Skila skal skriflegum athugasemdum til bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík.  Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillögurnar teljast þeim samþykkir.

Húsavík 4. nóvember 2013

Gaukur Hjartarson
Skipulags- og byggingarfulltrúi