Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

341. fundur 08. október 2020 kl. 08:30 - 11:35 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir varaformaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason áheyrnarfulltrúi
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Samtal við ferðaþjónustuaðila um viðbrögð vegna Covid-19

Málsnúmer 202006056Vakta málsnúmer

Stjórn Húsavíkurstofu hvetur byggðaráð í áframhaldandi vinnu varðandi viðbrögð við Covid-19 faraldursins. Það þarf að fylgjast með og kynna sér vel það ástand sem skapast hefur meðal ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu og í framhaldi leggja línur sem komast til móts við það áfall sem greinin hefur orðið fyrir.

Sumarið kom betur út en nokkur þorði að vona en þó er ljóst að öll fyrirtæki fóru ekki varhluta af þeim samdrætti sem átti sér stað vegna faraldursins og mörg hver að keyra sumarið á litlum hluta af þeirri innkomu sem hefur verið undanfarin ár. Það horfir einnig í erfiðan vetur í greininni og það gæti tekið langan tíma fyrir fyrirtæki að komast aftur á vel rekstrarhæfan grunn.

Ferðaþjónustan er mikilvæg samfélaginu ekki einungis sem stór atvinnugrein heldur fylgir henni þjónusta og viðburðir sem allir íbúar njóta góðs af.

Stjórn Húsavíkurstofu býður sig fram að vera innan handar og til ráðgjafar varðandi komandi verkefni sem varðar ferðaþjónustuna á Húsavík og nágrenni.

Á fund byggðarráðs koma Hinrik Wöhler, Daniel Annisius og Heiðar Halldórsson frá Húsavíkurstofu.
Byggðarráð þakkar fulltrúum Húsavíkurstofu fyrir komuna og gott samtal um stöðu verslunar og þjónustu á svæðinu. Byggðarráð hefur óskað eftir því að eiga áframhaldandi samtal við fulltrúa Húsavíkurstofu í nóvember.

2.Fjárhagsáætlun Norðurþings 2021

Málsnúmer 202006044Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur uppfærð tekjuáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2021 ásamt uppfærðri útkomuspá fyrir árið 2020 og römmum fyrir árið 2021.
Lagt fram til kynningar.

3.Brothættar byggðir - umræða um verkefni í Öxarfirði og á Raufarhöfn

Málsnúmer 202008009Vakta málsnúmer

Byggðarráð hefur til umræðu með hvaða hætti sveitarfélagið bregðist við í Öxarfirði þegar byggðaverkefninu Öxarfirði í sókn lýkur nú um áramót. Í þessu samhengi er horft til þess hvernig sveitarfélagið hefur sinnt hlutverki sínu í þessu sama tilliti eftir að verkefnið Raufarhöfn og framtíðin kláraðist, en þar hefur sveitarfélagið, í samstarfi við SSNE haldið úti starfi atvinnu- og samfélagsfulltrúa frá árinu 2018.
Lagt fram til kynningar.
Sveitarstjóra er falið að vinna áfram að starfslýsingu í samræmi við þær hugmyndir sem koma fram í minnisblaði frá sveitarstjóra dagsettu 7. október 2020.

4.Vík ses. - Bygging íbúðakjarna fyrir fatlaða

Málsnúmer 202010040Vakta málsnúmer

Norðurþing sótti um framlag til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um framlag til byggingar íbúðakjarna fyrir fatlaða sem hefur verið samþykkt. Ákveðið var að fara í alútboð á verkefninu og barst eitt tilboð í byggingu íbúðakjarnans sem nú liggur fyrir byggðarráði til yfirferðar. Fyrir liggur að taka ákvörðun um framhald málsins m.t.t. þess ramma sem verkefninu var skapað og tilboðsins sem barst í uppbyggingu hússins.
Byggðarráð felur sveitarstjóra, fyrir hönd Víkur hses., að ganga til samninga við tilboðsgjafa á grunni þess tilboðs sem barst.
Heildartilboðsfjárhæð í íbúðakjarna fyrir fatlaða með VSK hljóðaði upp á 178.311.750 krónur.
Byggðarráð vísar verkefninu til kynningar í skipulags- og framkvæmdaráði og fjölskylduráði.

5.Byggðakvóti í Norðurþingi

Málsnúmer 202001139Vakta málsnúmer

Borist hefur svarbréf Byggðastofnunar vegna óskar um samstarf um úthlutun sértæks byggðakvóta til Kópaskers á grundvelli byggðaátaksverkefnisins Brothættar byggðir, Öxarfjörður í sókn.
Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi bókun;
Í maí fyrr á þessu ári óskaði sveitarfélagið Norðurþing eftir úthlutun á sértækum byggðakvóta til Kópaskers á grundvelli byggðaátaksverkefnisins Brothættar byggðir, Öxarfjörður í sókn til Byggðastofnunar. Fyrst nú, 7. október berst sveitarfélaginu svar við ósk sinni þar sem erindinu er hafnað.
Hlutdeild Kópaskers í almennum byggðarkvóta hefur verið 22 tonn, síðastliðin 3 ár. Tíu ár þar áður var hlutdeild Kópaskers 39 tonn í almennum byggðakvóta. Kópasker hefur aldrei fengið hlutdeild í sértækum byggðakvóta. Engin línuívilnun er á Kópaskeri.
Í bréfi Byggðastofnunar kemur fram að stofnunin muni taka málið upp við ráðherra um aukið aflamark. Það er jákvætt. Forsvarsmenn sveitarfélagsins, þingmenn og ráðherrar þurfa að beita sér í málinu.

Í sáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar ? græns framboðs segir: „Mikilvægt er að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir og viðhalda fjölbreytni í vaxtarmöguleikum til að tryggja afkomuöryggi þeirra“. Byggðastofnun hefur verið falið að skilgreina hugtakið sjávarbyggð. Mikill fjöldi lítilla sjávarþorpa og dreifing þeirra um landið á sér rætur í eftirsóknarverðri nálægð við fengsæl fiskimið og mikilvægi strandsiglinga í samgöngum og verslun á fyrri hluta 20. aldar.

Byggðastofnun kom að úthlutun sértæks byggðakvóta á Raufarhöfn enda þá hluti af verkefninu Brothættar byggðir. Kópasker/Öxarfjörður er nú hluti af verkefninu Brothættar byggðir en ekki hefur tekist að skapa fjölbreytni eða vaxtarmöguleika í sjávarútvegi á Kópaskeri. Engin regluleg fiskvinnsla er á Kópaskeri. Til þess vantar kvóta. Úthlutun kvóta, forsendur og aflamark í bæði almenna byggðakvótakerfinu og sértæku úthlutunni er mannanna verk og nú þarf kjark til að úthluta kvóta á Kópaskeri með öllum tiltækum ráðum. Ítarlegri umfjöllun um sjávarbyggðir þar sem fjallað er um jákvæða þróun á verkefninu Brothættar byggðir, mikilvægi sjávarútvegs o.fl. má lesa í minnisblaði forstjóra Byggðastofnunar síðan 6. júní 2019 til samgönguráðherra.

Byggðarráð tekur undir bókunina.



6.Möguleg uppbygging vindorku í Norðurþingi - staða máls

Málsnúmer 202009185Vakta málsnúmer

Kynnt hefur verið fyrir byggðarráði fyrr á þessu ári að tveir aðilar óskuðu eftir því við Orkustofnun f.h. verkefnisstjórnar um rammaáætlun, að teknir yrðu til skoðunar í fjórðu rammaáætlun hugmyndir þeirra um vindorkugarð norðaustan við Húsavíkurfjall. Sveitarstjóri gerir grein fyrir framvindu málsins frá því í vor.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna áfram að því að möguleikar til uppsetningar á vindorkuveri verði kannaðir til hlýtar.

7.Umræður um flugmál

Málsnúmer 202010044Vakta málsnúmer

Flugfélagið Ernir hefur þjónustað íbúa Þingeyjarsýsla vel á undangengnum árum og farþegafjöldi um Húsavíkurflugvöll verið á bilinu 10-18 þúsund farþegar á ári þegar mest hefur verið. Engum dylst að blikur eru á lofti í innanlandsflugi og fyrirtæki í flugrekstri berjast í bökkum.
Byggðarráð Norðurþings lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu innanlandsflugsamgangna til og frá Húsavík. Vegna óvissu sem skapast hefur í kjölfar útboðs á flugleiðum til og frá Bíldudal, Gjögri og Hafnar í Hornafirði er ekki enn búið að leggja fram áætlun fyrir flug til og frá Húsavík frá og með 1. nóvember næstkomandi. Ráðið leggur alla áherslu á að flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll verði tryggðar til framtíðar. Jafnframt að þær verði á þeim forsendum og sambærilegu gæðum og flugfélagið Ernir hefur boðið uppá og sinnt með miklum sóma undanfarin ár. Það er nöturleg tilhugsun í kjölfar þess að ríkið hefur komið á svokallaðri Loftbrú, að þá séu flugsamgöngurnar í þessari óvissu. Búsetuskilyrði og lífsgæði íbúa í Þingeyjarsýslum og víðar er nátengd því að geta nýtt sér öruggar og traustar flugsamgöngur á viðráðanlegu verði um þennan mikilvæga flugvöll.

8.Ársþing SSNE 2020

Málsnúmer 202009076Vakta málsnúmer

Breyting hefur orðið á boðuðu ársþingi SSNE sem haldið verður 9. - 10. október nk. en þingið verður haldið með rafrænum hætti.
Lagt fram til kynningar.

9.Fréttabréf SSNE 2020

Málsnúmer 202004036Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur 7. tbl. fréttabréfs SSNE frá september 2020.
Lagt fram til kynningar.

10.Fréttabréf Húsavíkurstofu 2020

Málsnúmer 202005100Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fréttabréf Húsavíkurstofu í september 2020.
Lagt fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2020 - Samband íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 202002019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja fundargerðir 887. og 888. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 25. september og 29. september sl.
Lagt fram til kynningar.

12.Fundir sveitarstjórnar, ráða og nefnda sveitarfélagsins

Málsnúmer 202010047Vakta málsnúmer

Umræða um mögulega fjarfundi á næstunni.
Byggðarráð beinir því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að framlengja bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga um heimild til fjarfunda samanber neðangreint;

"Alþingi samþykkti þriðjudaginn 17. mars sl. breytingar á sveitarstjórnarlögum sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Breytingarnar kveða á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku."

13.Drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun

Málsnúmer 202010049Vakta málsnúmer

Til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda eru nú drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.
Umsagnarfrestur er til 9. október nk.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:35.