Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

321. fundur 26. mars 2020 kl. 08:30 - 10:57 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Silja Jóhannesdóttir varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá
Fundurinn fer fram í gegnum Teams fjarfundabúnað í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings þann 23. mars sl.

1.Tún, tómstunda- og menningarhús - skráning raunverulegra eigenda

Málsnúmer 202003081Vakta málsnúmer

Borist hefur bréf frá Fyrirtækjaskrá Skattsins vegna skráningar á raunverulegum eigendum félagsins; Tún, tómstunda- og menningarhús. Engin stofngögn finnast um félagið né yfirlit yfir rekstur þess. Fyrirtækjaskrá Skattsins mælir með að félaginu verði slitið.
Byggðarráð samþykkir að slíta félaginu og felur sveitarstjóra framkvæmd þess.

2.Erindi frá UMF Austra á Raufarhöfn

Málsnúmer 202002032Vakta málsnúmer

Á fundi fjölskylduráðs þann 24. febrúar sl. var tekið fyrir erindi frá UMF Austra vegna kaupa á tækjum í íþróttamiðstöðina á Raufarhöfn. Óskað var eftir framlagi á móti framlagi Austra.
Fjölskylduráð vísaði erindinu til skipulags- og framkvæmdarráðs.
Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þann 10. mars sl. var erindið tekið fyrir og bókaði ráðið;
Skipulags- og framkvæmdaráð vísar styrkbeiðninni til byggðaráðs.
Byggðarráð samþykkir að veita 550.000 króna styrk til Ungmennafélagsins Austra til kaupa á líkamsræktartækjum í Íþróttamiðstöðina á Raufarhöfn í samræmi við áður afgreiddan styrk til kaupa á líkamsræktartækjum á Kópaskeri.

3.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202003051Vakta málsnúmer

Samþykkt byggðarráðs færð í trúnaðarmálabók.

4.Styrktarsjóður EBÍ

Málsnúmer 202003070Vakta málsnúmer

Styrktarsjóður EBÍ var stofnaður árið 1996 og er tilgangur sjóðsins að styrkja með fjárframlögum sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu- og menningarmálum í aðildarsveitarfélögum. Sveitarfélaginu er hér með boðið að senda inn umsókn um stuðning við verkefni vegna sérstakra framfaraverkefna á vegum þess. Umsóknarfrestur er til aprílloka.
Vísað til umræðu í fjölskylduráði og skipulags- og framkvæmdaráði.

5.Skúlagarður fasteignafélag ehf. - fundargerðir 2020

Málsnúmer 202003059Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð aðalfundar Skúlagarðs - fasteignafélags frá 12. mars sl.
Lagt fram til kynningar.

6.Fundargerðir SSNE 2019 - 2020

Málsnúmer 202002015Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 7. fundar stjórnar SSNE frá 11. mars sl.
Lagt fram til kynningar.

7.Fundargerðir Markaðsstofu Norðurlands 2020

Málsnúmer 202002023Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja fundargerðir stjórnar Markaðsstofu Norðurlands frá 16. og 18 mars sl. ásamt upplýsingum um stöðu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi.
Byggðarráð þakkar starfsmönnum stofunnar fyrir upplýsingar um stöðu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi um þessar mundir.
Lagt fram til kynningar.

8.Alþingi: Drög að fumvarpi til kosningalaga; opnið samráðsferli

Málsnúmer 202003073Vakta málsnúmer

Í október 2018 skipaði forseti Alþingis starfshóp um endurskoðun kosningalaga til að fara yfir fyrri tillögur um efnið með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni. Jafnhliða skyldi starfshópurinn kanna kosti þess að setja heildarlöggjöf um framkvæmd allra almennra kosninga og skoða eftir því sem tími og aðstæður leyfa kosti rafrænnar kjörskrár. Í starfshópnum sitja fulltrúar landskjörstjórnar, dómsmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrár Íslands auk fulltrúa forseta Alþingis.

Starfshópurinn hefur nú útbúið drög að frumvarpi til kosningalaga sem lögð hafa verið á vef Alþingis í opið samráð. Lagt er til að lögin gildi um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, um framboð og kjör forseta Íslands og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Markmið frumvarpsins er að styrkja lýðræði með því að viðhalda trausti á framkvæmd kosninga og tryggja að beinar, frjálsar og leynilegar kosningar séu haldnar reglulega. Meginefni frumvarpsins lúta að breyttri stjórnsýslu kosninga og einföldun regluverks.

Tekið er á móti umsögnum og ábendingum á netfangið kosningalog@althingi.is til 8. apríl nk. Að loknu samráðsferli mun starfshópurinn fara yfir athugasemdir sem berast og í kjölfarið skila forseta Alþingis fullbúnu frumvarpi.
Lagt fram til kynningar.

Kristján Þór Magnússon kom inn á fundinn kl. 9:35.

9.Aðgerðarhópur Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna Covid-19

Málsnúmer 202003079Vakta málsnúmer

Á 100. fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 12. mars síðastliðinn var samþykkt að stofna aðgerðahóp á vegum Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna Covid-19. Hópurinn hefur komið saman til þriggja funda undanfarna viku og liggja fyrir byggðarráði fundargerðir hópsins ásamt vinnugögnum vegna mögulegra sviðsmynda í rekstri sveitarfélagsins á árinu. Sömuleiðis liggur fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 19. mars sl. þar sem hvatt er til að hrinda í framkvæmd eins og kostur er hugmyndum og ábendingum að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf og fjölskyldur í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum.
Grunnstefið í viðbrögðum Norðurþings við Covid-19 faraldrinum byggir meðal annars á tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga að aðgerðum til viðspyrnu.
Byggðarráð samþykkir eftirfarandi aðgerðir sem gilda fyrir tímabilið 16. mars til og með 31. maí. Fyrirkomulag þessa verður endurskoðað fyrir 15. maí:

- Leiðrétt verður fyrir þeirri skerðingu sem nú er orðin og fyrirséð er að verði á þjónustu við barnafjölskyldur í leik- og grunnskólum. Það þýðir að ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem ekki er veitt í mötuneytum grunnskóla, frístundaheimilum og leikskólum. Fyrirframgreidd gjöld mynda inneign sem kemur til lækkunar á gjöldum að loknu tímabili þjónustuskerðingar.
- Ferðaþjónustufyrirtæki sem nýta þjónustu Hafnasjóðs Norðurþings fá niðurfellingu á farþegagjöldum.

Byggðarráð felur sveitarstjóra framkvæmd þessara aðgerða í samráði við viðkomandi sviðsstjóra.

Aðgerðarhópur Norðurþings mun vinna áfram að frekari tillögum að viðbrögðum við því ástandi sem nú ríkir s.s. innheimtu fasteignagjalda og ýmissa þjónustugjalda sveitarfélagsins. Þær tillögur verða lagðar fram í byggðarráði í næstu viku.

Hafrún Olgeirsdóttir víkur af fundi kl. 10:54.

Fundi slitið - kl. 10:57.